18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

101. mál, lendingarbætur í Grindavík

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Með þessu frv. er farið fram á aðstoð ríkisins til þess að gera lendingarbætur í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík í Gullbringusýslu. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að Grindavík hefur um langan aldur verið útgerðarstaður og að hafnleysi hefur þar háð mjög allri útgerð. Þegar útgerð hér á landi hefur breytzt og færzt í fullkomnara horf annars staðar á landinu, þá hefur hafnleysið orðið æ bagalegra fyrir íbúana í Grindavík. Þótt undarlegt megi telja, kom hafnleysið kannske minnst að baga, þegar útræðið var einungis stundað á árabátum, en það var vegna þess, að þeir bátar voru þá jafnan dregnir á land að afloknum róðri. En þegar útgerðin breyttist, komu fyrst trillubátar og svo stærri vélbátar, og hafa Grindvíkingar í æ ríkari mæli fundið til þess, hversu hafnleysið þar bagaði þeim og hversu þeir hlutu óhjákvæmilega að dragast aftur úr öðrum landsmönnum um útgerð, ef ekki yrði eitthvað aðhafzt til. úrbóta í þessu efni. Það mun svo hafa verið árið 1939, að hafizt var handa um að grafa í sundur malarrif, sem skildi lón nokkurt frá. sjónum. Þetta var gert fyrir forgöngu og eftir tillögu vitamálastjóra og þá væntanlega hinar síðari aðgerðir í þessu máli. Þessar framkvæmdir leiddu í ljós, að ekki væru neinir sérstakir leyndir örðugleikar á áframhaldandi framkvæmdum verksins, þannig að t. d. virðist nú mega byggja á, að ekki valdi botninn þarna neinum erfiðleikum á því að gera þarna lendingarbætur né heldur séu neinir óvæntir erfiðleikar sem þarna koma til greina, sem komið geti í veg fyrir, að gert verði það, sem þarf, til þess að koma upp sæmilegum lendingarbótum fyrir Grindavík, sem mundi liggja fyrst og fremst í því að dýpka og breikka þá rás, sem er milli hóps og sjávar og gerð var 1939.

Það, sem ætlazt er til að eftir þessu frv. verði framkvæmt, er í fyrsta lagi það að breikka þessa rás, sem gerð var 1939, í öðru lagi að dýpka hana og svo í þriðja lagi að dýpka sjálft stöðuvatnið, sem er innan við malarrifið og er, ef ég man rétt, nokkur þús. fermetrar. Og ég ætlast til, að gerð verði nokkuð myndarleg bátabryggja inní í hópinu og gert við núverandi bátabryggju einnig. Og loks er svo ætlazt til, að sett verði upp sjómerki til þess að greiða fyrir siglingum inn um þessa væntanlegu rás.

Að öðru leyti eru prentuð með frv. tvö fylgiskjöl, annað frá kunnugum mönnum þarna á staðnum, sem lýsa staðnum eins og hann er, en hitt er kostnaðaráætlun frá vitamálastjóra, og þar er svo greinilega skýrt frá fjárhagshlið þessa máls, að ég tel óþarfa málalengingar, að ég á þessu stigi málsins fari frekar út í að ræða þá hlið þess.

Vænti ég svo, að hv. þd. vilji taka vel á málinu, og vil mælast til þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.