17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Gísli Jónsson:

Ég vil algerlega mótmæla þessari síðustu upplýsingu frá hv. flm. frv. Hér er ekki um það að ræða, að nokkrum detti í hug að reyna að opna leið til þess að ávaxta fé einstakra manna í bæjarsjóði Reykjavíkur undir yfirskini þessara laga, og er furða, að borgarstjóri, lögfræðingur og prófessor skuli halda slíku fram. (BBen: Ég sagði ekki, að það hefði verið gert). En viðkomandi 3. gr. frv. vil ég spyrja: Lítur flm. svo á, að bæjarsjóði Reykjavíkur sé heimilt að halda þannig fé manna og endurgreiða ekki vexti af, nema því aðeins, að upphæðin hafi náð meira en öllu útsvarinu? Því að ef hann lítur ekki svo á, þá er um efnisbreyt. að ræða í frv., sem þarf að lagfæra. Að vísu hef ég oft tekið fram, að það eina rétta sé að fella frv. En ég er viss um, að í mörgum tilfellum verður dómur um þetta atriði, ef bæjarsjóður beygir sig ekki. Það er ekki lítið atriði, þegar menn eiga að greiða svo að tugum þús. kr. skiptir í útsvar, hvort svo og svo mikill hluti útsvarsins liggur vaxtalaust hjá bæjarsjóði, áður en hann er fallinn í gjalddaga, þar sem menn verða oft að greiða 6% í vexti til bankanna í útlánsvexti, og oft verða menn að taka lán til þess að geta staðið undir skyldum sínum við bæjarsjóð.

Hv. flm. sagði, að með þessum l. væru útsvörin fallin í gjalddaga, áður en þau væru lögð á. Þetta er rangt. Það er aðeins nokkur hluti útsvaranna, sem fallinn er þá í gjalddaga. Ef maður á að greiða 10 þús. kr. í útsvar, þá er eftir þessum l. ekki nema 40% af þeirri upphæð fallið í gjalddaga á þessum gjalddögum, sem til eru teknir í frv., 1. marz til l maí. Og þess vegna ber gjaldanda að fá vexti af því, sem hann kann að hafa á þessum gjalddögum greitt umfram 40% af endanlegu útsvari sínu. Og þar sem slíkt er ekki gert, er ekki um annað að ræða en ásælni bæjarsjóðs, sem alls ekki er sæmandi, að hann þannig sækist eftir því að ná fé af mönnum. Hins vegar stendur ekki á því, að bæjarsjóður taki háa vexti af því fé, sem menn skulda bænum, eftir að tilskilinn gjalddagi er kominn. — En hæstv. Alþ. samþ. þá skoðun, sem ég hef um þessa vaxtagreiðslu, að bærinn endurgreiddi umframgreidd útsvör með sömu vöxtum og hann krafðist, að greiddir væru í dráttarvexti af því fé, sem menn skulduðu bænum í útsvörum.