17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég skal ekki hafa langar umr. um grundvallaratriði málsins. Þau voru rædd ýtarlega á síðasta þingi. Ég vil aðeins benda á það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að síðan þessi l. voru sett á síðasta þingi, hefur reynslan skorið úr um það, að bæði hefur þetta fyrirkomulag á innheimtu útsvara reynzt hentugt fyrir sveitarfélögin og þar að auki hefur ríkt almenn ánægja hjá almenningi yfir þessu fyrirkomulagi. Ég hélt nákvæmlega spurnum fyrir um það, hvað útsvarsgreiðendur segðu um það, þegar þeir komu til að borga útsvörin. Og það var yfirgnæfandi meiri hl. gjaldendanna, sem beinlínis lét í ljós ánægju sína yfir þessu fyrirkomulagi. En tveir eða þrír menn, sem komið hafa á skrifstofu bæjarstjórnar Reykjavíkur, létu nokkra óánægju uppi. Almenningur telur því, að það fyrirkomulag sé beinn greiði við sig að fá að greiða útsvörin í fleiri afborgunum en áður, eins og nú hefur verið tekið upp. Enda er það svo, að menn eiga þetta fé í raun og veru ekki, heldur er þetta hlutur þess opinbera, sem það tekur af tekjum manna fyrir þau hlunnindi, sem þeir fá. Menn eiga þetta því ekki sjálfir, og þeim er mikill ógreiði ger, ef þeir fá þetta fé til ímyndaðrar eignar og þannig til frjálsrar ráðstöfunar, ef á svo að taka það af þeim á eftir. Þess vegna eru það mikil hlunnindi fyrir gjaldendur að fá þetta fyrirkomulag. Og eins og ég gat um í framsöguræðu minni hafa bæði Bandaríkin, Canada og Bretland hið mikla gengið miklu lengra en hér er gert og fært greiðslurnar yfir á sama árið sem fyrir tekjunum er unnið. En þar er byggt á sömu meginhugsun og hér. Og í því tilfelli verður ekki heldur komizt hjá ýmsum leiðréttingum og umreikningum í árslok. Enda sýndi hæstv. Alþ. skilning sinn á þessu fyrirkomulagi í fyrra, og ég vona, að skilningur þess verði ekki minni á þessu atriði nú, eftir að reynslan hefur kveðið upp sinn dóm, eins og ég hef sagt.

Varðandi ýmis atriði, sem hv. þm. Barð. ræddi hér, skal ég geta þess, að viðhorfið er nú nokkuð annað en var í fyrra. Þá var ljóst, að enn þá meiri rekstrarfjárþörf var fyrir bæjar- og sveitarsjóði á fyrri hluta ársins 1943 en búast má við, að verði næsta ár tiltölulega, vegna nýrrar stórkostlega aukinnar dýrtíðar frá því, er útsvörin 1942 voru á lögð og þangað til útsvörin voru á lögð 1943. En nú býst maður við, að hægt verði að halda nokkurn veginn svipuðu verðlagi áfram og þess vegna standi bæjarsjóður betur nú en í fyrra. Þar af leiðandi kemur þessi skipting innheimtunnar betur við nú, þar sem af þessum ástæðum líka þykir rétt að hafa það 40%, en ekki 50%, sem greiða skal á þessum fyrri gjalddögum, þannig að ég hygg, að með þeirri álagningaraðferð nái bæjar- og sveitarsjóðir því nú, sem þeir þurfa í þessu efni.

Aths. hv. þm. Barð. byggðust á þeim skilningi, að hann fullyrðir, að útsvörin séu ekki komin í gjalddaga á þeim tíma, sem eftir þessum ákvæðum á að greiða hluta af þeim. En með þessum ákvæðum eru útsvörin látin falla í gjalddaga þessa tilteknu daga að nokkrum hluta, og þannig er bara breytt um gjalddagann. Og þar af leiðandi verða sömu viðurlög að liggja við, ef ekki er greitt á þessum gjalddaga, og gilda um aðra gjalddaga. Þetta er mjög einfalt mál.

Varðandi 3. gr. þá held ég, að orðalagið á henni feli nú það sama í sér og orðalagið á þessu ákvæði í l. í fyrra. Hitt er rétt, að þetta er ótvíræðara orðalag, eins og nú er, og til þess að taka af allan misskilning. Og það sýnist ekki ástæða til þess, heldur beinlínis rangt að leyfa það að láta menn fá goldna vexti af því fé, sem endanlega kemur í ljós, að þeir áttu að greiða í útsvörin. Það er fyllsta ástæða til þess að greiða þeim vexti, ef það kemur í ljós, að þeir hafa ofborgað, annars ekki, enda þótt þeir hafi borgað einhvern tiltölulega lítinn hluta útsvarsins eitthvað fyrr en á gjalddaga, miðað við það, að aðeins 40% af endanlega útsvarinu ætti að greiða á þessum fyrstu gjalddögum, sem hér eru tilgreindir, eða áður en útsvörin eru endanlega á lögð. Ef gjaldendur hafa ekki gert annað en greiða þá skatta og skyldur, sem þeim bar að greiða yfir árið, þá hafa þeir ekki undan neinu að kvarta. Í þessu sambandi er enn fremur á það að líta, að þetta vaxtaatriði kemur í raun og veru ekki til greina fyrir aðra en einstaka — ja, fjárplógsmenn, ætla ég að leyfa mér að segja, sem eru beinlínis að hugsa um það að ávaxta fé sitt á sér hagkvæman hátt, menn, sem hafa af einhverjum ástæðum séð, að skattar þeirra muni verða lægri á einhverju ári en á næstliðnu ári, og vita, að það er ekki hægt að ávaxta fé í banka nema fyrir mjög lága vexti. Og þá vilja þeir kannske koma fé sínu inn í bæjarsjóðinn fyrir okurvexti, sem eru margfalt hærri en innlánsvextir eru. Slíkt er fráleitt að opna þarna leið fyrir menn til þess að taka okurvexti af fé sínu, sem menn þá geta gert. En með frv., eins og það er nú, er algerlega séð fyrir því, að í engu er gengið á rétt manna. En hins vegar er að vísu með öllu loku skotið fyrir það, að menn geti ávaxtað fé sitt á sérlega hagkvæman hátt á þessum tímum í bæjarsjóði og rekið okurstarfsemi hjá bænum í þessu sambandi, sem aldrei hefur staðið til.