24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Flm. (Garðar Þorsteinsson):

Þetta frv. fjallar um það, að íslenzkir ríkisborgarar, sem verða fyrir tjóni af völdum herliðs Bandaríkjanna, geti sótt bótakröfur sínar fyrir íslenzkum dómstólum og eigi ríkissjóður að svara til saka og greiða tildæmdar bætur og geti síðan innheimt bótakröfurnar hjá stjórn Bandaríkjanna eftir reglum, sem tíðkast í viðskiptum milli ríkja.

Eftir hernám Breta er það, að skipuð var n. íslenzkum og brezkum mönnum, sem átti að rannsaka kröfur vegna tjóns af völdum herliðsins. Sú n. hafði þó aðeins tillögurétt, og stjórnin í London var ekki bundin af niðurstöðum hennar. Þegar síðan hernáminu léttir og hervernd Bandaríkjanna hefst hér á landi, 7. júlí 1941, verður viðhorfið allt annað. Það er ekki óeðlilegt, heldur sjálfsagt, er ríkið hefur óskað eftir þessari hervernd, að ríkissjóður sé ábyrgur gagnvart borgurunum vegna þess tjóns, er herliðið kann að valda. Að sjálfsögðu er aðeins átt við það tjón, sem verður á íslenzkum ríkisborgurum. Þeir eiga að hafa sömu aðstöðu og á friðartímum, þannig að þeir fái tjón sitt bætt eftir íslenzkum 1.

Síðan setulið Bandaríkjanna kom, hafa verið skipaðar 2 n., íslenzkum og amerískum mönnum, er eiga að athuga og gera tillögur um bætur á tjóni, er hefur orðið af hernaðarvöldum. Önnur n. fjallar um landspjöll, en hin um bætur vegna tjóns af völdum bíla m. m. Þessar n. hafa ekki úrskurðarvald, og stjórnin í Washington er ekki bundin við tillögur þeirra.

Ég veit til þess, að það hefur komið fyrir, að ekki hafa fengizt greiddar bætur, þótt brezk-íslenzka n. hafi orðið ásátt um, að þær bæri að greiða. Ég hef dæmi í huganum um bílaárekstur. En ef þetta frv. næði fram að ganga, þá gætu íslenzkir ríkisborgarar lagt mál sín fyrir dómstólana hér heima. Það væri mikill munur fyrir þá. Þó að n. rannsaki málin, þá hafa þær ekki lögfræðilega þekkingu né vald til að leiða vitni. Sumar kröfur koma alls ekki fyrir nefndirnar, eins og t. d. kröfur vegna slysa eða kröfur um dánarbætur, heldur ganga þær beint undir úrskurðarvald stjórnarinnar í Washington. Ég get tekið mörg dæmi í þessum málum, en ég nefni aðeins eitt:

Roskinn maður var hér á ferð á hjóli. Það mun ekki hafa verið orðið fullbjart. Þá ber þar að herbíl, sem ekur á manninn, og lézt hann af árekstrinum.

Ég fór fram á það í þessu máli við herstjórnina, að ég mætti sjá framburð bílstjórans og annarra, sem kynnu að hafa verið í bílnum. En mér var synjað um þetta. Síðan skrifaði ég utanrn. og fór þess á leit, að það hefði milligöngu um að útvega þessa framburðarskýrslu. En því mun einnig hafa verið synjað skýrslunnar. Þá var send krafa um dánarbætur til herréttarins og fylgdi henni skýrsla um allar ástæður ekkjunnar. Dánarbótakrafan ásamt upplýsingum öllum var síðan send til Washington. Svarið kom á þá leið, að engar dánarbætur yrðu greiddar, þar eð maðurinn hefði ekki haft neitt ljós á hjólinu og átt því nokkra sök á slysinu. Þetta kann að hafa verið svo. Um það er íslenzkum dómstólum ekkert kunnugt, þar eð þeir fengu engin málsskjöl til rannsóknar. En svo mikið er víst, að ef ekkjan hefði fengið tækifæri til að sækja mál sitt fyrir íslenzkum dómstólum, þá mundu henni væntanlega hafa verið tildæmdar einhverjar dánarbætur, þótt maðurinn hefði átt einhverja sök á slysinu sjálfur, en þó ekki alla sök. Nú skal ég hins vegar taka það fram, að samkvæmt bréfi, sem íslenzku stj. mun hafa borizt, þá mun nú vera fyrirhugað að greiða bætur, þótt sá hafi átt einhverja sök, sem fyrir slysinu hefur orðið, og er það gagnstætt því dæmi, sem ég nefndi.

Ég get ekki séð, hvers vegna herstjórnin vildi ekki leyfa að sjá framburð vitna í nefndu tilfelli. Og ef dæmt væri eftir íslenzkum lögum, mundi verða talið, að sá, er ekki vill leggja fram sönnunargögn, yrði að liða við það. Þetta dæmi hef ég aðeins nefnt til að sýna fram á, að réttur okkar er mjög takmarkaður. Ég fæ aftur á móti ekki séð, að réttur hins aðilans yrði nokkuð rýrður við það, þótt þetta frv. yrði að l. Sá aðilinn hefði vitanlega alltaf tækifæri til að verja mál sitt.

Ég vil benda á, að í samningnum milli íslenzku ríkisstjórnarinnar og forseta Bandaríkjanna er svo ákveðið, að Bandaríkin, sem taka að sér hervarnir landsins, lofa að bæta hvert það tjón, er verða kann af völdum hernaðaraðgerða þeirra. Ég fæ því ekki séð, að ríkissjóði yrði nokkuð íþyngt, þótt frv. þetta yrði að l., þar eð loforð er fengið fyrir, að tjónið fáist greitt. Ég fæ ekki heldur séð, að Bandaríkin hefðu neina ástæðu til að véfengja niðurstöður íslenzkra dómstóla. Hins vegar mundi þetta verða til mikils hagræðis fyrir íslenzka ríkisborgara.

Mér þótti rétt að láta þetta frv. ná til bótakrafna, sem orðið hafa til og ekki fengizt greiddar allt frá 7. júlí 1941 eða frá því er setulið Bandaríkjanna steig hér á land.

Ég skal að lokum láta þess getið, að ég efast ekki í sjálfu sér um, að Bandaríkin muni greiða það tjón, er þau hafa lofað að greiða. Frv. er því ekki flutt þess vegna, heldur vegna þeirra mörgu, sem eiga sjálfir erfitt með að framfylgja kröfum sínum. Það er ekki nema eðlilegt, að þeim verði gert fært að sækja mál sín fyrir íslenzkum dómstólum.

Síðan óska ég, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umr.