07.12.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

27. mál, fjárlög 1944

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Áður en ég sný að brtt. mínum á þskj. 517, vil ég að gefnu tilefni ræða nokkuð um þau mál, sem hv. frsm. (SkG) og einnig hv. þm. Ísaf. (FJ) ræddu um. Hv. frsm. beindi skeytum sínum að þeim meiri hl. Ed., sem orðið hefði til að fella verðlækkunarskattinn, án þess að koma um leið með neinar sérstakar till. um tekjuöflun vegna dýrtíðarmálanna. Af því að ég var einn í þessum meiri hl., var jafnan móti þessum l. og talaði móti þeim, vildi ég svara hv. frsm.

Það er öllum ljóst, að á fjárl. þurfa að nást miklu meiri tekjur en eru nú. Mér telst svo til, að þurfa muni upp undir 36 millj. kr. tekjuviðbót til að vega móti því, sem gert er ráð fyrir af nýjum útgjöldum, bæði samkv. brtt. við fjárl. og samkv. þáltill. og frv., sem búið er eða búizt við að samþ. á þessu þingi eða ekki verður undan komizt af öðrum ástæðum. Samkv. brtt. fjvn. á þskj. 474, sem ætla má, að verði samþ., hækka fjárl. um tæpar 3 millj. kr., án þess að ég reikni þar með 11. lið í brtt. 53 á því þskj., um kostnað af að reisa íbúðarhús handa rektor menntaskólans, né 13. lið sömu brtt., um bygging á Kleppi, og ekki er reiknað með verðlagsuppbótum á 18. gr., þar sem að vísu er um smáupphæðir að ræða. Þá mun verða að ætla allt að 5 millj. kr. til alþjóðasamhjálpar. Til hafnarbótasjóðs þarf að leggja 2300 þús. kr. samkv. nýlega samþ. lögum. Að vísu hefur nokkur hluti fjvn. talið, að ekki þyrfti að leggja fram nema 300 þús., en a. m. k. flm. frv. töldu, að leggja yrði fram allt þetta fé, eða 2 millj. samkv. frv., af tekjum ársins 1944. Þá eru útgjöld ráðgerð til dýrtíðarráðstafana, sem næst 19 millj. kr. Loks má ekki gleyma þeim útgjöldum, sem olíufrv. fylgja, ef það verður samþ. á Alþingi. Nú upplýsir atvmrh., að styrkur til þess að byggja olíugeyma í verstöðvum muni ekki þurfa að verða meiri en 1 millj. kr. En ég hef sýnt og sett fram rök fyrir því, að ekki veiti af að tífalda þá upphæð. Þá hafa einstakir þm. borið fram allmiklar brtt., sem ég vil engu spá um. Ég vonast til, að eitthvað af brtt. mínum nái fram að ganga, og hins sama óska aðrir þm. um sínar till. Móti öllu þessu koma einar 8 millj. aukinna tekna af tóbaki og áfengi. Þess vegna þarf ekki einungis að afla tekna til dýrtíðarráðstafana, eins og hv. frsm. virðist halda, heldur tekna til að standast útgjöldin yfirleitt. Það mál verður að leysa allt í einu lagi. — Þegar verðhækkunarskatturinn var samþ., lágu þar að baki loforð um, að hann skyldi ekki standa nema þetta eina ár. Nauðsyn þótti að fá fjárfúlgu handa þáverandi og núv. ríkisstjórn til að mæta aðkallandi þörfum í dýrtíðarmálum, þar til búið væri að koma sér á ákveðinn grundvöll, hvernig þeim málum skyldi skipað. Við, sem vorum á móti skattinum, viljum að sjálfsögðu viðurkenna, að Alþ. eigi að standa við þær uppbótargreiðslur, sem það hefur samþ., en það má ekki heldur svíkja loforð, sem öðrum þegnum þjóðfélagsins hafa verið gefin. Framsfl. virðist ekki vilja meta þau neins, en heimtar þó fulla uppfyllingu loforða um uppbótargreiðslur, þó að þær hafi ekki verið samþ. nema með samkomulagi, eða ekki jafnótvírætt og verðlækkunarskatturinn á síðasta ári.

Það er ein enn dýpri ástæða fyrir því, að Sjálfstfl. vildi ekki samþ. þennan skatt. Það lá sem sé ekkert fyrir um, að sjálf ríkisstjórnin kærði sig um skattinn. Fjmrh. lét ekki í ljós vilja sinn um, að þessi l. væru samþ., og það hefur heyrzt frá ríkisstj., að hún hefði fulla heimild til að nota það fé, sem þarf til dýrtíðarl. Nú er það vitanlegt, að ríkisstj. kom inn í Alþ. til að ráða fram úr þessum málum, og hún fékk samþ. dýrtíðarl. á síðasta þ., að vísu ekki eins og hún hafði borið þau fram, en hún gerði sér þau þó að góðu. Ég lít svo á, að þau l. hafi reyrt dýrtíðarmálin í harðari hnút en þjóðinni er hollt, og það er þá verkefni ríkisstj. að leggja a. m. k. fyrir Alþ. ákveðin drög um, hvernig sá hnútur skuli leystur, og skýra það fyrir Alþ., hvernig eigi að verja fénu. Ekkert af þessu lá fyrir, þegar atkvgr, fór fram í Ed. um verðlækkunarskattinn, og ég benti á, hvort ekki væri rétt að fresta umr., þar til frekari upplýsingar fengjust, en hæstv. fjmrh. virtist ekki hafa áhuga fyrir því.

Ég vil að síðustu benda hv. þm. V.-Húnv. á, að sú samvinna, sem er í skattamálum á milli Framsfl. og annarra vinstri flokka, getur vitanlega ekki leitt til samkomulags eða lausnar. Það er borið fram frv. í Ed. um eignaraukaskatt, sem ætti að heita frv. um eignarán. En það mun koma í ljós, hvort hugur fylgir máli hjá Framsfl. að vilja lækka dýrtíðina. Það er vitanlegt, að Sjálfstfl. getur ekki tekið mikinn þátt í öflun tekna til að greiða niður dýrtíðina, á meðan Framsfl. notar öll tækifæri til arðráns, eftir að fengið er nóg fé til dýrtíðarráðstafana. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram, út af ummælum hv. þm. V.-Húnv. um okkur, sem áttum þátt í að drepa frv. um verðlækkunarskattinn, en það mundi ekki standa á þeim sömu mönnum að koma með skynsamlegar till. í málum, sem snerta þeirra eigin pyngju ekki síður en annarra, ef þeir væru vissir um, að ekki væri níðst á þeim á eftir.

Í sambandi við þetta leyfi ég mér að benda á, að hv. þm. Ísaf. flutti hjartnæmt erindi um að veita 9 millj. kr. til útvegsins og þótti það ekki nóg, að fjvn. vildi taka 5 millj. úr framkvæmdasjóði ríkisins, en hann gleymir því, að hv. 3. landsk. þm. berst með hnúum og hnefum fyrir því að taka 3½ millj. beint frá útveginum, þar af 2,7 millj. frá 2 útgerðarfél. sem arðrán til eyðslufjár. Hvernig standast þessar till. á? Enginn ábyrgur stjórnmálamaður getur ætlazt til, að hann sé tekinn alvarlega, þegar framkoman er svona.

Hv. þm. Ísaf. minntist líka með andúð á þær uppbætur, sem ættu að fara til bænda, og taldi þær óhamingju í afkomu þjóðarinnar, en hann kom um leið fram með hugmynd um uppbót til launamanna með því að verðjafna á milli skipa, sem smíðuð eru í útlöndum, og skipa, sem eru smíðuð hér. Þetta er ný hugmynd um verðbætur í iðnaðinum, sem ekki er hægt að framkvæma hér, af því að búið er að sprengja svo upp kröfur iðnaðarmanna. Þeir, sem eru á þessari línu, ættu að hafa hægt um sig í milligjafapólitíkinni, því að dýrtíðin verður ekki löguð með því að taka allt af einni stétt. Það þarf miklu meiri samvinnu en svo, að allir flokkar og allar stéttir þurfa að slaka til.

Ég benti á það á Alþ. 1942, þegar rætt var um að afnema gerðardómsl., sem af hv. þm. Ísaf. vöru kölluð þrælalög, að breyt. á þeim eða afnám þeirra mundi hafa í för með mjög miklar breyt. á skattal. þjóðarinnar, því að með þeim l. var stríðsgróðanum dreift á meðal þjóðarinnar með hærri launum. Ríkissjóður tapaði þá tekjum af tekjuskatti og hækkaðri dýrtíð í landinu, en þetta hlaut að koma fram — í breyt. á skattal. Reynslan hefur líka sýnt þetta. Nú hafa bílstjórar upp í 90 þús., sem áður höfðu 5 og 6 þús., en sjómenn 60 þús. Þetta hlaut að raska hlutföllum í öllu atvinnulífi og framkalla nýja skattastefnu. Ég sé ekki eftir stríðsgróðanum til þegna ríkisins, en þeir verða þá líka að taka þátt í að bera byrðar ríkisins.

Ég mun þá snúa mér að síðustu brtt. Ég hef sett hér merki við 7. lið á þskj. 474 og vil beina þeirri fyrirspurn til fjvn., hvort ekki muni tími til að fá betra yfirlit yfir það verk, sem búið er að veita fé til á undanförnum mörgum þ., brimbrjótinn í Bolungavík. Það hefur verið ausið í hann fé, sem vafasamt er, hvort rétt er að halda áfram með án frekari rannsóknar. Það ætti að taka málið upp frá byrjun og gera kröfu til viðkomandi manna um að fá samþ. hafnarl. fyrir staðinn.

Í 9. lið við 14. gr. er hækkun um 10 þús. kr. til endurbóta á gömlum íbúðarhúsum á prestssetrum. Ég bar fram till. við 2. umr. um 10 þús. kr. sérstaklega til Brjánslækjar. Ég veit ekki, hvort hækkunin er sett inn þess vegna, en í trausti þess, að hún sé ætluð til Brjánslækjar, tek ég mína till. til baka.

Í sambandi við 53. lið vil ég benda á, eins og hv. 2. þm. S.-M., að það mun þurfa að gera meira í því máli en talað er um í þessum lið. Það verður ekki bætt úr læknisleysinu á nokkurn hátt nema taka upp þá stefnu, að ríkið kosti að fullu læknisbústaði í afskekktustu héruðum. Það var ekki alveg rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að það þurfi að bæta læknum upp launin, af því að héruðin séu svo fámenn. Landlæknir hefur sagt mér, að mestu erfiðleikarnir stafi af því, að þetta sé ekki læknisstöður, heldur varðstöður. Ungum mönnum hrýs hugur við að forpokast. Þess vegna er óhjákvæmilegt, að héruðin eigi þarna snotra læknisbústaði, byggða af ríkinu, þar sem séu húsgögn, lyfjabúð og verkfæri, og menn geti verið þar stuttan tíma, meðan þeir bíða eftir embætti eða því um líkt.

Á þskj. 517, III er till., sem borin var fram við 2. umr. Hv. frsm. sagði við mig áðan, að hann skildi ekki, af hverju ég hefði ekki viljað draga til baka till. á þessu þskj. Form. fjvn. hefur einnig minnzt á þetta. Ég dró till. til baka til 3. umr., en fjvn. hefur ekki að neinu leyti rætt málið við mig á milli umræðna, svo að ég sé ekki ástæðu til að draga till. mínar til baka nú. Það er réttlætiskrafa, að nú, þegar það er hægt, sé hlúð meira að þeim héruðum, sem alltaf undanfarið hafa verið afskipt, eins og er um Barðastrandarsýslu, enda kemur nú miklu meira frá henni en áður í tekju- og eignarskatti og útflutningsverðmætum. Hún á þá líka að fá meira en meðalframlag.

Símalínan frá Bíldudal að Dufansdal er tekin í símal. 1935, og ég held jafnvel, að hún sé eina símalínan, sem sett var inn 1935, en ekki er farið að starfrækja enn. Síðan 1935 er búið að veita fé til og byggja símalínur á öðrum stöðum. Barðastrandarsýsla er ein sú sýsla, sem verður langverst úti hvað snertir síma. Þess vegna varð ég undrandi á því, að fjvn. skyldi ekki vilja taka þetta inn í sínar till.

Þá ber ég fram VIII. till. á sama þskj. um hækkun á vegafé, í fyrsta lagi, að í stað 15 þús. kr. til Reykhólavegar komi 30 þús. kr. Ég vænti, að n. taki það til athugunar fyrir atkvgr., að nú þegar er hafinn undirbúningur að því að gera Reykhóla að tilraunastöð, en það er ekki einu sinni hægt að koma þangað nauðsynlegum vélum eða efni vegna vegleysu. Það eru ekki gerðar kröfur um upphleyptan veg, heldur bara ruðningsveg, og er óhjákvæmilegt, að 30 þús. kr. verði lagðar í veginn á næsta ári, til þess að hægt verði að komast í samband við Reykhóla til að undirbúa starfrækslu tilraunastöðvarinnar.

Um Gufudalsveginn er öðru máli að gegna. Þar er um að ræða áframhald af því að reyna að koma þeirri sveit í samband við umheiminn, en hún ásamt Múlahreppi er alveg innilokuð.

Ég er viss um, að ef einhver slíkur hv. þm. hefði farið fram á það, þá hefði fjvn. strax gengið inn á það, svo að ég tali ekki um, ef það hefði átt að vera í Borgarfirði eða Árneseða Rangárvallasýslu. Ég er þeirrar skoðunar, að eins og framsóknarmenn áttu ekki að hafa tvöfaldan kosningarrétt á við aðra, þá eigi þeir ekki heldur að hafa fjór- til tífaldan rétt til vegagerðar á við aðra landsmenn, en það hefur verið mjög erfitt að fá fjvn. til þess að skilja þessa þó mjög svo auðskildu skoðun.

Um 3. till., sem ég ber fram, um að hækka framlag til Barðastrandarvegar úr 80 þús. kr. upp í 150 þús. kr., þá er það að segja, að þetta er vegur til þess að tengja Patreksfjörð við aðalframleiðslusvæði Vestfjarða, Barðaströndina, og hann á að vera aðalvegur fyrir alla hreppa í vesturhluta sýslunnar. Ef hv. fjvn. hefði kynnt sér þetta mál, þá hefði hún ekki skorið svo niður framlagið til þessa vegar. Till. mín um framlag til þessa vegar er í samræmi við þá till., sem send var frá íbúum þessara sveita til fjmrn. í sumar sem lágmarkskrafa um framlag til þessa vegar. Á meðan ríkið hefur ástæður til þess að veita 250 þús. kr. til vegagerðar í Krýsuvík, þá get ég ekki séð, að það sé með nokkurri sanngirni hægt að fella þessa till., sem er miklu nauðsynlegri. Þess vegna vil ég mælast til þess, að hv. fjvn. taki þetta upp í till. sínar, og ég vona, að Alþ, veiti till. samþykki sitt.

Þá er fjórða till. mín um það, að framlag til Tálknafjarðarvegar verði hækkað úr 20 þús. kr. upp í 30 þús. kr. Sveinseyri þarf að komast í vegasamband við Patreksfjörð, en það verður ekki gert á næsta sumri nema þetta framlag sé hækka.

Ég hef ekki farið fram á framlag til Bíldudalsvegar, þótt þess væri full þörf, því að ég vildi sýna, að ég léti ekki persónuleg sjónarmið sitja í fyrirrúmi. Sveinseyri þarf að komast í akvegasamband, og ég hef náð samkomulagi við vegamálastjóra og hreppsnefnd Suðureyrarhrepps um það að láta Sveinseyringa ganga fyrir. Hinir vilja leggja það á sig að bíða um stund, til þess að það fé, sem lagt verður fram, geti þó komið einhverjum að gagni.

Þá hef ég lagt til, að veittar verði 10 þús. kr. til endurbóta á Rauðasandsvegi. Þessi vegur er í mjög slæmu ástandi og var illa gerður, m. a. er halli á honum 1:5 í stað 1:10, svo að það er ógerningur að fara um hann með bíl og illtært með hesta, þannig að það er nær ekkert gagn að honum nema hann verði gerður upp. Vegamálastjóri hefur ekki talið sér fært að taka þetta upp sem viðhaldskostnað, en hann viðurkenndi, að vegurinn væri ónothæfur, og hann undraðist, að hann skyldi hafa verið lagður þannig, en hann fann ekkert annað því til afsökunar en það, að vegafé í Barðastrandarsýslu hefði alltaf verið svo lítið, að það hefði aldrei verið hægt að senda þangað mann, sem hefði vit á vegagerð, vegna þess að hann mundi þá hafa étið upp allt vegaféð.

Þá á ég brtt. undir XVI. lið um brúargerðir. Það er framlag til fjögurra brúa, 35 þús. kr. til hverrar. Ég veit, að hv. fjvn. hefur ekki gert till, um þessar brýr vegna þess, að hún hefur ekki sett sig inn í það, hvernig þessu er í raun og veru háttað. En þetta er nú ekki einungis svo, að menn þurfi sjálfir að vaða þessar ár daglega, heldur geta þeir ekki rekið fé sitt til slátrunar nema með því að sundleggja því yfir þessar ár. Ég hefði gaman af að sjá, hvernig Borgfirðingar, Árnesingar og Rangæingar tækju því, ef þeir þyrftu að reka hverja einustu kind á sund, áður en þeir kæmu henni til slátrunar. Ætli það yrðu ekki haldnir nokkrir fundir og gerðar kröfur um endurbætur á því. Hér er ekki um stórkostlega fjárupphæð að ræða, en það er óhjákvæmilegt að sinna þessum málum. Ég vil benda á, að ein þessara brúa er þegar komin í fjárlög, en vegamálastjóri hefur lagt til, að þær yrðu allar smíðaðar í einu, þar sem það mundi spara kostnaðinn við að smíða a. m. k. eina slíka brú.

Þá á ég till. undir 41. lið, við 18. gr., um að frú Sigríði Snæbjörnsson verði greiddar 700 kr. í stað 500 kr. Hún er ekki eingöngu ekkja símstjóra, heldur hefur hún einnig sjálf starfað við símann um 40 ára skeið. Í veikindum manns síns hefur hún sparað ríkissjóði eftirlaunagreiðslur í a. m. k. 15 ár með því að rækja störf manns síns í hans stað, þannig að hann varð ekki að láta af embætti og fara á eftirlaun. Hún hefur því áreiðanlega unnið fyrir þessu fé.

Í sama lið hef ég lagt til, að Sumarliði Guðmundsson póstur fengi 200 kr. hækkun. Hann hefur rækt póstferðir fyrir ríkið yfir erfiðustu fjallvegi af stakri samvizkusemi í fjöldamörg ár og er nú orðinn áttræður. Það er því ekki mikið fé, þótt hækkað verði við hann um 200 kr. þessi ár, sem hann á eftir ólifað.

Að síðustu á ég á sama þskj. eina brtt. við 22. gr., um sölu á síldarverksmiðjunni í Neskaupstað. Mér hefði þótt eðlilegra, að till. hefði verið orðuð á þann hátt, að verksmiðjan skyldi seld, ef viðunandi verð og greiðsluskilmálar fengjust, en að ekki skyldi ákveðið, hver kaupandinn skyldi vera, því að þá er útilokað, að aðrir geti gert hærri boð í verksmiðjuna, ef þau verða ekki tekin til greina, og er þá um leið gefið, að engir möguleikar eru til þess, að verksmiðjan verði boðin upp. Það er að vísu ákveðið í síldarverksmiðjul., að ekki megi selja verksmiðjurnar nema ákveðnum aðilum, en ég skil ekki, að það þurfi að vera þessi sérstaki aðili. Það hljóta að vera til fleiri en sá eini aðili á Austurlandi, sem uppfyllir þessi ákveðnu skilyrði laganna. Ég vil aðeins benda á þetta og spyrja, hvort hún vilji ekki ganga inn á þessa orðabreyt.