25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

27. mál, fjárlög 1944

Þóroddur Guðmundsson:

Þó að hinir 3 gömlu þjóðstjórnarflokkar deili nú allhart hver á annan, má segja, að samvinna þeirra við afgreiðslu fjárlaganna hafi verið hin innilegasta. Fulltrúar þeirra í fjárveitinganefnd stóðu yfirleitt saman um að fella margar merkar og sjálfsagðar um bótatillögur okkar sósíalista, og skiluðu sameiginlegu áliti um fjárlögin, sem var mjög í anda gömlu þjóðstjórnarinnar. Síðan stóðu þeir saman við 2. umr. hér í þinginu um að drepa flestar þessar tillögur okkar.

Á þeim fáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, get ég ekki rakið allar fjárlagatillögur okkar sósíalista, en mun aðeins drepa á nokkrar þeirra.

Við leggjum til, að styrkur til að reisa læknisbústaði og sjúkraskýli verði 500 þús. í stað 250 þús. Landlæknir skýrir svo frá, að slíkar byggingar séu ýmist byrjaðar eða standi fyrir dyrum á 17 stöðum á landinu, og má af því öllum vera ljóst, að upphæð þessi er sízt of há.

Þá leggjum við til, að styrkur til viðbyggingar sjúkrahússins á Akureyri verði 500 þús. kr. í stað 200 þús. kr. Allir, sem til þekkja, vita, að hina brýnustu nauðsyn ber til að ljúka þessari viðbyggingu, en að það er ekki hægt nema þessi fjárveiting fáist.

Í þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er ákveðið, að sjúkrahúsin á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði skuli fá 250 kr. styrk á hvert sjúkrarúm auk hlutfallslega sama styrks og sjúkrahúsin á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Við sósíalistar leggjum til, að styrkurinn til sjúkrahúsa verði nokkuð hækkaður og þau fái öll hlutfallslega jafnháan styrk.

Tillagan um að mismuna þannig sjúkrahúsunum er frá þm. S.-Þ. (JJ) og er ekki annað en naglaskapur við Siglfirðinga og Vestmannaeyinga. Sjúkrahúsin á Siglufirði og í Vestmannaeyjum eiga jafnmikinn rétt til styrks úr ríkissjóði og önnur sjúkrahús. Það er því óafsakanlegt óréttlæti að taka þessi tvö sjúkrahús út úr og láta þau hafa lægri styrk en hin sjúkrahúsin, hvað svo sem Jónas frá Hriflu og hans nánustu bandamenn, kratarnir og framsóknarflokksdeildin í Sjálfstfl. segja. Allar þessar till. voru felldar.

Við leggjum til, að styrkur til byggingar barnaskóla utan kaupstaða verði 750 þúsund og förum þar eftir vel rökstuddum tillögum fræðslumálastjóra. Þjóðstjórnarfl. líta hinsvegar svo á, að 400 þús. nægi.

Til byggingar húsmæðraskóla í sveitum leggjum við til, að veittar verði 520 þús. kr. Þjóðstjórnarflokkarnir töldu nægilegt 340 þús. kr.

Íþróttanefnd ríkisins og íþróttafulltrúi fóru fram á, að til íþróttasjóðs yrðu veittar 650 þús. kr., og var beiðnin rökstudd með því, að miklar framkvæmdir stæðu yfir á vegum íþróttasjóðs víðsvegar um land, sundlaugabyggingar, íþrótta- og leikvellir, íþróttahús o. fl., o. fl. Við lögðum til að verða við beiðninni um 650 þús. kr., en þjóðstjórnarfl. þótti upphæðin 200 þús. kr. of há og samþykktu aðeins 450 þús. Þannig sýndu þeir umhyggju sína fyrir íþróttamálunum í verki.

Við lögðum til, að bókakaupastyrkur til Landsbókasafnsins yrði 100 þús. kr. Það þótti þjóðstjórnarflokkunum 20 þús. kr. of hátt.

Við lögðum til, að styrkurinn til skálda og listamanna yrði 450 þús. kr. Það þótti þjóðstjórnarflokkunum 75 þús. kr. of mikið.

Þá vil ég geta tveggja tillagna, sem við sósíalistar fluttum varðandi öryggismál sjómanna. Önnur um það, að til slysavarna væru veittar 100 þús. kr. Þetta var fellt og aðeins veittar 50 þús. kr. — Hin tillagan var um það að veita 700 þús. kr. til vitabygginga. Hún var einnig felld og aðeins samþ. 350 þús.

Það er sannarlega hart til þess að vita, að ýmsir menn, sem kosnir eru til þings sem fulltrúar og forsvarsmenn sjómanna og útgerðarmanna, skuli hafa slíka afstöðu til öryggismála sjómanna. Að slíkum þingmönnum er hreint og beint vanvirða.

Ég hef hér drepið á aðeins nokkrar fjárlagatillögur okkar sósíalista, við höfum flutt fjöldamargar aðrar tillögur um aukin framlög til verklegra framkvæmda. Margar þeirra hafa verið drepnar, en það er sjálfsagt að geta þess, sem gert er, að ýmsar af tillögum okkar um hækkuð framlög til vegagerða og annarra verklegra framkvæmda hafa verið samþ. Sama er að segja um framlög til menningar- og menntamála. Þó að margar till. okkar hafi verið drepnar, höfum við samt töluverðu áorkað til umbóta á þessum fjárlögum þrátt fyrir allt.

Ég mun þá aðeins til viðbótar geta tveggja tillagna okkar við gjaldahliðina, en það eru þær tillögur, sem við teljum mestu máli skipta. Önnur till. er um að leggja 4 milljónir til eflingar íslenzkum landbúnaði og verja þeim að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands til stofnunar byggðarhverfa í sveitum og til samfelldra ræktunarframkvæmda og stofnunar fyrirmyndarbúa. Þessi tillaga var felld. En hvers vegna geta Framsóknar- og Alþýðufl. ekki samþ. slíka tillögu?

Framsfl. er andvígur samfærslu byggðarinnar í sveitum, hann er andvígur að framkvæma samvinnustefnuna við landbúnaðarframleiðsluna. Með samfærslu byggðarinnar og stofnun stórra samyrkjubúa er hægt að notfæra sér mikilvirkar nýtízku vélar og líkur til, að slíkt búskaparlag geti veitt þeim, sem við það vinna, lífvænleg og skemmtileg kjör. En framtíðartakmark forkólfa Framsfl. er nú: nokkrir ríkir stórbændur og margir fátækir einyrkjar dreifðir um sveitir landsins. Með slíku búskaparlagi gæti allur fjöldi bænda ekki dregið fram lífið nema með stórfelldum uppbótum á afurðir sínar og stórfelldum styrkjum úr ríkissjóði. Þessa styrki og uppbætur ætla svo framsóknarbroddarnir að kaupa atvinnurekendur og auðmenn landsins; til að láta í té af almannafé gegn því, að þeir styðji þá í kaupdeilum og öðrum átökum við launþegastéttina og tryggi áfram pólitísk völd auðmannanna í landinu. Þannig vilja framsóknarbroddarnir nota fátæklingana í sveitinni gegn fátæklingum í bæjunum til hagsmuna fyrir auðmannastéttina, og hefur þeim oft og tíðum ekki blöskrað að vinna ýmis sóðaverk, sem jafnvel auðmennina sjálfa hefur klígjað við.

Sem betur fer er fjöldi bænda að skilja, hvert stefnir, og sér, að það er þeim fyrir beztu að taka höndum saman við hið vinnandi fólk kaupstaðanna gegn yfirgangi og sérréttindakröfum eignastéttanna. Slíkri samvinnu allrar alþýðu til sjávar og sveita er Sósfl. stofnaður til að koma á og stjórna.

Það, sem réð því, að Alþfl. greiddi atkv. gegn þessari tillögu, er þjónslund hans við framsóknarbroddana, enda hafa framsóknarbroddarnir að mestu stjórnað Alþfl. um fjöldamörg ár.

Hin aðaltillaga okkar til viðreisnar atvinnuvegunum er um það, að ríkissjóður leggi til hliðar 10 millj. til byggingar fiskiskipa, og verði síðar tekin ákvörðun um, hvernig skipunum yrði ráðstafað.

Þessi tillaga var felld í fjvn., og við 2. umr. fjárlaganna hér í þinginu var hún felld með 33:13 atkv. Aðeins þrír menn úr þjóðstjórnarflokkunum gömlu gátu fylgt okkur sósíalistum að málum um till.

Við Íslendingar eigum einhver beztu fiskimið í heimi, og það er okkar aðalauðlegð. Sjávarútvegurinn er sá af atvinnuvegum okkar, sem hefur verið, er og mun verða traustastur á að byggja. Þess vegna eigum við að hlynna að honum. Skipastóll okkar er gamall og úreltur, og það er hrein og bein skylda Alþingis við þjóðina nú, í öllu þessu peningaflóði, að gera ráðstafanir til að endurnýja skipastólinn með vönduðum nýtízku skipum. Það er ekki einungis skylda við fiskimannastétt okkar, sem er einhver harðsæknasta og duglegasta fiskimannastétt, sem nokkur þjóð á, heldur er þetta beinlínis lífsspursmál fyrir alla þjóðina. — Við gerðum það með vilja að fara ekkert inn á í tillögu okkar, hvernig þessum skipum yrði varið, við leggjum aðeins til, að 10 milljónum verði varið til — byggingar góðra fiskiskipa. Í okkar augum er aðalatriðið að fá skipin inn í landið, það má seinna taka ákvörðun um, hvort skipin yrðu rekin af ríkinu eða seld bæjarfélögum, hlutafélögum, samvinnufélögum eða einstaklingum. Um þetta kunna að verða skiptar skoðanir, og þess vegna vildum við ekki minnast á í till. okkar, hvernig skipunum yrði ráðstafað, af ótta við, að deilur um það kynnu að spilla fyrir, að skipin yrðu byggð. Og við héldum, að við mundum fá till. okkar samþykkta, því að við vitum að yfirgnæfandi meiri hl. kjósenda þjóðstjórnarflokkanna er okkur sammála um hana. En till. var felld. Þessi framkoma þjóðstjórnarflokkanna á Alþingi hefur þegar vakið svo mikla gremju, að þeir eru dauðhræddir og reyna nú að breiða svolítið yfir ávirðingu sína eftir á.

Í fjárveitinganefnd var samþ. með shlj. atkv. núna eftir 2. umr. að leggja til að heimila ríkisstj. að verja allt að 5 millj. króna úr framkvæmdasjóði ríkisins til byggingar fiskiskipa. Þessi tillaga er samþ. einvörðungu af því, að okkar till. kom fram, og af óttanum við kjósendur.

Það er dálítið gaman að Alþfl. í sambandi við þetta mál. Fulltrúi hans í fjvn., Finnur Jónsson, gat ekki fylgt þessari till. hvorki í fjvn. né við 2. umr. í þinginu. Alþýðublaðið sagði um afstöðu Finns í fjárveitinganefnd, að hann hefði staðið milli minni og meiri hlutans og þá heldur nær meiri hlutanum, — framsóknar- og sjálfstæðismönnum. M. ö. o. um þessa till., sem skipti svo langmestu máli af öllum tillögum, sem fluttar voru, stóð Finnur heldur nær meiri hl., sem ekkert vildi leggja til skipabygginga, heldur en okkur sósíalistunum í minni hl., sem vildum leggja fram 10 milljónir í þessu skyni. Þetta er rétt hjá Alþýðublaðinu, þó að það segi sjaldan satt. En Finnur er hræddur við kjósendur, enda mikið svikið sína kjósendur, og þegar hann varð var við, hve vinsæl tillaga okkar er þegar orðin, fannst honum nauðsynlegt að þvo sig og félaga sína og flytur nú tillögu ásamt þeim um 9½ millj. kr. til skipakaupa. Sá galli er þó á þessari till., að gert er ráð fyrir, að framlagi þessu verði varið í styrki og lán eftir reglum, sem eru þannig, að eingöngu efnamenn og auðmenn geta notfært sér það.

Við sósíalistar munum fylgja tillögunni um 9½ millj. króna framlag til skipakaupa, en munum leggja til, að af henni verði sniðinn þessi annmarki, sem ég hef hér minnzt á. Allir vita, að Alþfl. hefði ekki flutt þessa till., hefðum við sósíalistar ekki flutt okkar till. um 10 milljónirnar.

Það var ekki síður broslegt að heyra þennan þm. belgja sig út yfir einhverjum rannsóknum, sem hann og flokksmenn hans hefðu látið fara fram á því, hvort hægt væri að fá smíðuð skip í Svíþjóð. Alþfl. hefur víst af litlu að hæla sér í þessu efni, heldur er hér um þeirra venjulega raup að ræða, og þáltill. okkar sósíalista um að fela ríkisstjórninni að athuga möguleika á því að fá smíðuð og keypt skip í Svíþjóð eða annars staðar er ekki byggð á neinum upplýsingum Finns Jónssonar né annarra krata, enda er það á allra vitorði, að hægt muni að fá smíðuð skip í Svíþjóð.

Í samræmi við þær kröfur okkar sósíalista, að gerðar verði nú í peningaflóðinu raunhæfar ráðstafanir til að tryggja framtíð atvinnuvega landsins, höfum við flutt þáltill. um, að Alþingi kysi 5 manna nefnd til að rannsaka möguleika á því að salta síld næsta sumar í stórum stil, útvega og smíða tunnur, kaupa vélar til að sjóða og leggja niður síld og aðrar ráðstafanir í því sambandi.

Í sambandi við hjálparstofnun hinna sameinuðu þjóða ætti að athuga þessa möguleika. Slík stórfelld matvælaframleiðsla ljúffengrar og hollrar fæðu, sem síldin er, ætti að geta notið stuðnings þessarar stofnunar, og um leið og það hjálpar við atvinnuvegum þjóðarinnar, gerir það okkar þjóð mögulegt að verða liðtækur þátttakandi í hinu göfuga starfi hjálparstofnunarinnar. Ekki verður enn þá séð, hvaða afgreiðslu þessi till. fær, en ekki er hægt að segja, að þjóðstjórnarflokkarnir hafi tekið henni með neinni hrifningu, svo sjálfsögð sem hún er. En ég veit það, að bæði þessar stóru viðreisnartillögur okkar og einnig smærri umbótatillögurnar eru að skapi allrar alþýðu í landinu, ekki aðeins kjósenda Sósfl., heldur og þeirrar alþýðu, sem enn þá kýs þjóðstjórnarflokkana. — Svo er það alþýðunnar, sem kosið hefur þjóðstjórnarflokkana, að draga nú réttar ályktanir af þeirri staðreynd, að í öllum þessum áhugamálum alþýðunnar hafa þeir brugðizt, en Sósfl. einn staðið um málstað hennar.

Andstæðingar okkar vita það vel, að tillögur okkar eru í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Þess vegna reyna þeir að afsaka sig á ýmsa lund. Ein afsökunin, sem þeir bera fyrir sig, er sú, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi ekki fyrir útgjöldunum, sem af tillögum okkar leiðir, ef þær yrðu samþ. En þetta er firra og blekking ein, eins og ég mun nú færa sönnur á.

Í fyrsta lagi er því til að svara, að samkvæmt þeirra eigin áætlun er milljóna tekjuafgangur á þessum fjárlögum.

Í öðru lagi er tekjuáætlun þeirra allt of lág, og vil ég taka nokkur dæmi til að sýna það: Tekju- og eignarskattur er áætlaður 19,5 millj., en er yfirstandandi ár álagður 22 milljónir (mism. 2,5 millj.). Hluti ríkisins af stríðsgróðaskatti er áætlaður 6 millj., en er álagður 7 millj. Það er alkunna, að tekjur manna eru víða allverulega hærri en s. l. ár og því ástæðulaust að áætla tekjuskatt og stríðsgróðaskatt lægri en hann er álagður á yfirstandandi ári. Vörumagnstollur er áætlaður 8 millj., en í fyrra reyndist hann um 9,5 millj. og í ár verður hann sennilega allt að 10 millj. Verðtollurinn er áætlaður 30 millj., en reyndist í fyrra um 39,5 millj., og verður sennilega mjög svipaður í ár.

Allar líkur benda til, að þessir 4 tekjuliðir, tekju- og eignarskattur, stríðsgróðaskattur, vörumagnstollur og verðtollur, verði um 78 millj. á næsta ári. En við 2. umr. var samþ. að áætla þessa tekjuliði 63,5 millj., eða 14,5 millj. lægri en sennilegt er, að þeir verði. Við förum sannarlega varlega, þó að við leggjum til, að þessir 4 liðir verði áætlaðir 75 milljónir.

Þjóðstjórnarflokkarnir eru hér vitandi vits að áætla tekjurnar allt of lágar og finna sér með því afsakanir fyrir að drepa gagnlegar og vinsælar framfaratillögur, — og er þetta sami skollaleikurinn og leikinn var í fyrra við afgreiðslu fjárlaganna.

Það er ekki hægt að skiljast svo við fjárlögin, að ekki sé minnzt á skrípaleik þjóðstjórnarflokkanna með tekjuauka áfengis- og tóbakseinkasölu. Allir vita, að verð á tóbaki og áfengi var hækkað í haust, og á sú verðhækkun að gilda áfram. Þrátt fyrir þetta neituðu þjóðstjórnarfl. að taka með í tekjuáætlun þessara stofnana tekjuaukann, sem af verðhækkuninni leiðir, og var þannig frá þessu gengið við 2. umr. Nú leggja þeir til að taka með þennan tekjuauka og áætla hann 8 millj. og 200 þús. Að vísu er þetta allt of lágt, en jafnhliða þessu lýsa þeir því yfir, að þeir muni flytja gjaldatillögur móti öllum þessum tekjum. En því koma þessar tillögur ekki fram samtímis? Hvaða loddaraleikur er þetta? Voru þeir hræddir að leggja þessar tillögur fram fyrir útvarpsumræðurnar?

Þm. Ísaf., Finnur Jónsson, fór í gær nokkrum orðum um þingið og stjórnina. Hann kvað allt fljóta áfram stefnulaust. Munur hefði nú verið, ef kommúnistar hefðu ekki hindrað vinstri stjórn í fyrra. Ef það væru 17 alþýðuflokksmenn, sem sætu á þingi, í stað 7 alþýðuflokksmanna og 10 kommúnista, eins og nú væri, þá væri þegar mynduð vinstri stjórn, — fyrirmyndar vinstri stjórn, eins og vinstri stjórn Alþfl. og Framsfl. í gamla daga. Þá var landinu stjórnað eftir ákveðinni stefnu til hagsbóta fyrir fólkið til sjávar og sveita. „Þá skiptu verkamenn og bændur því á milli sín, sem bændur og stríðsgróðamenn skipta nú“. Já, heyr á endemi! En hvers vegna rifjaði Finnur ekki upp einhver ákveðin mál, sem komið var fram á þessum tímum? Líklega er Finnur búinn að gleyma ýmsum þessara mála, og skal ég því hressa svolítið upp á minni hans. Því miður fékk verkalýðurinn engin hagsmunamál fram hjá þessari „vinstristjórn“ þeirra kratanna og Framsóknar, sem íhaldssamir atvinnurekendaflokkar hefðu ekki getað samþykkt. Afturhaldsbroddar Framsóknar, Jónas frá Hriflu og aðrir slíkir, réðu öllu, kratarnir voru skoðaðir sem griðkonur með háu kaupi, og fengju þeir það, ættu þeir að þegja. Og kaup sitt fengu þeir allir. Þingmenn flokksins, 10 að tölu, fengu vel launuð embætti hjá ríkissjóði, og það voru atvinnuleysistímar. Það var kaupið, sem þeir fengu fyrir að svíkja verkalýðinn og hjálpa framsóknarbroddunum. Embætti handa öllum þingflokknum, 10 mönnum, það var verðið fyrir æru Alþýðuflokksins. Fyrir það gat hann hjálpað Framsfl. til myrkraverkanna — til að skipuleggja um allt land pólitíska mútustarfsemi í stórum stil, — ekkert embætti var veitt nema framsóknarmanni, meira að segja eins illa launaðar stöður og barnakennarastöður kostuðu pólitíska sannfæringu umsækjenda. Gjaldeyris- og innflutningsleyfin voru miskunnarlaust notuð til pólitísks framdráttar Framsfl. Héraðsskólarnir notaðir pólitískt, Samvinnuskólinn, sem kostaður var og er enn að nokkru leyti af ríkisfé, er opinberlega flokksskóli framsóknarmanna. Valdaaðstaða framsóknar í menntamálaráði var notuð á sama hátt, og S.Í.S., kaupfélögin og Búnaðarfélag Íslands ánetjuð Framsókn, — allt með aðstoð og hjálp kratanna. Framkoman við verkalýðinn var svo kórónuð með gengisskráningarlögunum 1939, þar sem samningarétturinn um kaup og kjör verkalýðsins var tekinn af verkalýðnum, kaup lækkað um 27% á einni nóttu og kauphækkanir bannaðar. Þessum ráðstöfunum var Emil Jónsson að hæla Alþfl. af í ræðu sinni áðan. Svona vinstri samvinnu viljum við sósíalistar ekki. Finnur Jónsson sagði, að kommúnistar hefðu aldrei viljað „vinstri stjórn“ í fyrra vetur, þeir hefðu óttazt að tapa kosningafylgi. Með þessu játar Finnur, að samvinnan, sem okkur stóð til boða, hafi verið um hluti, sem kjósendur okkar vildu ekki, — og þetta er rétt. Svo kallaða vinstri stjórn var ekki hægt að mynda í fyrra vetur nema með svikum við verkalýðinn, kauplækkunum og réttindaskerðingum, — stjórn undir forustu þrælalagahöfundarins Eysteins og falsspámannsins Jónasar. Til þessa voru kratarnir fúsir og meira en það, og það hefðu þeir gert, ef þeir hefðu haft bolmagn til.

Árangurinn af því, að það sitja 10 sósíalistar og 7 kratar á þingi, en ekki 17 kratar, er sá, að slík svikastjórn var ekki mynduð. Það er þegar mikill ávinningur fyrir alþýðu manna.

Öll ræða Finns Jónssonar var hatursfull, móðursýkiskennd árás á Sósfl., og tuggði hann upp ósannindaþvælu Jónasar frá Hriflu og annarra slíkra um að við sósíalistar værum undir erlendri stjórn. Sósfl. er ekki undir erlendri stjórn og er engum háður nema íslenzkri alþýðu, —hann hefur aldrei fengið erlent fé til starfsemi sinnar. En kratarnir íslenzku hafa fengið lán og gjafir ekki aðeins frá sænskum krötum, heldur og frá dönskum krötum, hundruð þúsunda króna. Það skyldi þá ekki vera, að þeir vissu, hvað þeir hafa étið og nokkuð sterkar stórdanskar taugar liggi að sálum þeirra sumra?

Þá verð ég að segja það, að væri ekkert fé alþýðuflokksbroddanna verr fengið en þetta, væri vel, en eignarheimild Alþfl. og kratabroddanna á Iðnó og Alþýðubrauðgerðinni er þó enn þá svartari blettur. Verklýðsfélögin munu nú vera að leita aðstoðar dómstólanna til að sækja þessar eignir sínar í hendur kratanna, og skal ég ekki að sinni ræða meira um það.

Guðsmaðurinn, sem talaði fyrir íhaldið í gærkvöldi, spilaði gömlu plötuna um flokk allra stétta og var að reyna að afsanna kenninguna um, að enginn kynni tveim herrum að þjóna. Þetta tókst eins og efni standa til, þessi flokkur er nú sundurleitur og sama sem klofinn. Eins er því farið um Framsókn, — sá flokkur er líka sama sem klofinn, og kratarnir eru að veslast upp. Eini flokkurinn, sem er samstilltur, er Sósfl., hann er eini óspillti og djarfi flokkurinn.

Við viljum vinstri stjórn, — raunverulega vinstri stjórn, en það mega kratarnir og framsóknarbroddarnir vita, að við göngum aldrei til stjórnarsamvinnu upp á það að svíkja alþýðuna, — ekki þótt þeir byðu öllum þingflokki okkar embætti, þó að við gætum á einu bretti fengið fjórar forstjórastöður, dósentsembætti, vitamálastjóraembætti, landlæknisembætti, bankastjóraembætti, ráðherraembætti og fengjum að hafa mann á launum hjá ríkisskip, sem ekkert gerði árum saman.

Við, sem vorum í Alþfl., og aðrir vinstri menn, sem voru í Framsfl., og höfum séð þessa flokka svíkja og traðka á þeim hugsjónum, sem þeir þóttust berjast fyrir, við höfum myndað Sósfl. til að framkvæma þessar hugsjónir, sem voru okkur hjartfólgnar. Og við ætlum ekki að láta hann stranda á sömu skerjunum og þessir flokkar. Sem betur fer, er alþýðan óðum að átta sig á þessum nýja flokki sínum. Ör hefur vöxtur þessa flokks verið — örari verður hann á næstu tímum. — Verið þið sæl.