17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. þótti mér ekki hafa farið fram í skilningi, en ég á bágt með að beygja mig undir dóm hans, vegna þess að hann er enn þá haldinn af sama misskilningnum, sem ég varð snöggvast gripinn af. Ég get að nokkru leyti látið mér nægja að vitna í ræðu hv. þm. Str., því að hann hefur þegar tekið fram ýmislegt af því, sem ég ætlaði að segja.

Ég er ekkert á móti því, að athugað sé, hvort ekki sé hægt að gera 2. gr. skýrari, en mér finnst hún nægilega skýr eins og hún er.

Það er rétt, að ef ráðh. ætti að skipa starfsfólk hælisins eftir till. stórstúkunnar, þá væri hann þó bundinn af því, en eins og þetta er nú, þá hefur hann málið gersamlega í hendi sinni, þar sem stjórnarnefndin getur ekki hreyft sig nema með samþykki hans. Ég vil svo taka það fram út af því, sem rætt hefur verið um lækni hælisins, að það er ekki hægt að sjá af frv., hvort ætlazt er til þess, að það verði sérstakt embætti. En eins og nú stendur, tel ég ekkert vit í því að ráða sérstakan lækni til hælisins eingöngu auk forstöðumanns. Ég tel, að það geti verið hentugt að ráða lækni, sem gæti verið forstöðumaður jafnframt, ef það væri roskinn og reyndur læknir, sem væri kunnur að því að hafa góða hæfileika til þess að veita slíku hæli forstöðu. Og það gæti verið hentugt fyrir roskinn lækni, sem væri farinn að þola illa ferðalög, að geta setzt þarna að sem forstöðumaður og jafnframt læknir. Annars yrði þá að ráða sérstakan lækni til þess að hafa þetta sem aukastarf.

Hv. þm. Str. leysti að nokkru úr því, sem hv. 1. þm. Eyf. var að tala um, að það væri erfitt að samræma það að hafa tvær tegundir manna saman á hælinu. Mér sýnist vera lítill munur á þessum tveimur tegundum. Eftir að þeir eru komnir á hælið, eru þeir ekki að öllu leyti frjálsir menn, því að ef maður fer leyfislaust af hælinu, þá er heimilt að flytja hann þangað aftur nauðugan og þröngva honum til dvalar þar svo lengi sem ákveðið hefur verið. — Þá er það þetta, sem hv. 1. þm. Eyf. var að tala um, hvort ekki væri óviðeigandi, að ákærandinn væri jafnframt fangavörður, en það er altítt. Tökum sem dæmi, að upp yrði komið hæli fyrir vandræðabörn. Það er augljóst, að barnaverndarnefnd eða barnaverndarráð mundi hafa með höndum rekstur slíks hælis, enda þótt barnaverndarráð mundi að sjálfsögðu eiga frumkvæðið að því, að börn yrðu tekin til hælisvistar, og ég sé ekki betur en að það væri í alla staði eðlilegt, að barnaverndarráð hefði umsjón slíks hælis með höndum.

Viðvíkjandi því sem hv. 2. þm. Árn. sagði, þá vil ég taka það fram, að mér þótti vænt um, er ég sá það í 1. gr., að ekki er gert ráð fyrir, að hælið þurfi að vera framvegis í Kumbravogi, heldur skuli heimilt að flytja það þaðan. En það ætti ekki heldur að vera á Litla-Hrauni, og það ætti yfirleitt alls ekki að vera svona nærri Reykjavík, þar sem er sífelldur straumur af alls konar umferð, heldur ætti það að vera einhvers staðar sem mest út úr á rólegum, kyrrlátum stað, þar sem væri sem allra minnst umferð. Ég gæti t. d. hugsað mér, að Ólafsdalur væri heppilegur staður fyrir slíkt hæli. Þar er það nokkuð út úr en þó gott til aðdrátta. Þetta er einungis uppástunga. En líklegt þætti mér, að helzt gætu menn fengið bót ráðna á þessum kvilla á fögrum og afskekktum stað, þar sem næði er gott. En þá yrði eðlilega læknir að vera forstöðumaður hælisins, þar eð óhægt væri að ná til hans að öðrum kosti.

Annars hef ég ekkert á móti því, að þetta mál verði tekið af dagskrá, ef n. vill.