15.11.1943
Efri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

99. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Það þýðir ekki að vera lengi að teygja lopann um þetta mál og karpa um það. Ég vil segja, að það nær ekki nokkurri átt að frv. sé eins skaðlegt nú og það var upphaflega fyrir fiskræktina, því að maður verður að treysta því að málið sé tryggt, þar sem það verður fyrst að fara til veiðimálan., sem á að líta eftir nytjafiski í ósöltu vatni, og einnig til landbn., sem maður verður að gera ráð fyrir, að láti sér annt um þá nytjafiska, sem ganga frá fjöru til fjalls, og leyfi ekki ádrátt fyrir laxárósinn nema í ýtrustu nauðsyn. Það hefur ekkert komið fram, sem mælir móti því, að óhætt sé að draga fyrir í mynni Svarfaðardalsár á sumum tímum árs. Hitt er ekki hægt að girða fyrir, ef menn vilja í óleyfi l. fara í ádrátt, nema með refsingum, eftir því sem l. mæla fyrir um.

Ég vil taka það fram aftur, að ef hv. fyrri þm. Eyf. (BSt) vill koma með brtt. fyrir 3. umr., er sjálfsagt, að landbn. taki hana til athugunar. ef hún virðist til bóta fyrir málið.