25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Finnur Jónsson:

Eftir því, sem fram kemur í rækilegri grg. með frv., hefur hælið í Kumbravogi tæplega náð tilgangi sínum undir rekstri stórstúku Íslands. Það kemur í ljós, að innritazt hafa 13 menn og 4 af þeim hafa farið aftur, áður en þeir höfðu dvalizt hinn tilsetta tíma á hælinu. Virðist því vanta vald til að halda mönnum á hælinu gegn vilja þeirra. Það virðist og vafasamt, að hælið nái tilgangi sínum á þeim stað, þar sem það er nú, og eftir viðtal við landlækni get ég sagt það, að hann telur þennan stað óheppilegan. Hins vegar er það virðingarvert, að stórstúkan hefur hafizt handa um þennan rekstur, en hins vegar er sjálfsagt, að Alþ. taki nú við. En í sambandi við þetta mál tel ég fyrir mitt leyti óviðurkvæmilegt að láta einkafélagsskap hafa yfirstj. á ríkisrekstrarfyrirtæki. Ég tel hins vegar rétt, að stórstúkan hafi um þetta íhlutun. Ég vil því leggja fram skrifl. brtt. við 2. gr. frv., að 2. málsl. orðist svo:

„Ráðh. skipar stjórnarnefndina, formann og tvo meðstjórnendur, og skal annar þeirra valinn eftir tilnefningu stórstúku Íslands.“