24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Ég skal ekki lengja umr. mikið um þetta. Það eru auðsjáanlega hér tvö sjónarmið, hjá hv. flm. og hv. 7. þm. Reykv. annars vegar og mitt hins vegar. Þeir tveir hv. þm. vilja láta ríkið taka á sig að öllu leyti það tjón, sem falla mundi undir ákvæði frv., hvort sem nokkur von er um endurheimtukröfurétt á hendur þess aðila, sem tjónið vinnur, eða þess, sem svarar til sakar fyrir þann, sem tjónið vinnur. En ég tel, að hér eigi að fara varlega, með því að ófyrirsjáanlegt er, hve miklar fjárhagslegar skuldbindingar yrðu með því bundnar ríkissjóði.

Viðkomandi því skipi, sem siglt var í kaf hjá Gróttu, er það að segja, að það er staðreynd, að það var amerískur tundurspillir, sem olli því tjóni. En það er ekki staðfest eða viðurkennt af hernaðaryfirvöldunum, að þessi ameríski tundurspillir eigi sök á þessu tjóni. Ef t. d. Samábyrgðin yrði að borga þetta skip — með kannske um 90 þús. kr. — þá skilst mér, samkvæmt ákvæðum þessa frv., að Samábyrgðin eigi endurheimtukröfu á hendur ríkissjóði út af þessu tjóni, því að hann á að bæta þann skaða eftir þessu frv. Það er, að mér skilst, ljóst, að það er þannig eftir frv., að þótt vátryggjandi eigi fyrst að borga í þessu líkum tilfellum, þá eigi hann endurheimturétt á þann, sem eftir frv. á að borga, þ. e. a. s. ríkissjóð, ef það sannaðist, að amerískur tundurspillir ætti sök á svona tjóni með því að sigla skip í kaf. Ég tek þetta sem dæmi. Það getur verið, að sá, sem tjóninu veldur, telji sig ekki eiga sök á því að neinu leyti og kannske aðeins að nokkru leyti, — segi t. d., að skipið hafi ekki siglt alveg rétt, ljósin á því hafi ekki verið í fullkomnu lagi o. s. frv.

Ég held, að ég þurfi ekki að taka það aftur, að íslenzku stjórnaryfirvöldin hljóta að láta ganga dóm um þá skaðabótaskyldu, sem ríkið á að standa straum af. Og ef stjórnarvöldin hér vildu eiga endurheimtukröfu á stjórnina í Washington, þá hygg ég, að nauðsyn væri á því, að matsgerð færi fram á skipum, skipaviðgerðum o. fl., en það mundi vera talin sjálfsögð varúðarregla, að hæstiréttur dæmdi um það og segði beint eða óbeint, að það væri ekkert að athuga við það. Því að þessar matsgerðir hér eru margar ákaflega vafasamar. Þær eru stundum algerlega á skökkum grundvelli, fyrir utan þær vitleysislegu upphæðir í niðurstöðum þeirra. Þetta þekkjum við allir og sennilega hv. flm. ekki síður en ég. Og íslenzka ríkið yrði að fá matsgerðir í þessu sambandi staðfestar með dómi. Mér dettur ekki í hug, að slíkar skaðabætur, sem hér er um að ræða, væru borgaðar út nema eftir hæstaréttardómi, ef ætti að endurheimta skaðabæturnar hjá stjórn Bandaríkjanna, nema sérstakir samningar væru um það, t. d. þannig, að það væri samþ. af Bandaríkjastjórn, að blönduð matsn. væri skipuð til þess að meta þessar bætur, sem byndi báða aðila. Og það væri það langbezta, ef hægt væri að koma því fram. Annars er gagnslaust fyrir okkur að deila um það, hvernig Bandaríkjastjórn muni taka undir kröfur okkar og hvernig hún mundi líta á gögn okkar fyrir endurheimturétti á hendur henni til skaðabóta fyrir tjón. En ef hæstaréttardómur væri um hverja einustu endurheimtukröfu, þá tel ég sennilegast, að Bandaríkjastjórn mundi greiða kröfurnar að svo miklu leyti sem sá aðili teldi sér skylt og eðlilegt að bæta tjón eftir sínum samningi.