25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

27. mál, fjárlög 1944

Einar Olgeirsson:

Ég verð að geta þess hér, að þar sem hv. 8. þm. Reykv., Sigfús Sigurhjartarson, er forfallaður vegna veikinda — en hann ætlaði að tala hér í kvöld —, tala ég fyrir Sósfl. í hans stað.

Hv. 4. þm. Reykv., Stefán Jóh. Stefánson, segir, að ég segi það ósatt, að Alþfl. hafi viljað ganga að 25% grunnkaupslækkun til að mynda stjórn með Framsfl. Nú var ekki hægt að mynda stjórn með Framsfl. nema ganga að þessum skilyrðum. Alþfl. hefur nú hér í útvarpinu álasað okkur fyrir að hafa ekki gengið að þessum skilyrðum. Sem sé hlýtur hann að hafa viljað ganga að þeim sjálfur, samþ. orð og verk Framsóknar, lækka kaup bæði verkamanna og bænda.

Skilgreining Skúla Guðmundssonar á stórbændum og smábændum er tóm blekking, en hann heldur því fram, að farið sé eftir því, hvort heimilið sé stórt eða smátt. Ef heimilið er stórt, er börnunum og öllum, sem við það vinna, tryggt fullt kaup, samkv. skilgreiningi 6 manna nefndarinnar.

Það kemur því ekki málinu við, hvort heimilið er stórt eða smátt. Það verður aðeins farið eftir tekjum þess fólks, sem að landbúnaði vinnur, hvort sem um stórgróðamenn er að ræða eða fátækt fólk, sem ekki ber það úr býtum fyrir vinnu sína, sem það á rétt til.

En blekkingar Skúla eru skiljanlegar. Það er erfitt að verja málstað þeirra, sem vilja taka skattpening verkamanna og vinnandi bænda til þess að greiða stórgróðamönnum, sem landbúnað stunda, fátækrastyrk úr ríkissjóði. Það er eðlilegt, að Skúli Guðmundsson gripi til blekkinga.

Finnur Jónsson lék hér í gær á útslitna Moskva-plötu sína um erlendar fyrirskipanir með kolryðgaðri nál, svo það ískraði í eyrum þeirra, sem á hlýddu. Og hver er svo flokksnefillinn, sem spilar þessa plötu upp eftir Berlínarútvarpinu? Það er sá flokkur, sem svikið hefur þjóðina í viðkvæmasta máli hennar — sjálfstæðismálinu —, flokkurinn, sem snarsnerist frá 12 ára fylgi við skilnað og lýðveldisstofnun á einum degi, af því að Stauning, forsætisráðh. Danmerkur, sagði honum að snúast!

Allar tillögur sósíalista um skipabyggingar, eflingu landbúnaðarins, skólabyggingar, vitabyggingar og auknar slysavarnir eru blekkingar, segja þeir Ingólfur á Hellu og Skúli Guðmundsson vegna þess að sósíalistar benda ekki á neinar tekjur til þess að standa undir þessum framkvæmdum. Skúli segir með miklum fjálgleik, að þannig leggi sósíalistar til að margnota sömu krónurnar. Hvað er satt í þessum ásökunum þeirra manna, sem drepið hafa framfaratilögur okkar sósíalista? Sannleikurinn er sá, að þeir hafa lagt til að falsa tekjuáætlun fjárlaganna um tugi milljóna, en við sósíalistar höfum lagt til, að tekjurnar yrðu áætlaðar sem næst því, sem skýrslur s.l. árs sýna, að þær muni verða. Sem dæmi skal bent á þetta: Tekju-, eignar- og stríðsgróðaskattur er áætlaður 5 millj. lægri en hann reyndist. Tollarnir eru áætlaðir 12 millj. lægri en þeir reyndust. Þannig eru skattarnir og tollarnir áætlaðir vísvitandi rangt um 17 milljónir króna.

Auk þessara 17 milljóna er ca. 10 millj. kr. af áfengi og tóbaki óráðstafað og þannig eru því til 27 millj. til þeirra framfaratillagna, sem við sósíalistar leggjum fram. Það er hægt að leggja fram 10 millj. til skipabygginga, 4 millj. til eflingar landbúnaðarins, byggja marga skóla, vita og sjúkrahús, — bara ef vilji er fyrir hendi. Sannleikurinn er sá, að gamla þjóðstjórnarliðið vill ekki þessar framkvæmdir. Það er annað, sem fyrir þeim vakir.

Hæstv. fjmrh. upplýsti hér í gær, að ríkið mundi verja í ár um 9 milljónum kr. til að kaupa niður vísitöluna. Þessi niðurborgun vísitölunnar hefur enga raunverulega lækkun dýrtíðarinnar í för með sér. Launþegar verða að borga jafnmikið fé úr sínum vasa fyrir kjöt og mjólk og annað þess háttar, en það er bara sumt af andvirðinu tekið með beinni greiðslu fyrir vörurnar, en sumt með tollum og sköttum, eða verðhækkunin er færð milli vasa. Hins vegar hefur þessi niðurborgun vísitölunnar ótvíræð áhrif á kaupgjaldið, þannig að kaupgjaldið lækkar vegna þessarar vísitölu, sem fölsuð er með þessari niðurgreiðslu. Þessi aðferð er því beinlínis kauplækkunaraðferð, en ekki barátta gegn dýrtíðinni. — Og samstundis sem þessum greiðslum væri hætt, þá þyti vísitalan upp, þessar niðurgreiðslur eru því ekkert framtíðarráð gegn hækkun vísitölunnar.

Nú skulum við svo bera saman, hvað gera mætti með því að framkvæma eina af till. okkar sósíalista í dýrtíðarmálunum.

Ef felldir væru niður tollar á þeim nauðsynjavörum, sem vísitala er reiknuð af, mundi vísitalan lækka um yfir 20 stig og dýrtíðin lækka enn meir: Afnám þessara tolla væri uppfylling loforða, sem meirihlutaflokkar Alþ. hafa gefið þjóðinni ár eftir ár. Afnám þessara tolla mundi valda ríkisjóði tekjumissi upp á 11 milljónir króna, en á móti kæmi, að 3–4 milljónir króna spöruðust fyrir ríkissjóð. Útkoman yrði að fyrir 7–8 milljónir króna mætti lækka vísitöluna um yfir 20 stig, lækka dýrtíðina raunverulega miklu meira, — í stað þess að borga nú hinar miklu fjárfúlgur úr ríkissjóði til þess að falsa vísitöluna á kostnað launþega, en lækka dýrtíðina ekki nokkurn skapaðan hlut.

Hæstv. fjmrh. segist vilja berjast gegn dýrtíðinni „með öllum ráðum“. Fögur orð. En þegar á hólminn kemur, þá vill hann alls ekki þekkjast þau ráð, sem alþýðu manna mættu að gagni verða. Stefnumunurinn milli okkar sósíalista og ríkisstjórnarinnar er sá, að hún vill ekki lækkun dýrtíðarinnar heldur bara vísitölunnar, en við viljum hvort tveggja.

Ég var áðan að minnast á þá óstarfhæfni Alþ., sem auðvaldsflokkunum verður svo tíðrætt um. Það er rétt að skilgreina þá óstarfhæfni ögn nánar frá þjóðfélagslegu sjónarmiði. Sannleikurinn er, að frelsishreyfing alþýðunnar og þá fyrst og fremst verkalýðshreyfingin er of sterk utan þings og innan til þess að auðmannastéttin geti lagt á alþýðuna þau kúgunarbönd, sem héldu henni fyrr. En alþýðan er samt enn ekki nógu sterk til að geta stjórnað landinu.

Það er eins konar jafnvægisástand milli sterkustu aflanna í landinu, auðmannastéttarinnar annars vegar, sem á leiðtoga þjóðstjórnarflokkanna alltaf vísa sér til liðveizlu, þegar þeir þora, og alþýðunnar hins vegar, sem er yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda allra flokkanna og er meir og meir að vakna til meðvitundar um vald sitt. Og meðan þetta jafnvægi helzt, verður Alþ. það, sem þjóðstjórnarflokkarnir kalla óstarfhæft, óhæft til nýrrar gerðardómskúgunar gegn alþýðunni.

Hermann Jónasson sagði frá því hér í útvarpinu í gær, hvaða ráðum yfirstéttin ætti að beita til þess að skapa sér samt sem áður starfhæft kúgunarvald, þó að hún gæti ekki notað Alþ. Hann vill, að ríkisstjóri skipi stjórn, sem taki fjárveitingavaldið og löggjafarvaldið af Alþ. og beiti því eins og yfirstéttinni þóknast, sem sé í anda gerðardómslaganna frá 1942. Þar með væri yfirstéttarvaldið í landinu orðið nógu langt frá fólkinu, lýðræðið nógu vel þurrkað út, til þess að milljónamæringarnir gætu drottnað án þess að spyrja um þing eða þjóð. Þetta er aðferð afturhaldsins til að koma á einræði auðvaldsins, gera kúgunarvald yfirstéttanna starfhæft á ný. Hermann Jónasson bendir á aðferðina til að raska því jafnvægi, sem nú er, þannig að auðvaldið verði nógu sterkt til að drottna og kúga.

Og Jónas sendir launbréf og Dagspistla út um allar sveitir til þess að skora á bændur að hervæðast, búast til bardaga og blóðsúthellinga, eins og hann segir í Degi. Með þessum samvizkulausu æsingum, sem þið heyrðuð m. a. dálítið af í ræðu Skúla Guðmundssonar hér áðan, á að reyna að skapa fjöldagrundvöll fyrir harðstjórn afturhaldsins gegn alþýðunni, múgæsingar, sem eiga að verða flotholt fyrir einræðisklíku Jónasar frá Hriflu og hans nánustu til valda á Íslandi í skjóli erlendrar herstjórnar.

Það er þetta, sem íslenzk alþýða þarf að sameinast um að hindra.

Við sósíalistar berjumst fyrir því, að raska þessu jafnvægi og þannig, að alþýðan verði sterkari og geti stjórnað landinu í anda róttækra og stórfelldra framfara og umbóta. Við álítum fyrst og fremst, að skapa þurfi tvö skilyrði til þess, að svo megi verða.

Fyrra skilyrðið er að sameina verkalýðinn, sem vegna fjölda síns og samtaka hlýtur alltaf að hafa forustu í frelsisbaráttu alþýðunnar og raunverulegri ríkisstjórn hennar í landinu. Stórt spor hefur verið stigið í þá átt með sameiningu þeirri, sem verkalýðurinn hefur myndað í Alþýðusambandinu. En það, sem hindrar þá einingu enn þá, er afturhaldsklíka sú, sem ræður í Alþýðuflokknum og lætur ekkert tækifæri ónotað til að reyna að sundra verkalýðnum, meira að segja fjandskapast út af sameiningu verkamanna á Akur eyri í eitt félag, hvað þá öðru, sem verkalýðnum má til heilla verða.

Annað skilyrðið er bandalag verkalýðsins við bændur, fiskimenn og aðrar millistéttir. Og eins og þið hafið heyrt, þá fjandskapast Alþfl. við fátt annað meir en það samkomulag 6 manna nefndarinnar, sem Alþýðusambandið gerði við bændur, — og Framsókn, undir forustu Jónasar Jónssonar, gengur nú berserksgang um land allt til þess að reyna að fylkja bændum með atvinnurekendum gegn verkamönnum. Þið, vinnandi stéttir Íslands, sem mál mitt heyrið. Þið getið skapað þessi skilyrði, skapað þau strax. Rísið upp, hvar sem þið eruð, og látið til ykkar heyra.

Verkamenn, rísið upp í verkalýðsfélögunum og fylkið þeim 20 þús., sem þar eru, öllum í eitt bandalag alþýðustéttanna.

Bændur, fiskimenn. Krefjizt þess nú þegar, í búnaðarfélögum ykkar, fiskifélögum og öðrum samtökum, að tekið sé höndum saman við verklýðssamtökin til þess að framkvæma sameiginleg hagsmunamál ykkar allra.

Aldrei var því um Alþingi spáð, að ættjörðin frelsaðist þaðan.

En þú vinnandi þjóð Íslands. Þú getur frelsað hana, frelsað sjálfa þig frá atvinnuleysi, kreppum og fátækt fortíðarinnar, frá atvinnuleysi og hruni því, sem afturhaldið vill fá að leiða yfir verkamenn, bændur, fiskimenn á ný, — getur frelsað hana og þig, ef þú vilt. En vilji þinn verður að vera sterkur, einbeittur.

Þú vinnandi þjóð Íslands. Þú getur gert Alþ. starfhæft aftur, — ekki starfhæft til nýrra þrælalaga, nýrra hungurárása, nýrra ríkislögreglulaga o. s. frv. — heldur starfhæft til að byggja hér grundvöll að öruggu framtíðarþjóðfrelsi, — þar sem alþýðan fær að njóta auðlinda þessa lands í fullum mæli og uppskera sjálf ávextina af vinnu sinni. Og það er það, sem alþýðan ætlar sér að gera. — Góða nótt.