29.11.1943
Efri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

57. mál, jarðhiti

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar, en það fer í þá átt, að ríkið kaupi sérstaka jarðbora og láti þá í té bæjar- og sveitarfélögum til þess að bora eftir heitu vatni, þó með þeim hætti, að ríkið annist reksturinn, en bæjar- og sveitarfélögin skulu standa straum af verkinu, þó þannig, að ríkið greiði helming kostnaðar við boranirnar, eftir því sem veitt verður til þess í fjárl. í hvert skipti. Allshn. þótti sanngjarnt, að ríkið greiddi fyrir bæjar- og sveitarfélögum við slíkar rannsóknir, og var því sammála um meginefni frv., en meiri hl. þótti ástæða til þess að gera tvær breyt. á frv. Önnur breyt. er um það, að bæjar- og sveitarfélög skuli geta fengið styrk frá ríkinu, þótt ekki sé notaður sá bor, sem ríkið á. Það virðist óréttmætt að takmarka réttinn til þess að fá styrk við það, að tæki ríkisins séu notuð. Hins vegar þótti okkur rétt að binda það því skilyrði, að ríkið hefði nægilegt eftirlit með borununum og að ekki skyldi ráðizt í þær nema í samráði við rannsóknaráð ríkisins. Þegar slíkt eftirlit er fyrir hendi, þá virðist það aukaatriði, hver sé eigandi borsins. Þykir okkur því sanngjarnt, að ríkið standi undir helmingi kostnaðar við boranirnar, hvort sem það á tækin eða ekki. Þetta er meginbreyt. á frv., og fer fyrri brtt. meiri hl. allshn. í þá átt.

Hin brtt. miðar að því, að það verði ekki einungis þær boranir, sem verða gerðar hér eftir, er njóta skuli styrks, heldur skuli hann einnig ná til þeirra rannsókna, sem þegar hafa verið gerðar, ef ráðunautar ríkisins telja þær á viti byggðar. Þær rannsóknir, sem þegar hafa verið gerðar, eru brautryðjendastarf, og það er alltaf áhættumeira, vegna þess að þá þurfa menn að þreifa sig áfram til þess að vita, hvað ber árangur, og þannig öðlast þeir þá þekkingu, sem síðar getur orðið undirstaða undir starfi eftirkomendanna.

Okkur virðist því full sanngirni mæla með því, að ríkið taki ekki síður þátt í kostnaðinum við þær rannsóknir, sem búið er að gera, en hinar, sem eftir eru, vegna þess að reynslan, sem fengizt hefur við hinar fyrri, gerir þær síðari léttari og hagkvæmari.

Við leggjum líka til, að einungis þær fyrri rannsóknir verði styrktar, sem hafa verið skynsamlega af hendi leystar að dómi verkfræðinga.

Ég veit, að það kemur fram mótbára gegn þessu með þeim forsendum, að hér eigi að fara að greiða styrki aftur í tímann og þótt styrkurinn sé ef til vill sanngjarn, þá muni það leiða til ófæru, ef lagt verður út á þessa braut: Ég skal ekki rekja það að sinni, en ég vil benda á, að hér er um mjög takmarkaðar rannsóknir að ræða, sem gæti komið til mála, að fengju að njóta styrks. Um sanngirnina verður ekki deilt né hitt, að það, sem gert hefur verið, hafi greitt mjög fyrir frekari rannsóknum. Það má líkja þessum rannsóknum, sem þegar hafa verið gerðar, við t. d. jarðabótastyrk, því að þótt hann sé ekki látinn verka langt aftur fyrir sig, þá þykir þó sjálfsagt, er nýjar reglur um úthlutun hans eru settar, að veita styrk eftir þeim út á þær jarðabætur, sem áður hafa verið gerðar, hafi ekki verið búið að veita styrk út á þær áður. Og þar sem nú stendur svo á, að allar þær jarðhitarannsóknir, sem hér hafa farið fram, eru með svipuðum hætti og aðrar jarðboranir, þá virðist mér, hvernig sem á þetta er litið, að full sanngirni mæli með því, að þetta nái til fyrri rannsókna. Ég vil því mæla með því, að frv. nái fram að ganga með þeim breytingum, sem ég hef lagt til. En að öðrum kosti verð ég á móti því.