10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Gísli Jónsson:

Í tilefni af þessu frv. langar mig að spyrja frsm. fjhn., hvort hugmyndin sé, að undir þessi l. komi til með að falla skaðabótagreiðslur fyrir fasteignir, sem teknar hafa verið burt af setuliðinu. Þessar eignir munu hafa verið teknar burt eftir mati á sínum tíma, en útkoman varð sú, að þegar þessir sömu aðilar hafa orðið að byggja upp hús sín annars staðar, hafa þau orðið margfalt dýrari, og stafar það af því, að verðlag breyttist, frá því að húsin voru metin og rifin og þangað til að þau voru byggð, og að þessu eru svo mikil brögð, að fátækar fjölskyldur, sem gátu komizt af áður, hafa ekki einungis orðið eignalausar, heldur komizt í skuldir við að koma upp jafnstóru húsi og rifið var niður. Ég tók eftir, að hann sagði, að ef menn hefðu samið sjálfir, gætu þeir ekki snúið sér til ríkisstj. Nú er það vitanlegt, að í þessum tilfellum hafa aðilar ekki samið sjálfir, heldur n. fyrir þeirra hönd, og veit ég, að margir voru óánægðir með þau úrslit, sem urðu, og mundu víst gjarnan vilja fá bætt það tjón, sem þeir urðu fyrir. Ég ætlaði bara að skjóta þessu fram til þess að fá skýringu á því.