09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

157. mál, happdrætti

Jónas Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. tekur það ráð, sem skynsamlegast var í hans aðstöðu, að koma ekki nærri kjarna málsins sjálfs. En hann er sá, að búið er að byggja það veglega hús yfir háskólann, sem í var ráðizt 1933, en það, sem fyrir liggur, er að byggja yfir stjórnarráð og hæstarétt, yfir þingmenn og yfir menntaskóla, svo að nokkuð sé nefnt. Þær skyldur vill þm. vanrækja, leggja niður myndun framhaldssjóða, sem til þessa eiga að renna, en láta þennan tekjustofn, sem um ræðir, ganga til háskólans um langa framtíð. Inn í þetta hefur hann fléttað sínar skemmtilegu hugmyndir, svo sem þá, að háskólaráð eigi í rauninni einkaleyfi á hugmyndinni um að græða á happdrætti, það hafi verið komið með þetta til Alþingis, eins og fundizt hefði gullnáma uppi í Miðdal, og Alþingi ekki haft önnur ráð en gefa þeim, sem fundu, gullnámuna til ævinlegrar eignar. Hv. 1. þm. Reykv. skipar í sögu máls þessa mjög virðulegan sess, sem ég kem síðar að.

Hv. þm. reynir ekki að bera móti því, að meðan verið er að ræna þessum tekjustofni frá þeim byggingum, sem hann átti nú að fara að standa undir, er stjórnarráðið í mörgum pörtum um allan bæ vegna húsleysis, menntaskólann, sem átti að rúma 100 nemendur, en hefur 300, vantar hús, og ríkið hefur ekki talið sig hafa efni á svo miklu sem að byggja fyrir hann leikfimihús. Enn verður að notast við sama leikfimihúsið, sem lélegt mátti heita, þegar þessi hv. þm. var í skóla, en hefur hnignað, og hefði ríkið ekki lagt fé í það að gera það nú nothæft til bráðabirgða, væri ekki unnt að hafa leikfimi við skólann. En nýtt hús þarf hið allra fyrsta.

Það var mjög farið að tíðkast um 1930, að happdrætti væri rekið til tekjuöflunar fyrir byggingaframkvæmdir eða menningar- og mannúðarmál. Þar má benda á fordæmi Norðmanna, sem höfðu byggingalotterí til fegrunar Oslóborgar. Það var því engin uppgötvun hér. Ég ætla alveg að hlaupa yfir þann þátt í hugsanagangi hv. 1. þm. Reykv., að ég hafi orðið happdrættismáli og húsbyggingarmáli háskólans til tafar. Mér finnst sú hugsun bara skemmtileg hjá honum, að þegar allir aðrir ráðherrar en ég, sem höfðu verið svona lærðir og miklir menn eins og hv. 1. þm. Reykv., voru búnir að sofa á háskólabyggingarmálinu frá því, að hann varð til, 1911, þá kem ég, einn lítill og alveg óskólagenginn maður, og set þetta mál í hreyfingu, skrifa háskólaráði, bið um tillögur og fæ þær og berst 3 ár fyrir því að koma þessu gegnum þingið, — þá sé það ég, sem hafi spillt fyrir æskilegum framgangi málsins. Framsýni háskólakennaranna hafði aldrei náð lengra en til þess, að það þyrfti að byggja yfir háskólann einhvers staðar í miðbænum, þar sem vöxtur hans var bannaður af þrengslum, og síðar mætti bæta við deildum, sem setja yrði niður hér og þar um bæinn. Þessi kotungslega skammsýni var það mesta, sem þeir höfðu andlegan mátt til. Þarna sást hin samansparaða uppgötvunarorka, sem safnazt hafði í heila þeirra, síðan háskólinn komst á fót og ljóst var, að yfir hann þyrfti að byggja af myndarskap. Það er ein glæsilegasta fórnin, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur fært þessu hjartans máli sínu, að hann vann einn dag með haka og skóflu við að grafa grunn á þeim stað, sem hann vildi reisa á háskólabyggingar. Og mér þykir sorglegt, að þetta dagsverk skyldi fara til ónýtis ásamt þúsundum annarra dagsverka, af því að hugmynd kom fram um að ætla háskólanum meira landrými og sló í gegn. (BBen: Hver var það, sem fann þá lóð?) Það var maður, sem vildi heldur láta lóð þar en hjá Eskihlíð. Nú kem ég bráðum að þeirri stóru stund í lífi hv. 1. þm. Reykv., þegar honum hlotnaðist forustuhlutskipti í háskólabyggingarmálinu. Það var búið að hreyfa málinu árið 1930, 1931 og 1932 og gera kröfu til Reykjavíkurbæjar um mikið landrými fyrir háskólann. Búið var að gera ýtarlega rannsókn á fyrirkomulagi slíkra bygginga erlendis og fleira, sem ég fer ekki út í. Þá var það, að þessi dásamlega hugmynd kemur, að hægt sé að græða á lotteríi. Rektor háskólans lýsir yfir því á samkomu á Hótel Borg, sem haldin var, meðan háskólinn var í smíðum, að tiltekinn utanþingsmaður, sem ekki var heldur háskólakennari, hafi komið til sín og þrýst hugmyndinni upp á sig. Það er full viðurkenning þess, að hugmyndin var engin eign háskólakennaranna, ekkert Miðdalsgull, sem þeir hafi fundið og eigi að hafa einkarétt á. Fyrst hv. 1. þm. Reykv. var að óþörfu að draga mína historísku verðleika í málinu inn í umr., án nokkurs tilefnis af minni hálfu, verð ég að minna á það, að eftir að búið var að plægja akur þingsins, var næst að sigrast á tregðunni innan háskólans. Það var kennsla, sem gekk erfiðlega. Fyrst tókst, sem sagt, að snúa rektornum. En eftir að frv. um lotteríið var komið fram á Alþ., mætti ég þessum hv. þm. og vini mínum á tröppum þinghússins, mesta guðfræðingi háskólans nú að mínum dómi. „Nú verðum við að standa okkur og koma happdrættinu í gegn,“ segi ég, en hann var þá mjög vantrúaður á málið, vantrúaðri en nokkur Tómas á, að þetta komi háskólanum að notum. Það var nú þá. Þingið réð alveg yfir þessum tekjustofni þá sem nú eins og hverjum tekjustofni öðrum.

Það, sem fyrir liggur nú, er ekki annað en það, að háskólinn er búinn að fá það, sem ætlazt var til; að hann fengi með l. frá 1933, en önnur hlutverk happdrættisins krefjast úrlausnar. Á því byggist hin rökstudda dagskrá mín.

Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að ekki væri viðeigandi að minnast á neitt nema greinarnar í þessu frv. En þar sem hér er verið að taka peninga af öllum opinberum byggingum, sem nú þarf að fara að reisa, getur hann ekki orðið hissa, þótt á þessa óþægilegu staðreynd sé bent. Það var næsta skemmtileg fjarstæða hjá honum, að það létti undir með ríkissjóði að byggja, ef þetta frv. yrði samþ. og hann sviptur þessum tekjustofni.

Ég hef nú sýnt fram á, að háskólaráð getur ekkert einkaleyfi átt á því að reka lotterí. Það er óhætt að taka allan hátíðleik af þessari tilraun til að svipta brýnustu byggingar ríkisins möguleikum til að rísa, meðan háskólinn hefur, sumpart fyrir eigin aðgerðir, aflað sér nokkuð mikils fjár, sem nota mætti til lagfæringar kringum hann. Á ég þar ekki aðeins við gróða af rekstri Tjarnarbíós, sem orðið er nú eins konar hneykslunarhella sumum helztu mönnunum, heldur einnig gróða af lóð háskólans við Austurstræti, lóð sem hann kvað nú ætla að selja með nokkurra hundraða þúsunda hagnaði. Ég er hræddur um, að mörgum smáborgurum mundi finnast þeir græða þar vel, svo að nokkuð af því ætti að geta gengið til að slétta eitthvað kringum háskólann. Fróðlegt væri annars að vita, hver gróði háskólans er af rekstri Tjarnarbíós og hvað hann hefur hugsað sér að græða mikið á lóðinni, sem hann tók á sínum tíma frá Búnaðarbankanum, — 2 eða 3 hundruð þúsund? Eru þetta ekki peningar, sem reikna mætti með til gagns fyrir háskólann, svo að stjórnarráðshúsið eða þingmannabústaðurinn geti farið að fá eitthvað af því, sem þeim ber?