25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

27. mál, fjárlög 1944

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við þessar umræður hafa andstæðingar Sjálfstfl. rætt nokkuð fjárlagafrv. það, er nú liggur fyrir Alþingi. Frumv. þetta hefur verið til meðferðar í fjárveitinganefnd og tekið miklum breytingum frá því, sem það var, þegar hæstv. ríkisstjórn lagði það fram.

Á fyrsta fundi fjvn. lýsti formaður hennar, hv. þm. Borgf. (PO), því sem sinni skoðun, að nauðsyn bæri til þess að hækka framlög til verklegra framkvæmda til sjós og lands, svo fremi að tekjuáætlunin fyrir fjárhagsárið leyfði það.

Tekjuáætlun fyrir árið 1944 var samin svo fljótt sem tök voru á. Náðist samkomulag í nefndinni um mörg atriði, en verulegur ágreiningur varð um ýmsa tekjustofna, og skipti það liðinu að verulegu leyti innan nefndarinnar. Fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. urðu sammála um tekjuáætlun. Mynduðu fulltrúar þessara flokka meiri hl. í nefndinni og hindruðu, að frv. væri afgr. frá nefndinni í þeirri mynd, að svipur ábyrgðarleysis og lýðskrums væri á það settur. Með samtökum tókst að gera frv. þannig úr garði, að þótt tekjuáætlunin sé að vísu há, er hún þó það varleg, að ekki er ástæða til að óttast um, að hún standist ekki.

Ágreiningur varð um tekju- og eignarskattinn. Kommúnistar í nefndinni vildu áætla hann 21 millj. króna, fulltrúi Alþfl. 20 millj., en meiri hl. 19,5 millj. króna. Þessi tekjustofn mun gefa á yfirstandandi ári ca. 21 millj. króna. En það má telja víst, að þessi skattur verði lægri fyrir næsta ár, enda upplýst, að ýmis stór fyrirtæki hafa þénað minna á þessu ári en næsta ár á undan. Það er af tekjum yfirstandandi árs, sem skattarnir reiknast á næsta fjárhagsári, eins og kunnugt er. Þegar vitað er, að þau fyrirtæki, sem mest greiða af þessum sköttum, skila ekki eins miklum ágóða og verið hefur, er það fullkomið ábyrgðarleysi að áætla tekjurnar ekki með tilliti til þess.

Stríðsgróðaskatturinn er áætlaður af meiri hl. 12 millj. króna. Kommúnistar vilja áætla þann skatt 14 millj. kr., enda þótt hann hafi ekki reynzt gefa nema 12 millj. 1942 og muni sennilega ekki verða hærri fyrir yfirstandandi ár. Það liggja því engin rök til þess hjá kommúnistum að fara þetta hátt með þennan lið. Það hefur áður verið sagt, að tími stríðsgróðans sé liðinn, og ég held, að það sé rétt. Vörumagnstollurinn er nokkuð stór tekjuliður og fer eftir innflutningsmagninu. Meiri hl. áætlar þennan lið 8 millj. króna, en kommúnistar 9 millj. Vörumagnstollurinn reyndist 1942 9,4 millj. Á yfirstandandi ári mun hann verða um 9–9,5 millj. Nú er það vitanlegt, að erfiðleikarnir á því að fá vörur keyptar fara vaxandi og eiga áreiðanlega eftir að aukast mikið enn þá, ef styrjöldin heldur áfram, eins og líklegt má telja. Miklar líkur eru því til þess, að innflutningsmagnið minnki að einhverju leyti og sá tekjustofn sem hér um ræðir, þá um leið.

Verðtollurinn er stærsti tekjuliður fjárlaganna. Meiri hl. hefur áætlað þann lið 30 millj. króna, fulltrúi Alþfl. 31 milljón, en kommúnistar 38 millj. kr. Þessi tollur nam árið 1942 39,3 millj. króna. Á yfirstandandi ári mun hann sennilega reynast 35 millj. krónur. Verðtollur kemur helzt af vörum, sem nú er sérstaklega erfitt að fá til landsins. Það er því alveg víst, að sá tekjuliður hlýtur að lækka á næsta ári, enda er meiri hl. í fjvn. ljóst, að 30 millj. króna á þessum lið er sú hæsta upphæð, sem forsvaranlegt er að nefna. Áætlun kommúnistanna er því ekki á neinu viti byggð, enda upphæðin, sem þeir nefna, gripin úr lausu lofti. Kommúnistar vita þetta, en þeir vilja koma tekjunum hátt á pappírnum, því að þeir vilja sýnast fyrir þjóðinni. Á móti þessum fölsku tekjum koma þeir með milljónatillögur til útgjalda, sem eingöngu eru fram bornar til áróðurs og enga stoð eiga í veruleikanum, eins og ég síðar mun sýna fram á. Fjvn. hefur hækkað tekjurnar á frumvarpinu um 28843000 kr., þar af eru vegna formsbreytinga 7.7 millj. kr., og er því raunveruleg hækkun 20643000. Tekjuáætlunin samkv. frumv. er því samtals kr. 95307997,00, og verður varla annað sagt en það sé há upphæð.

Þótt tekjuáætlunin sé svo há sem hér hefur verið sagt, eru þó til menn hér í hv. Alþingi, sem láta mjög dólgslega yfir því, að hún skuli ekki vera mörgum milljónum króna hærri. Bændur, útgerðarmenn, kaupsýslumenn og aðrir atvinnurekendur munu tæplega hafa áhyggjur af því, að bú þeirra eða fyrirtæki gefi meiri hagnað en reiknað er með í ársbyrjun. Það munu því margir eiga erfitt með að skilja hugsanagang kommúnistanna, að það skuli vera þeirra mesta áhyggjuefni, að afkoma atvinnuveganna verði það góð, að ríkisbúið fái meiri tekjur en hv. Alþingi gerir ráð fyrir. Ég leyfi mér að halda því fram, að einhver ráð muni verða til að ráðstafa því fé, er þannig kynni að áskotnast, og sennilegt, að jafnvel kommúnistar fengjust til að gera tillögur um það.

Formaður fjvn., hv. þm. Borgf. (PO), hefur rækt starf sitt með mikilli prýði. Undir hans forustu hafa nefndarstörfin gengið fljótt og vel. Það er mest honum að þakka, að samstarf tókst í nefndinni og frumvarpið ber ekki með sér svip ábyrgðarleysisins. Undir hans forustu hefur framlag til verklegra framkvæmda til sjós og lands verið hækkað, svo sem unnt var, enda er ekki gert ráð fyrir nema ca. 1,5 millj. króna greiðslujöfnuði, þegar frá er tekin sú upphæð, sem ætluð er í dýrtíðarráðstafanir, en þannig mun 8,5 millj. króna verða ráðstafað, enda lögum samkv. skylt að tryggja útflutningsverð landbúnaðarins, eins og ég síðar mun minna á.

Eins og ég áður hef getið um, áætluðu kommúnistar tekjurnar mörgum milljónum króna hærra en meiri hl. fjvn., og hafa þeir komið með ýmsar tillögur, sem hafa í för með sér milljónaútgjöld á móti hinum ímynduðu tekjum. Þeir vilja sýnast fyrir bændum og leggja til, að varið sé 4 milljónum króna til nýsköpunar landbúnaðarins, eins og það er orðað. Þeir vilja sýnast fyrir sjómönnum og leggja til, að 10 millj. króna verði varið til nýbyggingar fiskiskipa. Þeir bera fram ýmsar fleiri tillögur til útgjalda, sem nema mörgum milljónum króna. Allir geta verið sammála um, að landbúnaðurinn þurfi að komast í nýtízku horf, þannig að helzt verði aðeins nytjað ræktað land. Einnig geta allir góðir Íslendingar verið sammála um, að stækkun og endurnýjun fiskiflotans sé þjóðarnauðsyn. En á bak við tillögur kommúnistanna er tæplega mikil alvara. Ef svo væri, hefðu þeir komið með tillögur um nýja tekjustofna til að tryggja það, að fé verði til þess að mæta útgjöldunum. — Það lítur því þannig út, að tillögurnar séu fram bornar aðeins í áróðursskyni, til þess að sýnast, og sé þetta einn þáttur í þeirri áróðursvél, sem kommúnistar hafa nú sett í gang. Fólki er ætlað að trúa því, að einlægur umbótavilji standi á bak við allt þetta Kommúnistar áætla tekjur ríkisins eins og börn, sem aldrei hafa fengizt við fjármál. Þjóðin veit, að einstaklingum, félagsheildum eða fyrirtækjum nægir ekki að blekkja sig með ímynduðum tekjuvonum og miða útgjöldin við þær fölsku vonir. Reynslan kennir mönnum, að gangur lífsins er á annan veg. Það er því ótrúlegt, að tillögur, sem þannig eru fram komnar hjá einum stjórnmálaflokki, verði til þess að auka fylgi hans eða álit hjá þjóðinni. Það er kominn tími til þess, að þjóðin krefji kommúnistana reikningsskapar fyrir þann ábyrgðarlausa leik, er sá flokkur hefur leikið bæði innan þings og utan. Alþfl. hefur oft leikið ýmislegt eftir kommúnistum. Fulltrúi hans í fjvn. var í gærkvöldi að stæra sig af tillögu, er hann bar fram í nefndinni fyrir 3. umr. fjárlaganna. Hann vildi sýna alþjóð, að Alþfl. hugsar um sjómannastéttina og framtíð þjóðarinnar, ekki síður en kommúnistar. Þess vegna bar hann fram till. um að verja 9,5 millj. króna til kaupa á fiskiskipum. Munurinn á þessari tillögu og tillögu kommúnistanna er sá, að kommúnistar hækkuðu tekjurnar á pappírnum sem þessu nam, eða ríflega það, en fulltrúi Alþfl. leggur til, að tekjurnar verði hækkaðar um 1,5 millj. króna fram yfir það, sem meiri hl. vildi, enda er ekki um annað fé að ræða upp í útgjaldatillögu Alþfl. en áðurnefnd 1,5 milljón, sem þó er aðeins ímyndun. Það er kunnugt, að meiri hl. n. leggur til, að 8,5 millj. króna af tekjuáætlun frv. verði ætlaður til dýrtíðarráðstafana, til þess að tryggja útflutningsverð landbúnaðarafurða.

Alþfl. ætlast ekki til, að neitt af þeim tekjum, sem áætlaðar eru í frv., verði notað til dýrtíðarráðstafana. Ekkert fé vill hann hafa í varasjóði til að tryggja útflutningsverð á afurðum bænda. Kaldur og rólegur leggur Alþfl. til, að samkomulag sex manna nefndarinnar sé rofið. Án þess að bera kinnroða, leggja þeir til, að lög, sem þeir sjálfir stóðu að að samþykkja fyrir rúmu missiri síðan, verði brotin. Alþfl. hefur hvað eftir annað vegið aftan að sex manna nefndinni og reynt að gera það samkomulag, sem náðist þar, tortryggilegt. Þó veit hann, að meiri hl, þingmanna vill halda samkomulagið og virða þau lög, sem þeir sjálfir sömdu og samþykktu. Dýrtíðarlögin frá 14. apríl s.l. og samkomulag sex manna nefndarinnar ákveða, að útflutningsverð landbúnaðarafurða skuli tryggt. Alþfl. veit þess vegna, að hjá þeirri skyldu verður ekki komizt, að hafa fé á fjárlögum í þessu skyni. Tillaga þessa flokks um 9,5 millj. króna framlag til kaupa nýrra fiskiskipa er því hreinn skrípaleikur, þar eð flokkurinn hefur ekki bent á neinn réttmætan tekjuauka til þess að mæta þessum útgjaldalið. Hvers vegna vill Alþfl. og kommúnistar brjóta lög og bregðast þeim skyldum, sem fulltrúar þessara flokka á Alþingi hafa gengizt undir með samþykkt dýrtíðarlaganna?

Það er vegna þess, að það þykir vænlegt til fylgis í kaupstöðum landsins að egna neytendur gegn framleiðendum. Ósvífnum áróðri hefur af hendi fyrrnefndra flokka verið haldið uppi í kaupstöðunum gegn Sjálfstfl., af því að hann vill halda samkomulag sex manna nefndarinnar og tryggja bændum það verð fyrir afurðirnar, sem hún hefur fundið.

Deilur milli framleiðenda og neytenda eru skaðlegar. Báðir þessir aðilar þurfa að vinna saman og skilja hvor annan. Þetta virtist öllum þingflokkum vera ljóst síðastliðinn vetur, enda stóðu allir flokkar að skipun sex manna nefndarinnar og setningu dýrtíðarlaganna. Sex manna nefndin var skipuð til þess að finna rétt verð landbúnaðarafurða í hlutfalli við gildandi kaupgjald í landinu. Í nefndina voru valdir fulltrúar framleiðenda og neytenda, tveir frá hvorum aðila, og einnig tveir mætir menn, sem voru hlutlausir og hugsuðu áreiðanlega jafnt um beggja hag. Í dýrtíðarlögunum er það fram tekið, að ef nefndin verði sammála, skuli niðurstaða hennar gilda og vera bindandi fyrir þing og stjórn. Ef einn nefndarmaður gerði ágreining, var starf nefndarinnar ónýtt. Hagur neytandans var því tryggður ekki síður en framleiðandans.

Eftir að nefndin hafði starfað í nokkra mánuði, hafði hún aflað nægilegra gagna til þess að gera sér grein fyrir því, hvaða verð bændur þurfa að fá fyrir framleiðsluna til þess að bera líkt úr býtum og vinnandi stéttir við sjóinn. Nefndin varð sammála, fulltrúar neytenda gerðu ekki ágreining. Neytendur höfðu haldið því fram, að það verð, sem gilti áður en nefndin tók til starfa, væri of hátt. En þegar nefnd sex manna frá öllum stéttum hafði aflað sér gagna og upplýsinga, sannfærðust allir nefndarmenn um, að það verð, sem áður gilti, var sízt of hátt, og staðfestu, að svo var ekki með því verði, sem nú gildir. Því hefur oft verið haldið fram, að verð sex manna nefndarinnar nái ekki til þeirra vara, sem kunna að verða fluttar úr landi. En um það þarf ekki mörg orð.

Dýrtíðarlögin segja, að taka skuli tillit til útflutningsverðsins, og nefndin tekur það fram í áliti sínu, að hún hafi haft alla framleiðsluna í huga, þegar verðlagið var ákveðið, enda ætti öllum að vera ljóst, að bændum gagnar ekki að fá fullt verð fyrir aðeins part af framleiðslunni. Það væru bein svik við bændur og lagabrot, ef útflutningsverðið væri ekki tryggt. Þess vegna er það hæpið fyrir kommúnista og Alþfl. að nota það til áróðurs gegn sjálfstæðismönnum, að þeir vilji virða lög og halda gefin heit. Þótt kjósendur kommúnista og Alþfl. hafi ef til vill skrítnar hugmyndir um bændur og afkomu þeirra, veit ég, að ýmsir þeirra ætlast til, að alþingismenn virði lög og haldi gefin heit.

Vegna þess hvað tími minn er naumur, mun ég ekki að þessu sinni hafa mörg orð um áreitni kommúnista í garð bænda og fyrirtækja þeirra. Það má segja, að sá þáttur hafi náð hámarki á þessu þingi, enda hefur blaðaáróður og frumvörp frá þeirra hendi snertandi landbúnaðinn verið hin ógeðslegasta árás, sem ég leyfi mér að lýsa andúð minni á.

Frumvarp kommúnista um eignarnám á mjólkurstöðinni er mesta ofbeldismál, sem birzt hefur á þingskjali. Kommúnistar munu standa einir í því máli og enginn veita því stuðning úr öðrum flokkum. Alþfl. mun tæplega treysta sér til að ljá málinu fylgi, og eru þeir Alþýðuflokksmenn þó þekktir að því að elta kommúnista á mörgum sviðum. Afstaða Sjálfstfl. til þessa frv. hefur verið rangfærð. Því hefur verið haldið fram, að aðeins þrír sjálfstæðismenn í neðri deild séu á móti frumvarpinu. Meiri hluti flokksins greiddi atkv. með því, að málið færi í nefnd, enda er það þingvenja um mál, sem borin eru fram, að láta þau fara til nefndar, enda þótt menn séu þeim andvígir. Þannig var með þetta frv., því að eins og áður er sagt, eru allir sjálfstæðismenn andvígir frumvarpinu. Mjólkurmálið verður sennilega leyst á þann hátt, að bændur geti vel við unað, um leið og neytendum einnig er sýnd sanngirni og tilraun gerð til sætta milli þessara aðila. Tillaga hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem getið hefur verið um í þingfréttum, mun verða samþ., enda er hún sáttatillaga, sem báðir aðilar geta unað við. Væri vissulega vel, ef þær hörðu deilur, sem um þessi mál hafa staðið, mættu hjaðna og vinsamleg samvinna takast milli framleiðenda og neytenda. Framsóknarmenn reyna oft að telja bændum trú um, að Framsfl. standi einn á verði um hagsmuni bænda. Tala þeir og skrifa um sjálfstæðismenn á þá lund, að þeir séu óvinir sveitanna, og má stundum líta svo á, sem þeir skoði Sjálfstfl. sem versta andstæðing bændanna.

Bændur vita vel, að Sjálfstfl. stendur vörð um hagsmuni þeirra. Reynslan hefur sýnt, að svo er. Framsóknarmenn höfðu farið með völd um margra ára skeið. Þann tíma höfðu bændur varla meira en í sig og á með því að vinna baki brotnu. — Eftir kjördæmabreytinguna og sjálfstæðismönnum fjölgaði á þingi, var það í lög tekið, að bændur skyldu hafa sömu tekjur og vinnandi stéttir við sjóinn. Í fyrsta sinn í þingsögunni fékkst þessi viðurkenning staðfest með dýrtíðarlögum síðastliðinn vetur. Þetta hefði átt að vera komið miklu fyrr. En í þau ár, sem Framsfl. fór með völd, lét hann það líðast, að bændur bæru minna frá borði en verkamenn. Bændur sjá, hvað gerist, og munu finna, hvað að þeim snýr. Þeir munu ekki taka því með þökkum, að flokkur, sem bezt gætir hagsmuna þeirra, sé rægður.

Þm. Str., Hermann Jónasson, talaði hér í gærkvöldi með miklu yfirlæti. Út úr ræðu hans skein hið sama og oft fyrr. Af því að ég er ekki forsætisráðherra, er ólag á ýmsu, dýrtíðin laus o. s. frv. „Ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð haustið 1941,“ sagði Hermann Jónasson, fengju bændur nú 40–50 aura fyrir mjólkurlítra í stað 1,23, og 3,00 fyrir kílóið af kjöti, í stað kr. 6,80. Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson vildu binda verðlagið á landbúnaðarvörum haustið 1941. Þeir vildu með lögum banna það, að bændur fengju meira verð en það, sem ég áðan nefndi. Þetta var í senn óframkvæmanlegt og ósanngjarnt, ef það hefði tekizt. Kaupgjaldið var ekki hægt að binda eins og þá var gert. Þótt kaupgjald hefði verið bundið með lögum, voru ótal leiðir fyrir atvinnurekendur við sjóinn, fyrir setuliðið, sem vantaði vinnuafl, að fara í kringum það. Eftirvinna, helgidagavinna, kaup fyrir tíð, sem aldrei var unnin, hefði verið greitt, eins og til þurfti til þess að fá fólkið. Ef Hermanni og Eysteini hefði tekizt að níðast þannig á bændum, hefði straumurinn úr sveitunum í hina vel borguðu atvinnu við sjóinn vissulega orðið meiri en hann hefur verið tvö síðustu árin. Hvernig væri afkoma bænda nú, ef áðurnefndum hv. þingmönnum hefði tekizt að koma áformum sínum fram? Útlenda varan væri í svipuðu verði og hún er nú, enda dýrtíðarvísitalan hækkuð á síðasta ári aðallega vegna hækkunar á landbúnaðarvörum. — Bændur, flestar þær vörur, sem þið kaupið hjá kaupmanni ykkar eða kaupfélagi, væru með svipuðu verði og þær eru, þótt verðfesting landbúnaðarvara hefði tekizt 1941 og væri í gildi enn. Hvernig haldið þið, bændur góðir, að greiðslujöfnuðurinn væri hjá ykkur, ef Hermann og Eysteinn hefðu fengið að ráða? Mundu ekki margir ykkar eiga erfitt með að gera upp viðskiptin? Það þarf ekki mörg orð um það. Bændur hefðu verið settir á hausinn, eins og það er kallað. Skuldir hefðu safnazt og bændur væru ósjálfbjarga og sligaðir. Þannig vildu þeir, sem telja sig hina einu bændavini, búa að bændum. Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, vill kenna Sjálfstfl. um dýrtíðina. Sjálfstfl. var. með Framsfl. í því að lögleiða gerðardómslögin frægu. Hvernig reyndust þau lög? Höfundur þeirra, Hermann Jónasson, braut þau á 3. degi eftir að þau voru sett. Meðan þessi sami maður var forsætisráðherra, var alltaf verið að opna dyrnar fyrir nýrri kauphækkun, og voru þessi lög því eins og rifið net, sem allir gátu smogið í gegnum, þegar Framsókn fór úr stjórninni.

Maðurinn, sem talaði með mestri vandlætingu um dýrtíðina í gærkvöldi, hvatti alþjóð í útvarpsræðu til þess að virða gerðardómslögin að engu. Hann hafði líka bezta aðstöðu til þess eftir að hafa verið fyrsti maðurinn, sem braut þau. Dýrtíðin í landinu er vegna stríðsins, — vegna þess, að erlendar vörur hafa hækkað mjög í verði, vegna þess að fjölmennt setulið hefur dvalið í landinu, vegna þess, að Sjálfstfl. vildi ekki þola það, að bændur færu á vonarvöl og framleiðslu þeirra væri haldið niðri meðan allir aðrir höfðu nóga peninga. Ýmsir framsóknarmenn litu einnig þannig á. En þeir eru í minni hl. í flokknum, eins og bezt má sjá á því, að formaður Framsfl., Jónas Jónsson, hv. þm. Sþ., fær ekki pláss fyrir greinar í Tímanum, vegna þess að hann er mótfallinn stefnu Hermanns, að verzla með hagsmuni bænda og binda trúss við kommúnista, hvenær sem færi gefst. Það er alþjóð ljóst, að kommúnistar og Alþfl. una því verðlagi illa, sem nú er á landbúnaðarvörum, þótt það verð sé fundið af sex manna nefndinni frægu. Því halda þeir uppi stöðugum áróðri gegn bændum.

Mitt í þessum áróðri ruglast kaupstaðarbúinn og telur, að bændur fái meira en nauðsyn ber til. Það er hollt fyrir kaupstaðarbúana að muna það, að minnst af tekjum bóndans verður kyrrt í hans vasa. Mest af tekjum bóndans fer í tilkostnað. Í kaupgjald, fæði verkafólks, áhöld, fóðurbæti, áburðarkaup og ýmislegt, sem fylgir búrekstri. Kaupgjald hefur margfaldazt, eins og kunnugt er. Af þessu má það ljóst vera, að framleiðslan verður að vera í háu verði. Ef bóndinn og húsfreyjan vinna 14–16 stundir á sólarhring, eins og víða mun vera, því að þrátt fyrir hátt kaupgjald er erfitt að fá fólk, munu þau hjón hafa sæmilega afkomu efnalega og ef til vill einhvern afgang. En það er fengið með því að vinna næstum tvöfaldan vinnutíma og slíta kröftum og heilsu fyrir aldur fram. Er sanngjarnt að telja eftir slíku fólki, þótt það hafi meira en aðeins til hnífs og skeiðar. Með því að vinna tvöfalt verk, hafa margir bændur létt á skuldunum eða losað sig við þær að mestu. Það er vel, að þeim hefur tekizt það. Komandi kreppa mun þá ekki leggjast eins þungt á þá, enda vonandi, að til þess þurfi ekki að koma, að bændur verði ekki héðan í frá sjálfbjarga og velmegandi. Það er stefnumál Sjálfstfl., að gera bændastétt landsins efnalega sjálfstæða stétt, sem er fær um að vinna með meiri atorku en nokkru sinni fyrr að ræktun og uppbyggingu sveitanna.

Ég hef eytt nokkru af tíma mínum til að tala um ýmislegt varðandi landbúnaðinn. Skal nú aftur vikið að útgjaldatillögum kommúnista og Alþfl. vegna bygginga nýrra fiskiskipa. Ég hef fært fyrir því gild rök, að till. þessar eru út í bláinn, vegna þess að þessir flokkar hafa ekki bent á neinar handbærar tekjur til þess að mæta slíkum útgjöldum. Tillögurnar eru því aðeins til þess að sýnast, og ættu allir skynsamir menn að gera sér það fyllilega ljóst. Sjávarútvegurinn blómgast ekki eða dafnar fyrir þvílíkar aðgerðir, heldur fyrir það raunhæfa, sem skapar trausta undirstöðu. Sjálfstfl. hefur alltaf talið þjóðarnauðsyn að efla sjávarútveginn og skilið, að hann er stór þáttur í afkomu og gengi þjóðarinnar. Með þennan skilning á málefnum sjávarútvegsins bar formaður fjvn., hv. þm. Borgf. (PO), fram till. í fjvn., sem samþ. var í einu hljóði, um að verja til kaupa nýrra fiskiskipa 5 millj. króna úr framkvæmdasjóði ríkisins. Það fé er handbært, og eru því engar tyllivonir eða blekkingar við það tengdar.

Sjálfstfl. hefur oftlega á það bent, að sjálfstæði landsins, efnaleg afkoma og velgengni byggist á heilbrigðum atvinnurekstri. Sjálfstfl. hefur barizt á móti því, að útgerðin og aðrir atvinnuvegir landsmanna væru sligaðir með drápssköttum. En það hefur oft verið örðug og hörð barátta, þegar allir rauðu flokkarnir hafa verið saman. Íslendingar þurfa að endurbyggja og stækka kaupskipa- og fiskiflotann. Eftir styrjöldina ber að keppa að því að gera kaupskipaflotann það stóran, að við getum annast allar siglingar sjálfir. Vér eigum að keppa að því að verða siglingaþjóð eins og frændur vorir, Norðmenn. Fiskiflotinn þarf að stækka, ekki aðeins vegna þess, að fólkinu fjölgar í landinu, heldur einnig vegna þess, að atvinnuleysi má ekki verða hér aftur. Fyrir styrjöldina var ekki nægileg atvinna. Þjóðin hefur ekki efni á því að láta vinnuafl vera ónotað. Fámenn þjóð í auðugu landi þarf á öllum tímum að hagnýta orku þegnanna og sjá um, að allir, sem vilja vinna og geta unnið, fái starf við sitt hæfi. Atvinnuleysi er böl. Því sé það stefna vor að gera það útlægt. En hvernig má svo verða? Það verður aðeins gert með því að efla Sjálfstfl. og gera stefnu hans ráðandi.

Kommúnistar eiga mest af fylgi meðal verkamanna. Þeir lofa verkamönnum gulli og grænum skógum. Þeim hefur tekizt að blekkja marga heiðarlega menn með loforðum og fagurmælum. Verkamenn verða að gera sér ljóst, að kommúnistar vinna að upplausn í þjóðfélaginu. Þeir vilja grafa undan því þjóðskipulagi, sem vér nú búum við. Þeir vinna markvisst að því að eyðileggja heilbrigðan atvinnurekstur í landinu, því að það flýtir fyrir byltingunni og því, sem þeir stefna að. Þegar atvinnuvegirnir eru komnir í þrot, hugsa kommúnistar sér að taka völdin. Þá verður verkamönnum skammtað. Þá þýðir ekki að heimta hátt kaup, því að þá mun aðeins einn ráða, Stalín eða einhver undirtylla hans. Þá er okið komið á þjóðina, og hún losnar ekki úr hlekkjunum. Land vort er of gott, íslenzka þjóðin er í eðli sínu of tápmikil til þess að verða slíku að bráð. Sjálfstfl. heitir á alla góða Íslendinga og óskar eftir samstarfi til þess að koma fram stefnumálum flokksins. Flokkurinn er í minni hluta á Alþingi. En vér vitum, hvað vér viljum, að hverju ber að stefna. Þjóð vor verður efnalega sjálfstæð, ef stefnu sjálfstæðismanna er fylgt. Atvinnuvegir landsmanna verða að komast á heilbrigðan og öruggan grundvöll, — skipastóllinn að stækka, nýjar síldarverksmiðjur þarf að reisa, fullkomin skipasmíðastöð eða stöðvar þurfa að rísa upp, áburðar- og sementsverksmiðja og fleira, er að iðnaðinum lýtur. Íslenzkur iðnaður á fyrir sér að aukast, verða samkeppnisfær við erlendan iðnað og veita landsins börnum atvinnu og lífsframfæri. Ræktun landsins með rafmagni og þægindum í sveitum mun verða til þess að gera landbúnaðinn eftirsóttan og arðvænlegan atvinnuveg. Með aukningu framleiðslutækjanna og eflingu atvinnuveganna mun atvinnuleysið ekki sækja þjóð vora heim.

Þjóð vor er fámenn, en hún er auðug eigi að síður. Gróðurmoldin er frjósöm, fiskimiðin þau beztu, sem til eru í heiminum, fallvötnin hafa ótakmarkaða orku, sem vér hljótum að taka í þjónustu vora. Auðlindir og möguleika landsins ber oss að nota. Borgaralegu flokkarnir á þingi verða að hafa þetta í huga og hætta hinum ógeðslega leik, sem leikinn hefur verið um hríð. Ósamkomulagið á Alþingi hefur sem kunnugt er verið þess valdandi, að ríkisstjóri skipaði stjórn utanþingsmanna. Alþingi brást þeirri skyldu að mynda þingræðisstjórn. Ríkisstjórn sú, er vér nú höfum, er skipuð starfhæfum og velviljuðum mönnum. Hún kom að völdum í því skyni að færa niður dýrtíðina. Í því skyni hefur fé verið varið úr ríkissjóði í stórum stil. En dýrtíðin er ekkert lamb við að leika. Hún er hér komin vegna stríðsins, en ekki heimatilbúin eða verk sjálfstæðismanna, eins og sumir halda fram. Dýrtíðin væri nú 290–300 stig, ef ekki væru ýmsar nauðsynjar keyptar niður með framlagi úr ríkissjóði. Eins og áður er sagt, má víst telja, að núverandi ríkisstjórn vinni störf með góðum hug. En því verður ekki neitað, að stjórnarfarið væri öruggara, ef þingið bæri ábyrgð á ríkisstjórninni. Það hlýtur því að verða verkefni þingsins að mynda stjórn, annaðhvort með alveg nýjum mönnum eða ef til vill að einhverju leyti þeim mönnum, sem nú eru í stjórn. Það er ekki höfuðatriði, að ráðherra sé þingmaður. Aðalatriðið er, að þingið beri ábyrgð á ríkisstjórninni og hún hafi þingmeirihluta með sér. Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, lýsti því hér í gær, að lítil von væri til þess, að þetta tækist. Hann reyndi í 5 mánuði að verzla með hagsmuni bænda við kommúnista til þess að mynda stjórn með þeim. En það tókst ekki. En margir framsóknarmenn vilja stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl., en Hermann Jónasson hefur gert allt til að spilla því.

Ég held, að bezta lausnin á ástandinu, sem nú ríkir á þinginu, sé að kippa út úr því þeim mönnum, sem ekki vilja semja við borgaralegu öflin. Það þarf ekki að breyta kjördæmaskipuninni til þess að heiðarleg stjórnarsamvinna geti tekizt. Aðeins að losa þingið við menn, sem ekki vilja leysa málin á skynsamlegan hátt. Þjóðin ætlast til þess, að borgaralegu flokkarnir komi sér saman. Það er réttmæt krafa til Alþingis, að það gæti skyldu sinnar í þessu efni. Sjálfstfl. vill samstarf. Hann hefur beitt sér fyrir því og lagt sig fram til þess, að það gæti tekizt. Vonandi ber þjóð vor gæfu til þess, að betri öflin megi ráða og hefnigirni og sundrung víki úr vegi. Þjóð vor á glæsilega framtíð fyrir höndum, ef vér berum gæfu til þess að sameina kraftana og vinna að málum þjóðarinnar á heilbrigðan og skynsamlegan hátt.