17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Bernharð Stefánsson:

Ég hef ekki sannfærzt af ræðum hv. 1. þm. Reykv.hv. þm. Str. um, að 2. gr. þýði ekki afsal ríkisins á valdinu yfir þessari ríkisstofnun. Í gr. stendur hvergi, að ráðh. skuli samþ. ráðningu læknis og starfsfólks, og mér virðist tvímælalaust, að ekki þurfi samþykki hans. N. veitti ekki af að gera það skiljanlegt í frv., ef hún ætlast til þess. Ég tek undir ósk hv. þm. S.-Þ. um, að málið verði tekið af dagskrá, ef umbætur kynnu að fást. Það má vera, að rétt hefði verið að nema burt svigana, sem voru í 2. gr. í upphafi, en annars hefði frv. vel mátt vera svipað því sem það var fram borið í fyrstu. Hv. 1. þm. Reykv. hefur ekki vaxið í skilningi á þessu máli síðan við 2. umr., heldur hið gagnstæða. Atriði, sem ég vildi bera undir hv. þm. Str. og aðra lögfræðinga er hið tvíþætta hlutverk hælisins. Það á ekki aðeins að vera hressingarhæli, heldur einnig fangelsi, sem ríkið sendir þá menn í, sem dæmdir eru til þess konar dvalar. — Skyldi nú nokkurs staðar í heiminum vera það fyrirkomulag á að fela einstökum félögum rekstur fangelsa, og ég er ekki heldur viss um, að þessi félagsskapur sé allra heppilegastur til þess að reka þessa stofnun. Það er ekki ólíklegt, að sumir þeir, sem verða dæmdir til þess að dveljast á þessu hæli, verði einmitt dæmdir þangað fyrir ákærur templara, og ég veit ekki, hvort það er beint heppilegt fyrirkomulag, því að þótt templarar hafi áhuga á því, að menn drekki ekki, þá er ekki víst, að það sé heppilegt, að þeir hafi þar fyrir með höndum yfirstjórn þessa hælis, þar sem menn verða dæmdir til þess að dvelja, þótt þeir vilji það ekki. Og þeir munu í mörgum tilfellum verða dæmdir þangað, vegna þess að þeir verða ákærðir af templurum. Ég vil því taka undir þá ósk, sem hefur komið hér fram um það, að málinu verði frestað og að n. reyni að taka þetta betur til athugunar, ef hún kynni að komast að einhverri skynsamlegri lausn á þessu. Ég er ekki á móti því, að stórstúkan verði eitthvað við þetta riðin, en ég er á móti því, að hún veiti hælinu forstöðu.