18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

126. mál, lóðir og lönd Reykjavíkurkaupstaðar

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal upplýsa, að eins og fasteignamat er framkvæmt hér á landi, eru lóðir metnar með görðum í kring, og allt, sem gert er á þeim til umbóta og prýði, hækkar fasteignamatsverð þeirra af þeirri einföldu ástæðu, að það gerir þær meira virði til sölu. Því er það svo, að allar þess háttar framkvæmdir koma inn í lóðaverðið. Því meira sem menn gera fyrir lóðir sínar, því hærri leigu verða þeir að greiða til bæjarsjóðs, og það sjá allir, að ekkert réttlæti er í þessu. Hitt atriðið um að hafa gjaldið 5% er aukaatriði. En ég vil aftur taka fram, að það er ekki rétt að skattleggja menn fyrir að hirða vel um lóðir sínar og rækta þær.