24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

157. mál, happdrætti

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 486 ber með sér, þá hefur allshn. orðið sammála um að mæla með samþykkt þessa frv., þó með þeirri breyt., að heimild háskólans verði framlengd lengur en frv. gerir ráð fyrir, en þó nokkru skemur en háskólaráð hefur farið fram á. Tekjurnar af þessu eiga að renna til þess að reisa leikfimihús og náttúrugripasafn á háskólalóðinni og til þess að lagfæra og áæta lóðina. Það er ekki hægt að gera neina áætlun um það, hvað þetta muni kosta, en það er ástæða til þess að ætla, að þessar tekjur geri ekki betur en hrökkva fyrir kostnaðinum við þessar framkvæmdir. Það hefur verið hugsjón margra þm. og annarra, að á háskólalóðinni rísi upp veglegar byggingar, og sú hugsjón mun jafnvel vera eldri en hugmyndin um happdrættið.

Þær breyt., sem n. leggur til, að verði gerðar á frv., eru í fyrsta lagi sú, að í stað þess að vitna til l. frá 1935 um atvinnudeild háskólans, sem eru fallin úr gildi, þá skuli vitnað í l. um rannsóknaráð ríkisins frá 1940, því að við setningu þeirra féllu hin fyrrnefndu úr gildi, en þetta ákvæði, sem þar er vitnað í, er um það, að 20% af happdrættistekjunum skuli renna til atvinnudeildarinnar sem einkaleyfisgjald fyrir happdrættið. — Hina breyt., um tímaákvörðunina, hef ég áður nefnt.

Ég skal svo af gefnu tilefni geta þess, að fjhn. telur það ekki brjóta í bága við happdrættiseinkaleyfið, þótt ríkið leyfði útgáfu skuldabréfa, sem fylgdi happdrætti með svipuðu fyrirkomulagi og í Svíþjóð. Það er svo ólíkt almennum happdrættisrekstri, að fjhn. taldi það ekki valda árekstri. Hitt læt ég óumtalað frá mínu sjónarmiði, hversu heppilegt ég telji að krydda skuldabréf slíku.