25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

27. mál, fjárlög 1944

Gunnar Thoroddsen:

Það var eins og vænta mátti um varnir af hálfu hv. þm. V.-Sk. Hann játaði, að hann hefði neitað að gefa þær upplýsingar, sem fjmrh. fór fram á 1939. Mundi hann gefa n. meiri upplýsingar nú, nema hann væri skyldaður til þess? Þessar upplýsingar hans staðfesta og sanna, að það er full ástæða til að krefjast þess í till., að hann sé skyldaður til að leggja fram þær skýrslur, sem kynni að verða beðið um.

Þær mótbárur hans, að honum hafi ekki verið skylt að gefa þessar upplýsingar, af því að Mjólkursamsalan sé ekki opinhert fyrirtæki, heldur félagsskapur bænda, eru ekki nægilegar. N. var stjórnskipuð. Hann er stjórnskipaður. Hann var því skyldur sem stjórnskipaður embættismaður að gera grein fyrir atriðum, sem lutu að stjórn hans á fyrirtækinu.

Út af till. hans, sem gengur enn lengra en till. mín, vildi hann skáka í því skjalinu, að hún væri bara til að sýnast, en hans till. nær til allrar framleiðslu bænda og meira en það.

Hann spurði, hvort ég vildi láta taka mjólk frá sjúkum og særðum. Það er enginn á móti því, að hið erlenda setulið fái alla þá mjólk, sem það þarf handa sínum sjúku mönnum, en samkvæmt upplýsingum hans sjálfs nægir þeim til þessara þarfa mjólk af einum bíl á dag.

Ýmsir ræðumenn hafa gert dýrtíðarmálin að umræðuefni. Hv. þm. Str. vék að verðfestingarfrv. 1941 og harmaði, að það skyldi ekki hafa verið samþ., því að það mundi hafa bjargað þjóðinni frá glötun! Það átti að festa grunnkaup, festa dýrtíðaruppbót, banna að hækka verð á landbúnaðarafurðum, þó að kostnaður hækkaði, t. d. erlend vara. Þá vil ég halda því fram, að gerðardómslögin hafi borið eins og gull af eiri af verðfestingarl.

Framsóknarmenn, sem hér töluðu, gáfu í skyn, að Sjálfstfl. hefði brugðizt skyldu sinni og eyðilagt starf 6 manna nefndarinnar m. a. með því að greiða ekki atkv. með verðlækkunarskattinum. Þetta er ósatt. Það er ómögulegt að segja, að það hafi verið eina leiðin til þess að tryggja, að samkomulag 6 manna n. kæmi til framkvæmda.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram í sinni ræðu, að með dýrtíðarl. 1942 hefði dýrtíðin, sem þá fór ört vaxandi, verið stöðvuð. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En það ber að athuga, að þegar stjórnin tók við völdum, voru allar grunnkaupshækkanirnar í garð gengnar og engar, sem stóðu fyrir dyrum. Auk þess má geta þess, að til þess að halda dýrtíðinni í skefjum varð ríkisstjórnin að greiða 9,6 millj. króna með henni.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að Sjálfstfl. væri ævinlega skiptur. Það skal viðurkennt, að flokkur, sem á fylgi í öllum stéttum, hlýtur að eiga erfiðara með að vera ævinlega sammála en þeir flokkar, sem hafa fylgi aðeins einnar stéttar. En það fer að sitja illa á framsóknarmönnum að tala um „einingu andans í bandi friðarins“, — formaður flokksins fær ekki að skrifa í aðalmálgagn hans, eða — eins og komizt er að orði: er nú kominn á Dag-kaup í stað Tíma-kaups áður. Og það er einkennilegt, að sá sami flokkur, sem gefið hefur út bækling Eysteins, þennan „harmagrát Jeremíasar“ út af því að kommúnistar vildu ekki mynda stjórn með Framsókn, — að hann skuli bregða Sjálfstfl. um það, að hann sé í ,makki við kommúnista“. Þetta er eingöngu gert til þess að draga athygli manna frá þeirra eigin misheppnaða „makki“ við þann flokk.

Hæstv. fjmrh. minntist í ræðu sinni í gær á það ástand, sem nú ríkir í málum þjóðarinnar, og að ekki væri hægt að fá lausn á vandamálunum, af því að ríkisvaldið skorti bakhjall, og að þetta gæti ekki staðið lengi. Þetta er rétt, og Sjálfstfl. var andvígur því frá öndverðu, að sú leið yrði farin, sem farin var. Hann óttaðist, að samstarfið yrði ekki nægilegt milli ríkisstjórnar og Alþ.

Tími minn er nú nær því á enda, en eitt vil ég segja áður en ég lýk máli mínu. Það er oft talað um þá sundrung, sem ríkir á Alþ. En ég held, að hún sé ekki bara á Alþ., heldur meðal þjóðarinnar fyrst og fremst. Það er sú sundrung, sem þarf að hverfa. Þjóðin þarf að sameinast um þann flokk, sem hefur ekki hag einnar stéttar, heldur allra stétta fyrir augum, — En það er Sjálfstfl. — Góða nótt.