10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Út af athugasemd hv. þm. Barð. vildi ég láta það í ljós sem skoðun mína, að í framtíðinni yrði vafalaust ekkert því til fyrirstöðu, að maður, sem yrði að láta fasteign sína til hagsmuna fyrir setuliðið, sendi kröfu til ríkissjóðs, en ekki setuliðsins, og eftir þessum l., ef samþykkt verða, hafa þeir heimild til þess. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að þótt samkomulag yrði milli húseigenda og setuliðsins, hafa menn orðið fyrir alltilfinnanlegu tjóni, en það er ekki vegna þess, að matið hafi á sínum tíma ekki verið sæmilegt og jafnvel ríflegt, heldur er ástæðan hin mikla verðhækkun, sem hér átti sér stað á þessum árum. En svo framarlega sem samið hefur verið um afhendingu, geta eigendur ekki samkvæmt þessari löggjöf, gert kröfu á ríkissjóðinn. En rétta leiðin er, að ríkisstj. semji við setuliðið. Hún á að vera sterkari aðili til þess að gæta hagsmuna sinna en einstaklingurinn, og sannleikurinn er sá, að ef í harðbakka slær, hefur einstaklingurinn enga aðra leið en þá að snúa sér til ríkisstj. og fá hana til að koma fram fyrir sína hönd.

Ég vænti, að ég hafi svarað því, sem hv. þm. spurði um.