22.11.1943
Efri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

81. mál, málflytjendur

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Í forföllum hv. 6. þm. Reykv. (BBen) ætla ég að segja nokkur orð um þetta mál, en annars var hann kosinn frsm. í þessu máli.

Í þessu frv. er aðeins farið fram á það, að þeir lögfræðingar, sem skipaðir hafa verið í fasta dómarastöðu eða skipa má í föst dómarasæti samkvæmt 32. gr. laga nr. 85 23. júní 1936, um meðferð einkamála í héraði, skuli undanþegnir ákvæðum 6. tölul. 14. gr. þeirra l., — m. ö. o. undanþegnir því að þurfa að taka prófmál til þess að fá málflutningsleyfi. Ég sé ekki, að réttaröryggi sé neitt misboðið, þó að á þennan hátt sé þessum l. breytt, því að þetta eru einmitt í mörgum tilfellum menn, sem hafa verið dómarar áður. Og það er hart að neita þeim um rétt til þess að flytja mál fyrir undirrétti, þegar þeir hafa í mörgum tilfellum dæmt í hliðstæðum málum sjálfir. Enda eru þau skilyrði, sem sett eru samkv. l. og menn verða að uppfylla til þess að geta verið dómarar, mjög ströng fyrir utan það, að þeir verða að vera lögfræðingar.

Mál þetta hefur gengið gegnum hv. Nd., og hefur verið þar í n. til meðferðar. Hefur sú n. mælt með, að frv. yrði samþ. óbreytt. Einn nm. í allshn. þessarar d. var ekki viðstaddur, þegar n. afgreiddi málið, en hinir nm. voru alveg sammála um, að frv. ætti að verða samþ. óbreytt.