24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Flm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil ekki halda fram, að það muni ekki geta verið eitthvað það við frv., sem megi bæta með því að breyta því eða bæta við það. Það er sjálfsagt rétt, að það muni eitthvað mega laga það. En ég held því fram, að a. m. k. hugsunin í frv. sé rétt. Hitt er annað atriði, hvernig eigi að orða það og hvaða takmarkanir eigi að gera á ýmsu, sem frv. tekur til.

Hæstv. dómsmrh. fann ýmislegt að frv. og taldi á því ýmsa galla. Hann taldi, að 1. gr. frv. næði miklu lengra, að því er snertir kröfurétt, en samningurinn milli ríkjanna segði til um, því að hann takmarkaðist við „military activities“, en skaðabæturnar eftir frv. væru ótakmarkaðar og næðu til þess t. d., ef hermaður ræðst á íslenzkan mann og meiðir hann. Það kann að vera rétt, að þetta heyri ekki undir hernaðaraðgerðir. En ég vil hins vegar benda á það, að það er þá ríkisins að líða við þetta, að mér virðist, vegna þess að því verður ekki mótmælt, að herverndin er upphaflega til orðin fyrir samninga ríkisins. Það er fyrir beiðni ríkisstjórnarinnar, sem hæstv. Alþ. hefur samþ., að þeir hermenn eru hér, sem svo verða til þess að slasa íslenzkt kvenfólk. (Dómsmrh.: Er hv. þm. viss um, að Bandaríkjaher hefði ekki komið hingað ef Íslendingar hefðu ekki óskað eftir því formlega?). Ég tek þetta mál eins og það liggur fyrir. og hæstv. dómsmrh. veit, að þetta frv. er takmarkað við Bandaríkin, en ekki við England. Það er mikill munur á því, hvort erlendur her kemur hingað gegn vilja landsmanna eða hvort hann kemur hingað eftir beiðni landsmanna. Ég hygg, að ef ég hefði mann eða menn í þjónustu minni og hann eða þeir hefðu valdið meiðslum á manni, þá væri rétt, að ég liði að einhverju leyti við það. Þetta er að vísu ekki alveg hliðstætt því, sem farið er fram á með frv. En ég hygg samt rétt, að íslenzka ríkið eigi að bera ábyrgð á því tjóni, sem ameríska herliðið veldur. Það er mjög mikill munur á því, hvort herlið er komið hingað fyrir beiðni okkar eða ekki. Ég veit náttúrlega ekkert um það, hvort Bandaríkjaherliðið hefði komið hingað, hefðum við ekki óskað þess. Það gat verið, að annars hefði herlið Bretlands verið hér áfram. Það veit ég ekki. En Ísland er nú að formi til ekki hernumið. Og mér finnst eðlilegt, að stúlka, sem verður fyrir því, að hermaður ræðst á hana á götu og meiðir hana, fái bætur. Og hún verður þá einhvers staðar að sækja mál sitt. Og er það þá ekki eðlilegt, að hún eigi kröfu á hendur íslenzka ríkinu vegna þessara meiðsla? Það er þó sanngjarnara, að skaðinn lendi á ríkinu en á stúlkunni. Ég veit ekki, hve miklar bæturnar kynnu að verða í slíkum tilfellum, en að minnsta kosti er sanngjarnt, að ríkið greiði þetta frekar en stúlkan sjálf.

Það kann vel að vera, að 1. gr. frv. gangi lengra en samningurinn milli ríkjanna um hervernd landsins nær til. En að þessu leyti gerir það þá heldur ekkert til. Ákvæðin í gr. eru alveg jafnsjálfsögð fyrir það.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um það, að í mörgum tilfellum væri ekki hægt að upplýsa, hver tjóninu hefði valdið. Hann nefndi dæmi um skip sem rækist á annað skip, og þá gæti verið, að ekki væri hægt að upplýsa, hver hefði valdið tjóninu og bæri ábyrgð á því. En ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. ráðh., að það geti komið nokkuð fjárhagslega að sök fyrir ríkið, að slík tilfelli kæmu fyrir, þó að frv. væri samþ., vegna þess að það er beinlínis skilyrði fyrir bótaskyldu samkvæmt frv., að það sé upplýst, að tjónið sem bæta á, sé af völdum herliðs Bandaríkjanna eða manna úr herliðinu. Ef ég t. d. á skip eða bát, sem ferst og ekkert spyrst til um, hvernig farizt hafi, þá fellur mín krafa að sjálfsögðu ekki undir ákvæði þessa frv., vegna þess að ég get ekki upplýst, að herlið Bandaríkjanna hafi í þessu efni átt nokkra sök. Ég fæ því ekki séð, að með tilliti til þessa sé nokkur áhætta fyrir hag ríkissjóðs, þó að frv. sé samþ. Sönnunarbyrðin mundi hvíla á þeim, sem stefnir.

Hæstv. dómsmrh. tók annað dæmi, sem ég skal játa, að kynni að vera meira vafaatriði, þ. e. ef herinn, sem hér er, þyrfti að berjast og eyðileggja hús, brýr og vegi o. s. frv. Ég skal ekki segja um það, en eru það ekki áreiðanlega „military activities“, sem Bandaríkjastjórn hefur skuldbundið sig til að bæta tjón fyrir? Mér skilst samt, að þegar þetta var til umr. hjá ríkisstjórninni, þá muni Bandaríkjastjórn hafa tekið fram. að ef tjón yrði af árásum annars hers, þá félli það ekki undir þessa skuldbindingu. Það væri ekki endilega afleiðing af því, að þeir væru hér, og þess vegna ekki „military activities“, sem þeir þyrftu að bæta. En mér skilst það vera ótvírætt, að ef Landaríkjaherinn þyrfti að sprengja hér í loft upp einhverjar húseignir eða brýr eða því um líkt, þá væri það „military activities“, sem ætti að greiða bætur fyrir. En mér skilst, að það atriði sé þess eðlis, að frv. ætti samt sem áður að verða samþ.

Ég man ekki, hvernig l. um tryggingar vegna loftárása eru, en mig minnir, að í þeim standi eitthvað á þá leið, að ákvæði þeirra séu víðtækari en að ná til þess tjóns eins, sem hlýzt af loftárásum. Mig minnir, að tjón, sem hlotizt hefur á húsum, vegna þess að tundurdufl hafa sprungið, hafi verið bætt eftir þeim l. eða eigi að bæta eftir þeim. Mig minnir, að þau l. hafi verið skilin þannig, en þó þori ég ekki að fullyrða það, af því að ég hef ekki l. hjá mér.

Hæstv. dómsmrh. segir, að ekkert sé ákveðið um það í herverndarsamningnum, hvaða réttarreglur eigi að gilda í þessum málum, þ. e. eftir l. hvaða ríkis eigi að dæma um þessi mál eða hvar eigi um þau að dæma. Þetta má telja galla á samningnum. En eðlilegast má telja, að þar sem þessi tjón koma fyrir hér, þá sé dæmt um þau hér á landi. (Dómsmrh.: Það hafa þeir ekki viljað ganga inn á). Þá er það ríkið, sem á að líða við það, en ekki einstaklingurinn. Og ef Bandaríkjamenn vilja ekki borga fullar bætur, heldur einhvern hluta þeirra bóta, sem sanngjarnar mega teljast, þá er eðlilegast, að ríkið sé sá aðili, sem bæti einstaklingnum, sem fyrir tjóni verður, upp hallann. Ef ég t. d. verð fyrir því óláni, að herinn eyðileggi fyrir mér eignir, er þá ekki eðlilegt, að ég eigi aðgang að ríkisstjórninni til skaðabóta, og er það ekki eðlilegt, að það sé ríkissjóður, sem líði við það, að ríkisstjórnin hefur ekki komizt að þeim samningum, sem æskilegir hefðu verið í þessum efnum? Ríkið hefur ekki fengið nógu góða samninga í þessu efni við Bandaríkin. Hvernig sem á þetta er litið, þá er það einstaklingurinn, sem á að eiga fulla kröfu til bóta fyrir slík tjón, en það er ríkið, sem á að bæta fyrst. Svo er það stjórnarvaldanna að endurheimta þessar bætur á þann hátt, sem tíðkast milli ríkja. Og ég fæ ekki séð, að samningurinn sé að fullu haldinn að borga allt tjón, sem hlýzt af „military activities“, ef Bandaríkjastjórn segir: Við borgum þetta og ekkert annað, — þrátt fyrir það, þótt ekki séu greiddar fullar bætur. Ef t. d. tún eyðileggst eða önnur fasteign, er þá samningurinn haldinn, ef Bandaríkjastjórn borgaði ekki meira en eitthvað visst sem þó að mati dómkvaddra manna væri of lítið? Ég teldi það ekki.

Það, sem hefur vantað á, til þess að fullar bætur hafi fengizt, er, að mönnum hefur ekki veitzt kostur á að sanna kröfur sínar. En ef þetta frv. verður samþ., þá gefst mönnum kostur á að leggja kröfur sínar fram og sannanir fyrir þeim. Og ég er sannfærður um, að Bandaríkjastjórn mundi ekki véfengja niðurstöður hæstaréttar um slíkt.

Hæstv. dómsmrh, sagði, að það hefði aldrei komið fyrir, að Bretar hefðu ekki greitt það, er matsn. skaðabóta hefði verið sammála um að meta hæfilegar bætur fyrir tjón, sem brezka herliðið hefði valdið. En dæmið, sem ég hafði í huga, var, að kanadiskur bíll ók á íslenzkan bíl, en n. var sammála um bætur til mannsins, er átti bifreiðina, sem skemmdist. Þetta mál mun hafa farið annaðhvort til London fyrst og svo til Ottava eða til Ottava beint. Dómstólarnir í Ottava sögðu: Eftir okkar áliti á bílstjórinn íslenzki alla sökina, og við borgum þess vegna ekki þessar 1200 kr., enda þótt öll n. sé sammála um, að þær eigi að greiðast. Hæstv. dómsmrh, sagði, að Bandaríkjastjórn hefði ekki alltaf farið eftir till. viðkomandi matsn. hér. En það eru líka rök fyrir því, að frv. á að samþykkjast, ef ekki fást fullar bætur fyrir tjón, þrátt fyrir það þótt n. sé sammála um, að Bandaríkjastjórn eigi að greiða fullar bætur. Það er full ástæða til þess, að íslenzkir borgarar fái fullan skaðabótarétt gagnvart íslenzku ríkisstjórninni.

Ég skal ekki efast um, að íslenzka ríkisstjórnin hafi viljað hjálpa íslenzkum borgurum til þess að ná rétti sínum í þessum efnum. En það hefur bara ekki lánazt. Og ég fæ ekki séð, hvað unnið er með því að lofa ekki íslenzku yfirvöldunum að sjá skýrslur um slys, þegar íslenzkur maður deyr á íslenzkri grund af völdum bifreiðaárekstrar, þegar önnur bifreiðin er amerísk, en hann er í íslenzkri bifreið. Og ef ekki fást fullar bætur fyrir slíkt slys hjá yfirvöldunum í Bandaríkjunum, þá er þó a. m. k. sanngjarnara, að íslenzka ríkið beri skaðann en að ekkja mannsins beri hann allan, þó að íslenzka ríkisstjórnin fái ekki einu sinni að sjá skjölin um slysið. Það kann að vera, að samþ. þessa frv. sé einhver áhætta fyrir ríkið. En þessi áhætta á þá að vera þar og hvergi annars staðar.

Svo endaði hæstv. dómsmrh. með því ræðu sína, að hann sagði, að ákvæði frv., ef að l. yrði, yrðu hreinasta gullnáma fyrir málaflutningsmenn. Ég veit ekki, hvort ég á að skilja það svo, að ég hafi flutt málið í sérstaklega eigingjörnum tilgangi. (Dómsmrh.: Nei, nei). Ég gerði það a. m. k. ekki.

Það mætti vitanlega bæta því við þetta frv., að viðkomandi aðilar ættu fyrst að senda kröfur sínar til ríkisstjórnarinnar og hún segði svo fyrir vissan tíma til um það, hvort málið ætti að fara fyrir dómstóla, til þess að koma í veg fyrir, að lögfræðingar færu strax með málin. Það má vera, að oft þyrfti hæstaréttardómur að falla um slíkar kröfur, en ég er ekki sammála hæstv. dómsmrh. um það, að það þyrfti alltaf að vera. Ef um tjón á fasteignum væri að ræða, þá virðist mér, að ef Íslendingar hefðu valdið tjóni á eignum, sem t. d. ég ætti, þá hefði ég geta fengið útnefnda menn til þess að meta þetta. Og ég hygg, að hver dómstóll mundi geta lagt það mat til grundvallar fyrir sínum dómi, hvort sem það væri nú yfirmat eða ekki. Og ég hygg, að Bandaríkjastjórn mundi áreiðanlega hlíta niðurstöðu slíkra dómkvaddra manna. En þetta er ekki gert nú eins og er, a. m. k. ekki í sumum tilfellum.

Það má vitanlega vel vera, að það þyrfti að ákveða nánar um einhvern fyrningarfrest í frv. og einhverjar nánari reglur um þetta. Ég skal ekki segja um það. En mér virðist málið eiga að fara til hv. fjhn. og það því frekar, ef ábyrgðin er svo mikil sem hæstv. dómsmrh. vill vera láta og ég er honum sammála um. Ég man ekki, hvort lögfræðingur er í fjhn. En það er hægurinn hjá fyrir n. að leita til lögfræðings um atriði frv. Ég held því fast við þá till., að málið fari til fjhn.