18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

126. mál, lóðir og lönd Reykjavíkurkaupstaðar

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði í þessu frv., sem ég tel, að þurfi breyt. við. Það er ákvæði 2. gr., að leiga eftir lóðir undir íbúðarhúsnæði skuli ákveðin í hundraðshlutum af fasteignamatsverði lóðarinnar. Ég hef ekkert við upphæð hundraðshlutanna að athuga, en ég tel vafasamt, að rétt sé að miða leiguna við fasteignamatsverð. Í matsverði lóðanna felast þau mannvirki, sem hafa verið gerð í sambandi við þær, eins og t. d. ræktun á þeim, garðar í kringum þær o. fl., þannig að byggjendur koma til með að greiða eftir því hærra gjald fyrir lóðina sem þeir gera meira til þess að bæta þær, því að lóðin verður eftir því dýrari sem hún er gerð betri. Þetta ákvæði gæti því dregið úr mönnum við að gera umbætur á lóðum þeim, sem þeir hafa á leigu.

Hér þætti eðlilegra, að þetta væri miðað við grunnverð lóðanna, þótt ég hafi ekki enn borið fram brtt. um það, en ég álít, að n. ætti að athuga þetta fyrir 3. umr.