25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég á hér brtt. á þskj. 497 um, að í stað „l%“ í 2. gr. frv. komi: ½% — og í stað orðanna „álagt útsvar“ komi: honum ber.

Eins og ég hef tekið fram, sé ég ekki ástæðu til þess að leyfa bæjarsjóði Reykjavíkur að fremja slíkar refsiaðgerðir gagnvart þegnunum að reikna 12% í vexti á ári í dráttarvexti, þó að menn af einhverjum ástæðum vilji ekki eða geti greitt útsvar sitt á réttum tíma eða tilteknum tíma. Og kemur þetta náttúrlega sérstaklega hart niður á þeim, sem kannske eru í málaferlum mánuðum saman út af útsvarskyldu, að þeir verði annaðhvort að greiða 12% af upphæðunum, ef þeir skyldu tapa slíkum málum, eða þá greiða útsvarið og láta þannig stórar fjárhæðir liggja vaxtalausar hjá bænum þar til slíkar deilur eru útkljáðar. Ég vænti þess því, að hv. þdm. sýni þessu máli sanngirni og færi þetta ákvæði úr 1% niður í ½.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem ég hef gert brtt. um viðkomandi 3. gr. frv. og ég gat um, er það að segja, að með samþykkt þess ákvæðis yrði frv. fært í það sama horf að því leyti eins og samþ. var í þessum l. á síðasta þingi. En þetta orðalag: „álagt útsvar“, er til komið af því, að bærinn hefur ekki greitt lögbundna dráttarvexti af þeim útsvarsupphæðum, sem gjaldendur hafa greitt fyrir tiltekinn gjalddaga. En bærinn hefur ekki leyfi til þess eftir núgildandi l. að halda hjá sér þessum upphæðum án þess að greiða vexti af þeim. Það hefur verið skirrzt við að greiða þessa vexti, og nú vill bærinn fá lagaheimild til þess að geta verið frjáls að því að níðast þannig á gjaldþegnunum, að þeir fái ekki greidda vexti af þessum upphæðum. Þetta legg ég til, að verði lagfært í frv., og einnig hitt fært til sanngjarnara horfs viðkomandi dráttarvaxtaupphæðinni, að þeir vextir verði jafnháir, sem bærinn greiðir gjaldendum af umframgreiðslum í útsvörum, og hann tekur af gjaldþegnunum, ef þeir greiða útsvör síðar en á gjalddögum. Þetta er fullkomið réttlætismál, og vænti ég þess því, að hv. d. samþ. þessar brtt.