25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

163. mál, útsvarsinnheimta 1944

Gísli Jónsson:

Okkur greinir náttúrlega töluvert á, mig og hv. 6. þm. Reykv. En ef það er ekki ástæða til að greiða viðkomandi aðilum vexti af því fé, sem þeir hafa ofgreitt í bæjarsjóðinn, þannig að þeir hafa greitt það fyrr en á tilteknum gjalddaga, þá er ekki heldur ástæða til að greiða mönnum vexti af fé því, sem þeir hafa greitt umfram endanlegt útsvar, sem þeir eiga að greiða á árinu. En ef greiða á mönnum vexti af því fé, er ég síðast nefndi, þá er alveg eins réttlætismál að greiða gjaldendum vexti af því fé, sem þeir hafa greitt fyrr en á gjalddögum, en ekki er umfram endanlegt útsvar, vexti fyrir þann tíma, sem féð liggur hjá bæjarsjóði, áður en það er fallið í gjalddaga, enda samþ. Alþ. í fyrra, að það skyldi gert og þeir vextir væru jafnháir dráttarvöxtum. Brtt. mín miðar því aðeins að því að færa frv. til samræmis við það, sem síðasta Alþ. samþ. í þessum efnum. En hv. 6. þm. Reykv. hefur ekki þótt þau ákvæði ganga nógu nærri gjaldendunum, hann vildi ganga meira á rétt þegnanna en þá var gert. Og hann vill ekki, að þegnarnir eigi við sama rétt að búa og bærinn í þessu tilliti. En þetta tel ég rangt hjá hv. þm. — Hitt getur vel verið, að sé rétt hjá honum, að ég hefði heldur átt að bera fram till. til breyt. á l. um dráttarvexti. En ég bar þessa brtt. fram hér, til þess að þessir dráttarvextir væru jafnháir og þeir vextir, sem hv. 6. þm. Reykv. álítur, að bærinn eigi að borga í áminnztum tilfellum. Því að ef þessi brtt. verður felld, þá mun koma fram brtt. við frv. þetta í Nd. um, að bærinn greiði 1% vexti á mánuði af þessum umframgreiddu upphæðum, samkv. því, sem ég hef um rætt. Og vilji hv. 6. þm. Reykv. mæta mér um það, að í staðinn fyrir, að mín brtt. verði samþ. í þessu efni, verði ákveðið, að bærinn greiði 1% á mánuði í vexti af þessum umframgreiðslum, þá verð ég sammála því. Fyrir mér er aðalatriðið, að bærinn og gjaldþegnarnir njóti hér sama réttar.