29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki beinlínis að blanda mér í umr. um þetta mál. En mér þykir þá rétt að láta í ljós þá skoðun mína, að mál þetta sé alls ekki eins undirbúið og það þyrfti að vera. Það hefur verið klifað mikið á þessu á nokkrum þingum, að það þurfi að stofna drykkjumannahæli. En mér og ýmsum fleirum, sem ég hef átt tal um þetta við, hefur sýnzt hér ógæfulega vera til stofnað, því að það mun vera ákaflega erfitt að fá menn til að koma á hæli, sem heitir drykkjumannahæli, og þeir, sem helzt þyrftu þess með, mundu kannske sízt á þetta hæli koma. Ég hygg, að e. t. v. væri það betra að stofna hæli fyrir taugaveiklað fólk, sem hefði ekki þann stimpil að vera kallað hæli fyrir ofdrykkjumenn.

Stórstúkan mun nú þykjast hafa þekkingu til þess sennilega að undirbúa þetta mál eða stofna til þess og ætlar svo að láta ríkið taka við. Ég er alls ekki viss um það, þó að stúkan hafi reynt að vera eins konar hæli fyrir slíka menn, að hún sé fær um það að undirbúa slíkt hæli sem þetta og að skapa á því það form, sem má verða að gagni. Ég sé, að í grg. frv. stendur, að hælið hafi sigrazt á veikleika eins manns. Það er náttúrlega ekki ákaflega mikill árangur, þó að þannig hafi einn maður fiskazt allan þennan tíma. Fjórir hafa hins vegar hlaupizt á brott af hælinu, meðan einn hefur útskrifazt. Ég er sannfærður um það, að ef hægt væri að setja svona hæli í það form, að það væri ekki aðeins ofdrykkjumönnum, heldur einnig þeim mönnum, sem ofþreyttir eru og taugaveiklaðir, innkomu auðið þangað, þá mundi hælið að sjálfsögðu ná miklu frekar tilgangi sínum. Ég er þess vegna algerlega á móti því, að ríkið taki á móti þessu hæli, eins og til þess er stofnað. Hinu mundi ég geta verið samþykkur, að það væri undirbúið að koma upp hæli fyrir taugaveiklað fólk, sem þá gæti náttúrlega líka hentað fyrir ofdrykkjumenn.