17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Hermann Jónasson:

Þótt ég sé hér ekki í neinu forsvari af hálfu n., vil ég taka fram hið helzta, sem fyrir nm. vakti með brtt. Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að verið sé að framselja öll yfirráð þessarar ríkisstofnunar í hendur stórstúkunni. Ekki er hægt að skipa stjórnarn. hælisins nema með samþykki ráðherra, og er honum þar með fengið nægilegt vald um mannaval, miklu meira en ef hann skyldi skipa n. eftir till. stórstúkunnar, eins og lagt hefur verið til, en hæstaréttardómur er til fyrir því, að með slíku orðalagi væri ráðh., bundinn um mannavalið. Hann getur neitað að samþ. skipun n., og verði ekki fullt samkomulag um reksturinn, getur hann vitanlega sagt: Hælið verður alls ekki rekið. — Ég veit vel af þeirri kynningu, sem ég fékk af rekstri slíkra stofnana fyrir nokkrum árum, og ég kynnti mér málið nokkuð mikið, að það gerir allan gæfumuninn, hvort það heppnast að fá forstöðumenn með nógan áhuga. Það er gagnslaust að velja menn til þess eins og valið er í venjulegt embætti, setja þar Pétur eða Pál, sem geta verið ágætustu menn á marga lund, en reynslan sýnir alls staðar, að slíkt mannúðarstarf verður ekki vel unnið nema af mönnum með sérstakan áhuga á því og vilja til að fórna sér fyrir það hlutverk. Við álítum, að þessa áhuga sé helzt að leita innan stórstúkunnar, hún geti bent á mennina, sem beri hælið uppi. Það er ekkert undarlegt, að þetta sé sett í l. að fela stórstúkunni reksturinn. Því er lýst yfir í grg. frv., að stórstúkan býðst til að taka hann að sér, ef ákvæði í þessa átt séu sett í lög. Ég sé ekki, að við höfum efni á að slá á þá hönd, sem stórstúkan réttir fram. Ég mun ekki að öðru leyti deila um þetta mál. Mér virðist það liggja svo ljóst fyrir, að umr. muni ekki breyta miklu um atkvgr.