18.11.1943
Efri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég hef ekki hlustað á þessar umr., en það hefur komið fram till. frá hv. þm. Dal. um breyt. á 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. hafi einn fulltrúa. Ég sé ekki, að þetta breyti miklu og að ástæða sé til að hafa langar umr. um það. Ég tel, að það muni hvorki gera til né frá og till. sé þess vegna alveg óþörf. Ég mun því greiða atkv. móti henni. Ég er þeirrar skoðunar, að stjórn og rekstri hælisins sé bezt borgið með, að stórstúkan hafi það mál með höndum. Rekstur slíkra hæla fer eingöngu eftir því, hvernig þeim er stjórnað. Hér er verið að leggja út í óvissa tilraun, og ég er alltaf dálítið tortrygginn, geri eins ráð fyrir, að þetta geti mistekizt. En ég held, að bezta tryggingin sé sú, að stórstúkan annist rekstur hælisins, þó að engin trygging sé í sjálfu sér til fyrir þessu. Slíkur rekstur er vandasamt verk, og auðvitað er ekki hægt að fullyrða, að stórstúkunni takist þetta, en þó treysti ég henni bezt. Í n. verða þá að minnsta kosti valdir áhugamenn, sem hafa kynnt sér þessi mál, og þeir hugsa sér undir öllum kringumstæðum, að þetta sé rekið sem hæli, en á engan hátt sem fangelsi, en í því liggur mest hætta. Hins vegar er augljóst, að ef ágreiningur kemur upp milli ríkisstj. og stórstúkunnar, mundi ríkisstj. fara fram á, að l. yrði breytt og rekstur hælisins tekinn af stórstúkunni. Og þó að ágreiningur kæmi upp, yrði hann ekki leystur með því, að einn fulltrúinn í n. væri frá ríkisstj. Annað hvort sjónarmiðið yrði að ráða. Hins vegar er tryggilega frá því gengið í frv., að ríkisstj. hefur hin endanlegu völd. Það er ekki hægt að ráða starfsmenn né lækni nema með samþykki ríkisstj.