25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

27. mál, fjárlög 1944

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara öðru í ræðu hv. þm. V.-Sk., Sveinbjörns Högnasonar, er talaði hér síðast, en því, sem hann sagði um gagnrýni okkar alþflm. á Mjólkursamsölunni og till. okkar um takmörkun á mjólkursölu til setuliðsins. Hann gleymdi reyndar að geta um það, að sú skylda er lögð á herðar mjólkursamsölunnar í l. um sölu mjólkur o. fl. frá 1935, í 7. gr., að sjá neytendum fyrir nægilegri mjólk. Hann gleymdi að geta um það, að sala til setuliðsins er því beinlínis lagabrot, á meðan ekki er séð fyrir nægilegri mjólk handa innlendum neytendum. Hann gleymdi enn að geta um það, að íslenzkir neytendur í bæjunum, sem enga mjólk fengu, voru látnir borga að verulegum hluta mjólkina handa hinu erlenda setuliði, sem þeir fengu ekki sjálfir að kaupa. Og hann gleymdi loks alveg að geta þess, að þegar kurteisar aðfinnslur voru bornar fram, vegna þessarar sölu, var ekki svarað öðru en ónotum og skömmum. — Má svo hver lá okkur sem vill, að við neyddumst til að bera fram þáltill. um þetta efni, meðal annars til þess að kenna þessum hv. þm. og öðrum hans félögum, að lögin eiga að ná til hans eins og annarra í þessu landi. Fleira þarf ég svo ekki að segja við þennan hv. þm. að svo stöddu.

Það var nokkurn veginn fyrirfram vitað, að þessar eldhúsumræður mundu verða með nokkuð öðrum hætti en venjulega, þar sem alþingismenn skiptast nú ekki eftir stuðningi við núverandi hæstv. ríkisstjórn og stjórnarandstæðingar eru ekki til sem flokkur, og ekki heldur stjórnarsinnar, en hitt kemur mér dálítið undarlega fyrir sjónir, að umræðurnar skuli að langsamlega mestu leyti snúast um það málið, sem ekkert eða sama og ekkert hefur verið rætt á þessu þingi, sem nú situr. Alþingi hefur nú bráðum verið að störfum í þetta sinn í þrjá mánuði, en tillögur til úrbóta í dýrtíðarmálinu hafa verið undarlega fáar, eða réttara sagt engar enn sem komið er. Að háttv. þingmenn skuli því velja sér þetta mál að aðalumræðuefni, kemur því sjálfsagt til af því, að þeir hafa ekki góða samvizku í þessu máli og þeim finnst þeir þurfa að afsaka sig, sumir meira, aðrir minna, en allir eitthvað.

Alþýðuflokkurinn mun þá ekki heldur neita því að taka þátt í þessum umræðum, einkum og sér í lagi vegna þess, að honum er fullljóst, hverja úrslitaþýðingu þessi mál geta haft fyrir afkomu þjóðarinnar í heild, og eins vegna þess, að Alþfl. hefur borið fram þær tillögur í þessum málum, sem líklegastar eru til úrbótar. Ég tel því réttast að gefa hér stutt yfirlit yfir það helzta, sem gerzt hefur í málinu, síðan fyrst var byrjað um það að tala, því að það gefur þá beztu og sönnustu mynd af því, sem hægt er að gefa.

Með lögunum um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi, sem sett voru í apríl 1939, voru gerðar hinar fyrstu dýrtíðarráðstafanir, þar sem óttazt var um, að gengislækkunin mundi annars hafa í för með sér verðhækkun á ýmsum nauðsynjavörum. Þessar ráðstafanir voru í höfuðaðtriðum eftirfarandi:

1. Hækkun landbúnaðarafurða var látin hlíta sömu reglum og hækkun kaupgjalds láglaunaðs verkafólks, m. ö. o. ákveðið, að þáverandi hlutfall milli afurðaverðs og kaupgjalds skyldi haldast óbreytt.

2. Hækkun húsaleigu var bönnuð.

3. Hækkun útlánsvaxta var bönnuð.

4. Verðlagseftirlitið var skerpt.

Þessar ráðstafanir gáfu yfirleitt góða raun, því að verðlag hækkaði á tímabilinu apríl-okt. þetta ár, eða fram að þeim tíma, er áhrif ófriðarins fóru að segja til sín, um aðeins 3%. Þessar dýrtíðarráðstafanir eru því áreiðanlega þær, sem langbezt hafa náð tilgangi sínum af öllum ráðstöfunum fyrr og síðar í þessa átt, sem gerðar hafa verið, og má hiklaust þakka það fyrst og fremst þeirri ráðstöfun, að haldið var föstu hlutfallinu milli afurðaverðsins og kaupgjaldsins, eins og það var þá. Strax í stríðsbyrjun hækkaði verðlagið reyndar lítilsháttar á erlendu vörunni, þannig að framfærsluvísitalan var 1. jan. 1940 komin upp í 112, en einmitt þá var stigið örlagaríkasta sporið í dýrtíðarmálunum, það spor, sem markað hefur stefnuna síðan og kom af stað því eiginlega dýrtíðarkapphlaupi, sem enn er ekki séð fyrir endann á, og á ég hér við það óheillaspor, þegar numið er úr lögum það ákvæði, að verðlagið á landbúnaðarvörunum skyldi fylgja kaupgjaldi verkafólks. Þarna var varnargarðurinn móti dýrtíðinni rofinn, en ekki 1942, eins og Hermann Jónasson sagði í gær. Hefði þetta atriði enn verið í lögum, mundi dýrtíðin ekki vera nema nokkur hluti af því, sem hún nú er. Afleiðingarnar komu líka brátt í ljós. Vísitala landbúnaðarafurða var haustið 1940 komin upp í 163 stig, en á sama tíma var vísitala framfærslukostnaðar 142 stig og kaupgjaldsvísitalan 127. Með öðrum orðum, landbúnaðarafurðirnar höfðu á þessu stutta tímabili, sem liðið var frá því að þær voru rofnar úr tengslum við kaupgjaldið, hækkað meir en helmingi meira en kaupgjaldið.

Um áramótin 1940/41 gengu úr gildi kaupbindingarákvæði gengislaganna, og notuðu verklýðsfélögin sér það yfirleitt til að semja um fulla verðlagsuppbót á kaupið, og aðeins einstaka um nokkra grunnkaupshækkun. Má yfirleitt segja það verklýðsfélögunum til verðugs lofs, að þau notuðu sér ekki það tilefni, sem þá þegar var gefið með mikilli hækkun landbúnaðarafurðanna, til að fara lengra, sem þó hefði ekki verið óeðlilegt.

Á miðju ári 1941 var borið fram af meiri hl. fjhn. Nd. fyrir tilmæli viðskiptamálaráðherra þáverandi, Eysteins Jónssonar, frumvarp um ráðstafanir til tekjuöflunar o. fl. vegna dýrtíðarinnar. Voru í þessu frumvarpi hin illræmdu ákvæði um launaskatt, sem þó náðu ekki fram að ganga. Annars varð frv. að lögum allbreytt frá því, sem það var upphaflega, er það var lagt fram. Aðalatriði þessara laga voru:

1. Heimild til að fella niður með öllu eða lækka tolla af tilteknum nauðsynjavörum.

2. Heimild til að ákveða farmgjald af vörum.

3. Heimild til að verja fé úr ríkissjóði til að koma í veg fyrir, eftir því sem hægt væri, að verðlag á innlendum og erlendum vörum hækki og til þess að styðja þá framleiðendur, sem af styrjaldarástæðum eru knúðir til að selja framleiðsluvörur sínar óeðlilega lágu verði.

4. Heimild til að innheimta með 10% álagi tekju- og eignarskatt og til að leggja á sérstakt útflutningsgjald á íslenzkar afurðir, allt að 10%, og enn fremur að hækka um 50% tolla á áfengi og tóbaki og gjald af innlendum tollvörum, og loks að verja úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr., allt til að halda niðri dýrtíðinni.

Þessar heimildir, sem fólu í sér allmikla möguleika til að halda dýrtíðinni í skefjum, voru þó ekki notaðar nema að mjög óverulegu leyti, enda hélt dýrtíðin áfram að vaxa á árinu úr 146 stigum í ársbyrjun í 177 stig í árslok.

Á síðara aukaþinginu 1941, sem aðallega eða eingöngu var kallað saman til að ræða um dýrtíðarmálin, lagði Alþfl. fram sínar tillögur. Þær voru í höfuðatriðum þessar:

1. Samræming alls verðlagseftirlits hjá einum aðila, er starfi á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Skyldi verðlagsákvörðun þessi ná til innlendra jafnt sem erlendra vörutegunda.

2. Fastari grundvöllur fyrir verðlagseftirlitið til að starfa eftir.

3. Afnám allra tolla á skömmtunarvörur og nokkrar aðrar vörutegundir.

4. Lækkun farmgjalda niður í það, sem þau voru fyrir stríð.

5. Stofnun dýrtíðarsjóðs og ákvæði um tekjuöflun til hans, til þess að koma í veg fyrir aukningu dýrtíðarinnar. Dýrtíðarsjóði séu tryggðar ca. 14 millj. kr. tekjur, auk útflutningsgjalds.

6. Úr dýrtíðarsjóði sé einnig varið fé til að styrkja þá framleiðendur, sem ekki fá viðunandi verð fyrir afurðir sínar.

7. Hinni almennu heimild um útflutningsgjald sé breytt í heimild til að leggja útflutningsgjald á vörur, sem fluttar eru út með stríðsgróða.

8. Heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa birgðir af nauðsynlegum vörum og annast dreifingu þeirra á þann hátt, er hún telur heppilegastan.

Óhætt má fullyrða, að ef eftir þessum tillögum hefði verið farið, hefði verið hægt að halda niðri dýrtíðinni, og sennilega hefði einnig mátt lækka hana. Kom þar til greina, hversu miklu fé hefði verið til þess varið. En í staðinn fyrir að samþykkja þetta frv. var ekkert gert, og dýrtíðin hélt áfram að vaxa upp í 177 stig um áramótin, eins og áður er sagt.

Atburðirnir um áramótin 1941/42 eru enn í svo fersku minni, að ekki þarf að rifja þá upp. Nokkur iðnfélög höfðu farið fram á lítilsháttar grunnkaupshækkun, sem atvinnurekendur í viðkomandi iðngreinum höfðu ýmist gengið að eða stóðu í samningum um. Öllum samningaumleitunum var þá skyndilega, hætt og gerðardómslögin frægu sett. Alþfl. mótmælti þessari skipan málanna með öllum þeim þunga, sem hann átti til, og er þau samt sem áður voru látin ganga í gildi, hélt hann uppi á móti þeim harðri baráttu, sem endaði eins og kunnugt er með því, að kaupgjaldsákvæðin voru numin úr lögum, er þau höfðu staðið rúmlega ½ ár. Má óhikað þakka það hinni harðvítugu baráttu Alþfl., að ekki tókst að lögfesta þessi ákvæði til frambúðar, enda hefur það verið viðurkennt af höfuðandstæðingum flokksins.

Á vetrarþinginu 1942 flutti Alþfl. dýrtíðarfrumvarp sitt á ný og enn fremur frv. um gengishækkun, sem ef lögfest hefði verið, hefði áreiðanlega átt drjúgan þátt í lækkun dýrtíðarinnar, auk þess sem sparifjáreign manna hefði aukizt að verðmæti. Ekkert af þessum tillögum náði þó samþykki, og vísitalan hélt áfram að vaxa á þessu ári úr 183 upp í 272, en það hefur hún hæst komizt.

Þannig stóðu sakir, er núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við. Fyrstu ráðstafanir, er hún gerði, voru að fá samþykkt verðfestingarákvæðin inn í gerðardómslögin, og voru þau í gildi í rúma 2 mánuði, en á því tímabili ætlaði ríkisstjórnin sér að hafa samið dýrtíðarlög, er færðu vísitöluna 30–40 stig niður. Þetta tókst nú ekki, því að frumvarpi því, er ríkisstjórnin bar fram í þessu skyni, var öllu gerbreytt, svo að heita mátti, að þar stæði ekki steinn yfir steini.

Eina ráð núverandi hæstv. ríkisstjórnar til þess að halda ofurlítið í hemilinn á dýrtíðinni hefur verið að greiða hana niður með framlögum úr ríkissjóði, sem hæstv. fjármálaráðh. upplýsti í gær, að notaðar mundu verða til í ár hér um bil 10 millj. kr., auk þess sem greitt hefur verið á árinu til verðuppbóta á útfluttar landbúnaðarvörur, sem upplýst hefur verið áður, að næmi rúmum 15 millj. króna. Virðist því svo sem alls muni verða greitt á þessu ári um 25 millj. króna úr ríkissjóði í verðuppbætur á landbúnaðarvörur, eða rúmar 4 þús. kr. á hvert einasta býli á landinu.

Hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, sagði í ræðu sinni í gærkvöldi, að dýrtíðin væri innflutt. Ég segi nú: Dýrtíðin er að mjög verulegu leyti heimatilbúin. Það er eftirtektarvert, að þegar vísitala framfærslukostnaðar komst sem hæst, í 272, áttu tvær eða þrjár vörutegundir innlendar sök á um það bil helmingi allrar hækkunarinnar, en það voru kjöt, mjólk og egg og vörur skyldar þeim. Það hefur því alltaf verið augljóst hverjum, sem vildi sjá, að frumorsök hinnar miklu dýrtíðar er að finna í þeirri ráðstöfun, er gerð var í jan. 1940, fyrst og fremst að tilhlutan Framsfl., þegar landbúnaðarvörurnar innlendu voru teygðar langt fram fyrir verkakaupið.

Nú kann einhver að segja: Þetta getur ekki verið tilfellið, því að 6 manna nefndin svokallaða, sem sett var síðastliðið vor til að finna rétt hlutfall milli kaupgjalds og verðlags á innlendum vörum, komst að þeirri niðurstöðu einróma, að enn þyrfti verðið á innlendu vörunni að hækka, samanborið við kaupgjaldið, — og það er rétt, nefndin komst að þessari merkilegu niðurstöðu.

Ég hef áður hér á Alþingi lýst því nokkuð, hvernig vinnubrögð þessarar nefndar komu mér fyrir sjónir, og ég get ekki tímans vegna endurtekið það hér, en ég get sagt það samt, sem var niðurstaðan af athugunum mínum í þessu efni, að niðurstöður nefndarinnar eru í ýmsum atriðum mjög vafasamar og í sumum atriðum beinlínis rangar, eins og t. d. það, þegar sjómönnum, sem selja hlut sinn eftir föstum samningi og fá því ekki hækkun á kaup sitt samkvæmt vísitölu, er áætluð vísitöluhækkun eins og öðrum mönnum, er vinna fyrir föstu kaupi. Á þetta hefur verið bent, og því hefur ekki verið mótmælt. Með þessu móti var hægt að teygja áætlað meðalárskaup verkamanna upp í 15500 kr., sem áreiðanlega stenzt ekki, og við þessa upphæð var svo miðað, þegar verðlagið var ákveðið á landbúnaðarvörunum. Sömuleiðis var áætlað í þessum útreikningum, að útgjöld meðalbús, með 5 kýr og 80 ær, fyrir aðkeyptan vinnukraft væri talsvert á 13. þús. kr. á ári.

Þessar tölur gefa ærið tilefni til umhugsunar. Hverjir bera svo ábyrgð á þessum niðurstöðum 6 manna nefndarinnar?

Hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, upplýsti í gær, að í nefndinni hefðu átt sæti 1 framsóknarm., 3 sjálfstæðismenn og 2 kommúnistar. Þessir menn bera því ábyrgðina á gerðum nefndarinnar. Gagnvart neytendum og verkamönnum verður þó sökin þyngst á fulltrúum þessara aðila, sem voru kommúnistarnir. Í fyrsta sinni fóru þeir hér einir með umboð verkalýðs- og launastéttanna í stórfelldu máli. Og strax nota þeir þetta fyrsta tækifæri til að svíkja þann málstað, sem þeim var trúað fyrir. Til hvers? spyrja menn. Brynjólfur Bjarnason gaf svarið í ræðu sinni í gær. Hann sagði, að hér hefði bændum verið veitt ofrausn og það svo, að meðalbóndi gæti nú samkvæmt þessari ákvörðun 6 manna nefndarinnar haft tvöfalt kaup á við verkamann, og það er vissulega satt. En hann krafðist líka launanna. Hann sagði, að fyrir þetta og aðra hugulsemi kommúnista við bændur bæri þeim nú að fela sér og sínum flokksmönnum umboð sitt og engum öðrum. Það var tilgangurinn. Fyrir þessa von um atkvæði bænda voru launastéttirnar sviknar.

Eitt mótatkvæði dugði til þess að hindra þetta samkomulag, sem þarna var gert. En þetta atkvæði var ekki greitt af þeim, sem áttu að gera það og bar skylda til að gera það, — og árangurinn er, segir Brynjólfur Bjarnason í gær, pólitískur sigur fyrir alþýðuna í landinu.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort þessi aðferð verður pólitískur sigur fyrir hv. 5. þm. Reykv. (BrB) og hans flokk, en hitt vil ég fullyrða, að fyrir alla alþýðu í landinu, bæði til sjávar og sveita, verður þessi ráðstöfun til að viðhalda dýrtíðinni og hækka hana ekki pólitískur sigur fyrir þessar stéttir, heldur þeim til bölvunar.

Atvinnuleysið er nú aftur að halda innreið sína. Og með sama áframhaldi verður ekki langt þangað til þeir atvinnuvegir, sem háðir eru verðlagi á erlendum markaði, geta ekki risið undir dýrtíðinni. Við getum ekki greitt 21 kr. fyrir smjörkíló, þegar það fæst frá Ameríku með gífurlegum flutningskostnaði fyrir 7 krónur hingað komið. Við getum ekki greitt 1–2 kr. fyrir kartöflukíló, þegar það kostar 40 aura í Englandi, og við getum ekki framleitt útflutningsvöru, sem á að standast samkeppni á erlendum markaði, með sífellt hækkandi dýrtíð. Og síðast, en ekki sízt, við getum ekki greitt úr ríkissjóði 25 millj. króna á einu ári í uppbætur á landbúnaðarafurðir, jafnmikla upphæð eða sennilega miklu hærri en allur okkar togarafloti kostaði nýr í upphafi. Ríkissjóðurinn verður þá alls ómegnugur að sinna öðrum og aðkallandi vandamálum.

Þetta er allt sjálfskaparvíti vegna rangrar fjármálastefnu, sagði hv. þm. Str., Hermann Jónasson, í gær, og það er vissulega rétt. En hann og hans flokkur hefur staðið manna fastast að þessari pólitík.

Í fyrra um þetta leyti fóru fram samningaumleitanir milli Alþfl., Framsfl. og Kommfl. um myndun vinstri stjórnar. Þessar samningaumleitanir fóru út um þúfur, aðallega eða eingöngu vegna þess, að kommúnistar vildu ekki taka þátt í þeim. Þeir hafa reynt að bera ýmsu við, eins og þegar Brynjólfur Bjarnason sagði í gærkvöldi, að Framsókn hefði viljað setja skilyrði um allsherjar kauphækkun og ýmislegt fleira, sem allt er meira og minna uppspuni. Þeir töldu sig hafa meiri pólitískan ávinning að því að standa ekki að þessari stjórnarmyndun. Nú hugsa allar þjóðir um að undirbúa framtíðina að stríðinu loknu, jafnvel alveg sérstaklega þær, sem eiga í blóðugum ófriði. Nú hafði íslenzk alþýða betra tækifæri en nokkru sinni áður til að undirbúa sína framtíð. Þjóðin hafði yfir miklu fjármagni að ráða, og ef það var notað rétt, mátti álíta, að vissa væri fyrir því, að búa mætti atvinnuvegina hinum beztu tækjum til að standast samkeppnina við aðrar þjóðir að stríðinu loknu. Í stað þessa er tekjum og eignum ríkissjóðsins dreift út í veður og vind á þann hátt, að mjög vafasamt er, hvort þetta fjármagn kemur að nokkrum framtíðarnotum, og víst er, að það kemur ekki að þeim notum, sem það hefði getað komið, ef vel hefði verið á haldið. Þetta, að þessi einstæðu tækifæri voru á úrslitastundu látin ónotuð, má íslenzk alþýða þakka kommúnistum. Það verður þeirra sögulega hlutverk í pólitík líðandi stundar, þegar meira valt á en nokkru sinni, að vel væri á haldið, ásamt því að kyngja skilyrðis- og athugasemdalaust hinu makalausa verðlagi, sem sett hefur verið á ísl. landbúnaðarafurðir af 6 manna nefndinni. Nú telur þessi flokkur sig ekki eiga annað eftir en að uppskera launin fyrir þessa rausn, eins og Brynjólfur Bjarnason sagði, sem vel mætti kalla ofrausn, — en skyldi ekki verða bið á því? Ég veit vel, að það verður gerð tilraun til að afflytja þá skoðun, sem ég hef hér látið í ljós á dýrtíðarmálunum, og við Alþýðuflokksmenn stimplaðir sem óvinir bændastéttarinnar, en það verður þá að fara sem vill með það. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar atvinnuleysið fer að sýna sig í kaupstöðunum, kaupmáttur allrar alþýðu þar þverr, og ríkissjóður, þurrausinn eins og hann er, reynist ómegnugur til að ráða bót á ástandinu, þá muni ef til vill einhver skilja, að heppilegra hefði nú máske verið að fara ofurlítið öðruvísi að.