23.11.1943
Efri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki tefja þetta mál með mörgum orðum, en ég tek eftir því, að allshn. hefur ekki verið nema að 3/5 á fundi, þegar málið var afgr., og virðist hún hafa flýtt afgreiðslu þess meira en sumra annarra mála, sem nú eru búin að vera þar í 10 vikur, — En ég skal nú ekki fara að deila um það.

Ég lýsti yfir því, að ég mundi bera fram brtt. við þetta frv., ef n. gerði það ekki. Þess vegna vil ég spyrja, hvort hæstv. forseti vilji ekki fresta umr. um málið og kalla allshn. saman til þess að athuga, hvort ekki ætti að breyta frv., og er það þá helzt 2. gr., að í stað l% komi ½% .

Það er ekki sæmandi, ef það er satt, sem hv. 6. þm. Reykv. segir, að fólk streymi í stríðum straumum með gjöld sín til bæjarins, að reikna þeim svo háa vexti, sem af einhverjum ófyrirsjáanlegum ástæðum geta ekki flýtt sér svo með gjöldin, að þeir komi á settum tíma, að þeir greiði 12% í dráttarvexti. Það á að hverfa sá háttur, að hið opinbera níðist á þegnunum.

Ég get tekið sem dæmi eitt fyrirtæki, sem mér er kunnugt um. Það er deilt um útsvarsskyldu þess ár eftir ár, og ár eftir ár er úrskurðað, að útsvarsskylda sé ekki fyrir hendi, en þó lagt á það, svo að tugum þúsunda skiptir. Þá er um annaðhvort að gera að borga féð inn eða eiga á hættu, ef úrskurðurinn fellur gegn fyrirtækinu. að þurfa að greiða 12% dráttarvexti. En ef úrskurðurinn fellur þannig, að útsvarsskylda sé ekki fyrir hendi, fær maður ekki nema helming þeirra vaxta. Ég álít þetta misrétti. Það á að vera gengið þannig frá l., að menn fái endurgreitt það sama og þeir hafa greitt.