17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég er ekkert á móti því, að málið verði nú tekið af dagskrá og athugað betur í n., því að ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli. En það er fátt, sem stendur til bóta, og ágreiningurinn er að mestu byggður á misskilningi. (BSt: Nefndarinnar.) Það eru orð hv. þm., en ekki mín.

Það, sem hér er deilt um, er till. um, að stórstúkan skuli hafa með höndum rekstur hælisins. Svo kemur upptalning um, að hún skuli ráða forstöðumann, lækni og annað starfsfólk með samþykki ráðherra. Ég veit ekki, hvernig hægt er að hafa þetta skýrara, og ef þetta er óskýrt, þá hygg ég, að megi fara að telja mörg ákvæði óskýr í l. Þegar verið er að tala um það, að það sé óeðlilegt, að ríkið feli stórstúkunni að fara með rekstur hælisins og afsali sér þannig framkvæmdarvaldinu yfir stofnun, sem er rekin á þess kostnað, þá ættu menn að gæta þess, að það eru mörg dæmi þess, að þetta sé gert. Það má t. d. taka skólana. Þeir eru að mestu kostaðir af ríkinu, og þó er á þeim nær fullkomin sjálfstjórn.

Þá skal ég svara fyrirspurn um það, hvort gert sé ráð fyrir því, að læknir hælisins gegni því starfi sem sérstöku embætti. Ég hef ekki gert ráð fyrir því, að svo verði, heldur yrði þetta haft sem aukastarf, enda yrði það ekki svo mikið starf, að við það væri unandi eingöngu. Hitt er eðlilegt, að læknir hælisins sé sérstaklega tilnefndur, því að það er með lækna eins og aðra, að þeir eru misjafnlega áhugasamir um bindindismál. En það er nauðsynlegt, ef rekstur hælisins á að bera árangur, að þá hafi starfsmenn þess áhuga á starfi sínu. Það eru hins vegar til dæmi þess, að héraðslæknar hér á landi séu mjög drykkfelldir, og það er gagnslítið, að þeir menn, sem á að lækna, verði undir hendi manns, sem er ef til vill að hálfu leyti sjúklingur sjálfur.

Þá er það atriðið, sem hv. 1. þm. Eyf. kom inn á, hvort ekki væri óviðeigandi, að fangavörðurinn væri sjálfur ákærandi, því að það gæti komið fyrir, að stórstúkan yrði ákærandi í málum sumra þeirra manna, sem yrðu dæmdir til hælisvistar. — Þótt svo væri nú, þá er það ekki óeðlilegt, því að fangaverðir eru lögreglumenn, og lögreglumenn eru ákærendur. En þetta er ekki heldur svo, vegna þess að hælið er ekki fangelsi. Menn geta verið komnir þangað af tveimur ástæðum. Þeir geta verið komnir þangað samkvæmt eigin ósk, og þeir geta verið dæmdir til hælisvistar, sbr. 64. gr. l. nr. 19 1940. Með þessu er átt við það, sem er sérstaklega tekið fram í þessum l., sem eru hegningarl., að ef maður er dæmdur til refsingar samkvæmt 64. gr. þeirra l., þá getur hann verið úrskurðaður til hælisvistar samkvæmt 65. gr. sömu l., þegar hann er búinn að taka út refsingu sína, ef hann getur ekki ráðið við drykkjufýsn sína. Og er hann því ekki dæmdur til hælisvistarinnar til þess að taka út refsingu fyrir afbrot, heldur er hann dæmdur þangað samkvæmt till. læknis og eftir úrskurði dómara.

Í þjóðfélagi okkar er það líka þannig, að allir hafa rétt til þess að kæra, og geta menn því verið ákærendur, hvort sem þeir eru lögreglumenn, stórstúkumenn eða eitthvað annað. En þeir, sem dveljast á hælinu, eru ekki fangar, þar sem þeir eru ekki dæmdir þangað fyrir afbrot. (BSt: Er ekki ófrjáls maður fangi?). Maður, sem er úrskurðaður til hælisvistar vegna sjúkdóms, er ekki fangi. Það er vitað, að hér á landi eru til margir sjúkdómar, sem ég þarf ekki að nefna, sem eru þannig, að þeir sjúklingar, sem þjást af þeim, verða að dveljast á hælum og geta ekki losnað þaðan eftir eigin geðþótta.

Annars hef ég ekkert á móti því, að umr. verði frestað og málið tekið betur til athugunar í n., og ég tel, að ekki væri óeðlilegt, að ríkisstj. ætti sinn fulltrúa í stjórnarnefnd hælisins.