17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Hæstv. deild kannast við þetta mál, þar eð hliðstætt mál var samþ. hér í vetur. Síðan hefur fengizt reynsla á þeirri löggjöf, og sú reynsla er mjög góð, bæði hér í bæ og annars staðar, þar sem hún hefur verið reynd. Ég get fullyrt, að gjaldendur greiddu þetta yfirleitt umyrðalaust, og nokkrir létu í ljós ánægju yfir þessari nýbreytni.

Ég get látið mér nægja á þessu stigi málsins að vísa til grg. og fenginnar reynslu, sem mælir með frv. Til viðbótar get ég getið þess, að skorað hefur verið á ríkisstj. að afla gagna um meðferð þessara mála erlendis.

Ég lét þess getið við umr. um þá þáltill., að alger nýskipun þessara mála hér væri ekki tímabær. En það, sem hér er um að ræða, er breyt. í rétta átt.

Loks vildi ég mælast til, að málinu yrði vísað til fjhn. og því yrði flýtt sem auðið er.