07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

27. mál, fjárlög 1944

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja nokkrar brtt. við frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir til 3. umr., ýmist einn eða ásamt öðrum hv. þm. Allar eru þær þó varðandi tiltölulega lágar upphæðir og skipta ekki miklu um fjárhagsafkomu ríkisins í heild. Vildi ég nú leyfa mér að gera grein fyrir þessum brtt.

Fyrsta brtt. er um, að varið verði til vegagerðar á Þingvöllum 200 þús. kr. Er þetta brtt. við það, sem sett var inn í 15. gr. fjárl. við 2. umr., þar sem ákveðið var að verja nokkru fé til brúargerðar á Þingvöllum. Og var ætlunin skv. þeirri till., sem þá var samþ. og var borin fram af hv. fjvn., að sú breyt. yrði gerð á vegum á Þingvöllum, að krókurinn við Nikulásargjá og Flosagjá yrði afnuminn og þar gerðar brýr eða brú yfir gjárnar. Það er að vísu öllum ljóst, sem eftir þessum vegi hafa farið, að það er mikil nauðsyn á því, ef vegurinn á að haldast óbreyttur, að gera þarna umbætur, og hefur núverandi lega vegarins orðið til stórfelldra slysa, svo að ég get ekki fallizt á, að svo fremi að ekki verði tekið upp annað vegarstæði, þá sé þessi brúargerð nauðsynleg. En sá galli er á, að ég hygg, að það muni vera mjög erfitt að gera brú þarna á þjóðveginum nema með því að fylla upp eða skemma þessa fornhelgu gjá mjög verulega frá því, sem verið hefur. Frá því að l. um Þingvallafriðun voru sett, hefur sú skipan ríkt um varðveizlu þessa staðar, að þar beri að hagga sem minnstu og halda öllu sem mest óbreyttu frá því, sem verið hefur. En með þeirri brtt., sem sameinað Alþ. samþ. hér við 2. umr., þá er beint tilætlunin að breyta verulega og hagga fornum minjum. Þeir gallar eru á afgreiðslu þessari á málinu. En minningar eru tengdar þær við Flosagjá, þegar Brennu-Flosi hljóp þar yfir eftir Njáls-brennu. Og það mundi vera sjónarsviptir og fullkomin helgispjöll, ef ætti að skemma þau fornu ummerki, sem þar eru nú, en óhjákvæmilegt er að gera, ef vegarstæðið á að haldast þar, sem það er. En það verður einnig að gera frekari breyt. á Þingvöllum, ef vegarstæðið á að haldast óbreytt, það verður þá innan skamms og það á allra næstu tímum að gera nýja brú yfir Öxará yfir Drekkingarhyl, sem hlýtur þá að hagga þeim ummerkjum, sem á þessum stað eru. Það má að vísu segja, að við Drekkingarhyl séu ekki bundnar neitt sérlega ljúfar minningar, en þó sýnist rangt að ástæðulausu að breyta þar ummerkjum frá því, sem til forna hafa verið. Miklu væri nær, meðan tími er til, að taka niður þessa gömlu brú yfir Öxará, sem þar hefur verið um nokkra áratugi, og flytja veginn alveg til. Hins vegar hygg ég, að ekki verði um það deilt, að það hafi verið mjög misráðið að leggja veginn nokkurn tíma niður í Almannagjá, en að það hefði farið miklu betur á því, að Almannagjá hefði notið fullkominnar friðhelgi fyrir vegarlagningu og að hún væri látin haldast sem mest óbreytt frá því, sem áður var. Það má telja það nokkuð ljóst, — þó að fræðimenn greini að vísu nokkuð á um það, sem furðulegt má teljast, — það má telja nokkuð ljóst fyrir mönnum, sem um það hugsa með heilbrigðri skynsemi, að til forna hafi allur almenningur dvalið í Almannagjá á meðan á þingstörfum stóð, og að þar hafi verið aðalsamkomustaðurinn. Þar hafa menn setið, meðan lög voru lesin upp, og þar hafa menn gert sínar ályktanir, þegar til Alþ. var leitað. Og það er óviðurkvæmilegt, að sá staður skuli nú vera meðhöndlaður á þann veg, að hann skuli að óþörfu vera gerður að alfaraleið. Og þetta er ekki aðeins óviðurkvæmilegt, heldur er það, að því er telja má, hættulegt varðandi það, að staðurinn haldi sínu forna yfirbragði. Kunnugir menn fullyrða einnig, sem hafa veitt því athygli, menn, sem fylgzt hafa þarna með um langa hríð, að það muni vera hætta á því, að hraunveggurinn í Almannagjá haggist og e. t. v. hrynji að verulegu leyti, yfirleitt eða einstakir hlutar úr honum, vegna hinnar miklu umferðar, sem um gjána er. Hættan á þessu verður auðvitað þeim mun meiri sem farartækin verða stærri og umferðin tíðari. Og það er að vissu leyti mjög skiljanlegt, að hamraveggurinn þoli ekki þann eilífa hristing og átök, sem verða af þeirri gífurlegu umferð, sem þarna er orðin með þungum ökutækjum. Af þessu er líklegt, að fyrr en varir geti stafað stórslys af umferð þarna, þannig að hraunveggurinn að einhverju leyti eða björg úr honum hrynji niður á bíla, sem þarna eru á ferð, þannig að af því gæti orðið mannsbani, eins eða fleiri, — auk þess sem með því móti yrðu enn gerð spjöll á þessum sögustað, spjöll, sem ber að forðast. Við þetta bætist svo, að vegarstæðið í Almannagjá er ákaflega óhentugt fyrir umferðina, því að jafnvel þó að gerð væri ný brú yfir Drekkingarhyl og tekinn af krókurinn fyrir gjárnar, Nikulásargjá og Flosagjá, þá er engu að síður snjóasamt í gjánni, þannig að jafnvel þó að ökuleið sé fær Þingvallaleiðina yfirleitt að öðru leyti, þá getur hún stöðvazt vegna snjóskafla í Almannagjá, eins og skiljanlegt er. Þetta vegarstæði er því bein torfæra í vetrarferðum. — Allar þær ástæður, sem ég nú hef fært fram, gera það í raun og veru að knýjandi nauðsyn, að vegurinn sé færður úr Almannagjá og á nýjar slóðir. Og ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að sú n., sem kosin hefur verið af Alþ., Þingvallanefnd, skuli ekki hafa haft forgöngu í því að fá þetta lagað. Mér hefur að vísu verið sagt, að einstakir nefndarmenn hafi haft hug á því, en orðið þar í minni hluta, vegna þess að þeim hafi verið talin trú um, að kostnaður mundi verða svo mikill við leiðréttingu á þessu, að það væri óverjandi. En ég tel yfirleitt ekki óverjandi, að nokkrum hundruðum þús. kr. verði varið til þess að halda Þingvöllum sem mest óbreyttum til þess að geyma þennan stað fyrir okkar eftirkomendur. Mörgu fé hefur verið miður vel varið heldur en þó að vegurinn væri færður, til þess að þessi staður geymdist betur. Og þegar mönnum er ljóst, hverja þýðingu þessi staður hefur fyrir sögulega vitund þjóðarinnar, þ. e. Þingvellir í heild, — þó að það sé nauðsynlegt, ef vegurinn er óbreyttur eins og nú, — þá tel ég ósvinnu, að það skuli standa til að gera stórfelld spjöll þar á staðnum, sem gerð verða, ef vegurinn verður látinn haldast óbreyttur. Ég tel því, fyrir allra hluta sakir, nauðsyn á að færa veginn til og láta hann koma niður á Vellina á öðrum stað en verið hefur nú um nokkra áratugi. Og sýnist þá eðlilegast og að það mundi verða með skaplegustum hætti, að vegurinn yrði látinn koma niður að vatninu einhvers staðar nærri eða fyrir norðan Kárastaði, og síðan yrði hann látinn liggja norður á móts við Valhöll og farið svo yfir Öxarárbrúna á milli Valhallar og Þingvallabæjarins gamla eða kirkjustaðarins. Það má vel vera, að þetta mundi kosta nokkurt fé. Og þó að ég leggi hér til, að 200 þús. kr. verði varið í þessu skyni, þá vil ég alls ekki fullyrða, að þessi upphæð nægi í þessu skyni, en það bæri þá að skoða þetta sem fyrstu greiðslu, þannig að haldið væri áfram, þangað til þessu yrði komið í sæmilegt lag. Segja má að vísu, — og um það skal ég ekki fullyrða, hvort sumarbústaðir þeir, sem reistir hafa verið norður með vatninu eða suður frá Valhöll við norðurenda vatnsins, kynnu að einhverju leyti að torvelda þetta. Það má náttúrlega deila um það, hvort hyggilegt hafi verið og heppilegt að láta lönd út til sumarbústaða fyrir einstaka menn á þessum slóðum. Ég skal ekki deila um það. En ég hygg þó, að það sé þegar búið að leggja veg eða götuslóða fyrir ofan þessa sumarbústaði, þannig að það sé sýnt, að það sé hægt að koma þar vegi fyrir. Og það er einnig ljóst, að það mundi vera þessum bústaðaeigendum til þæginda — án þess að ég vilji leggja neitt sérstaklega upp úr því — frá því, sem verið hefur, ef þeir fá veginn þarna svo að segja í hlaðvarpann hjá sér, þannig, að þeir hefðu ekki undan neinu að kvarta yfir því, þó að þetta verði framkvæmt, sem ég gat um. Mér sýnist því, að öll rök hljóti að hníga að því, að veginn beri að færa og að hann muni að lokum verða færður. Spurningin er aðeins um það, hvort menn vilja gera enn meiri spjöll á þessum sögustað, áður en þessi nauðsynlega breyt. verður gerð, og að enn þá meiri kostnaður verði lagður í þennan stað, áður en hið rétta í þessu nær fram að ganga. Ég vonast því til þess, að hv. þm. fallist á þessa brtt., sem skiptir ekki miklu máli fjárhagslega, en kemur í veg fyrir frekari spjöll á þessum sögustað, greiðir stórum fyrir umferð og gerir vegasambandið austur yfir fjall miklu tryggara en verið hefur fram að þessu. Og er ólíkt skynsamlegra að verja nokkru fé til þess að gera Þingvallaveginn sem allra öruggastan heldur en að verja hundruðum þúsunda kr. eða milljónum, eins og ráðgert sýnist vera, til þess að koma vegi yfir eyðimerkur Reykjaneshrauns, svo kallaða Krýsuvíkurleið, sem kunnugir menn telja, að að engu gagni muni koma hvort eð er.

Þá er brtt., sem ég flyt við brtt. hv. fjvn. varðandi jarðhitarannsóknir. Ég hygg, að hv. fjvn. hafi lagt til, að það skuli verja 50 þús. kr. í beinum fjárlagaútgjöldum til kaupa á jarðborum og til jarðhitarannsókna að öðru leyti. Ég hygg, að þessi upphæð, 50 þús. kr., sé undir öllum kringumstæðum nokkuð lítil, og sérstaklega ef fram ná að ganga þær breyt. á frv. til l. um jarðhita og notkun hans, sem hv. Ed. hefur nú samþ. Ef það frv. nær fram að ganga eins og þessi hv. d. gekk frá því við 2. umr., þá er ljóst, að bæði verður það fé, sem nú er áætlað í fjárl. í þessu skyni, of lítið, og eins, að það er ranglega orðaður liðurinn, vegna þess að samkv. frv., eins og það nú er, á ekki að binda styrkveitingar úr ríkissjóði við það, að jarðborar ríkisins eins séu notaðir, eins og einnig á að vera heimilt að styrkja þær jarðhitarannsóknir, sem þegar hafa átt sér stað. En ég skal nú ekki í þessu sambandi fara að deila um réttmæti þessarar breyt., sem hv. Ed. hefur gert á jarðhitafrv., heldur einungis benda á, að hvor leiðin sem farin verður, sú, sem hv. Nd. samþ. í þessu, eða sú leið, sem hv. Ed. fór, þá nær orðalagið á brtt. minni, sem er nr. XXXIII á þskj. 517, til hvorrar leiðarinnar, sem farin yrði. Og sama er að segja um næstsíðustu brtt. (XLIX), sem er flutt af mér. Og er eðlilegast, að við fjárlagaafgreiðslu verði látið hlíta því, sem þingið að öðru leyti ákveður með þinglegum hætti. Og jafnvel þó að einhverjir kynnu að snúast á móti þessum sanngjörnu breyt. hv. Ed. á jarðhitafrv., þá hafa þeir engu sleppt, þó að þeir samþ. brtt., sem ég hef um þetta borið fram við fjárlagafrv. — Það skaut nú einn hv. þm. því að mér, að búið væri að samþ. þetta frv., — það hefur farið fram hjá mér. En þar sem það er búið, er þeim mun meiri ástæða til að samþ. þetta, sem ég hér ber fram, og gerir það í raun og veru alveg nauðsynlegt að gera þær breyt., sem ég hér legg til. En hér í minni till. er þessi fjárhæð nokkuð hækkuð, eða upp í 100 þús. kr. úr 50 þús. kr. sem hv. fjvn. lagði til, þ. e. undir XXXIII. lið, og úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. undir XLIX. lið næstsíðustu brtt. á þskj. 517, og varðar sú brtt. heimildagr., 22. gr. fjárl. Úr því að búið er að samþ. áður greint jarðhitafrv. í hv. Nd., þá er enn nauðsynlegra að samþ. báðar þessar brtt. við fjárlagafrv.

Þá hef ég leyft mér að bera fram við 17. gr. 8. nýjan lið til barnavinafélagsins Sumargjafar, kr. 70000, ásamt þeim hv. 5. þm. Reykv. (BrB) og 3. landsk. (HG). Ég sé nú, að nokkrir þm. úr hv. Nd. hafa flutt till., sem er eins að efni til um 70000 kr. til barnavinafélagsins Sumargjafar, þar sem þetta er bundið því skilyrði, að Reykjavíkurbær leggi fram a. m. k. tvöfalda þessa upphæð. Ég býst við því, að ef við hefðum vitað hvorir af öðrum, hefðum við reynt að sameina okkur. Ég geri ráð fyrir, að þótt það væri gert að skilyrði, að Reykjavíkurbær greiði tvöfalda þessa upphæð, mundi það ekki verða til trafala, og þó að þetta skilyrði sé ástæðulaust í rauninni, mun ég ekki láta mig neinu skipta, hvor till. verður samþ. Hitt er öllum ljóst, að mikil nauðsyn er á því og rétt, að hin vinsæla starfsemi Sumargjafar sé styrkt af ríkisfé. Það er ákaflega mikil starfsemi, sem þetta félag hefur haldið uppi, ýmist með gjafafé héðan úr Reykjavík, styrk úr bæjarsjóði Reykjavíkur eða styrk frá aðstandendum þeirra barna, sem þar njóta góðrar aðbúðar.

Þar sem kunnugt er og vitað, að það er ómetanlegt starf, sem þetta félag hefur unnið, og að mikil þörf er á þeirri rýmkun starfseminnar, sem á þessu ári hefur sérstaklega staðið í sambandi við það, að Reykjavíkurbær keypti tvær allstórar húseignir á horninu á Eiríksgötu og Hringbraut fyrir 400 þús. kr. nú í sumar og hefur eftirlátið félaginu þessar húseignir leigulaust fyrir starfsemi sína og það er ljóst, að eftir því, sem erfiðara verður um fyrir húsmæður hér í bænum að fá stúlkur á heimili sín, eftir því sem húsakynnin eru smærri hjá mörgum og eftir því sem húsmæður vinna meira úti og halda áfram að stunda einhver störf, eftir að þær ganga í hjónaband, verður meiri þörf fyrir dagheimili og vöggustofur fyrir börnin, eða hvað það nú heitir, sem haldið er uppi af félaginu, auk þess sem það hefur fullkomið dvalarheimili fyrir nokkur börn. Enda þótt bæjarsjóður hafi styrkt félagið með einhvers staðar kringum 135 þús. kr. beinum fjárframlögum á þessu ári, auk þess, sem félagið hefur fengið þessa stóru húseign til afnota auk annarra fríðinda, er nú svo komið, að félagið er í bili í fjárþroti og verður fyrirsjáanlega í fjárþroti á næsta ári nema það fái sem svarar a. m. k. 70 þús. kr. styrk frá ríkissjóði og virðist að öllu athuguðu ákaflega sanngjarnt, að ríkið styrki þessa starfsemi, og þegar það er aðgætt, hversu lítill hluti ríkisútgjaldanna kemur Reykjavík til góða, þótt vitað sé, að miklu meira af ríkistekjunum er aflað hér en annars staðar á landinu, sýnist sanngjarnt að efla slíka starfsemi hér, sem nauðsynin hefur skapað vegna þess fjölmennis og þéttbýlis, sem hér er, og vænti ég þá, að menn geti, þó að þeir telji sig ekki sérstaklega tengda hagsmunum Reykjavíkur, greitt þessari litlu till. atkv. Einnig gleður það mig að sjá, að á þessari till. eru tveir þm. utan af landi, sem ekki ber að skoða sem sérstaka Reykjavíkurfulltrúa, sem sýnir, að utanbæjarmennirnir hafa á þessu fullan skilning, og vænti ég því, að aðrir þm, utan af landi taki ekki síður undir þessa till.

Ég hef leyft mér að bera fram tvær ofurlitlar brtt. ásamt öðrum þm., en þar sem ég er aðeins meðflm. þeirra, geri ég ráð fyrir, að þeir mæli fyrir þeim.