09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

157. mál, happdrætti

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda hv. 6. þm. Reykv. á það, að það er ekkert sérstaklega merkilegt, þótt bærinn leyfði háskólanum að reka kvikmyndahús, þar sem bærinn einn hefur rétt til þess að veita slík leyfi. Það út af fyrir sig er því engin ástæða til þess, að ríkið þurfi einnig að veita háskólanum sérstakar tekjulindir, enda þótt borgarstjórinn segði, að bærinn hefði ætlað að knýja háskólann til þess að reka. vísindastarfsemi fyrir þetta fé. Það er eins og menn færu að deila um, hvort draga ætti hring á vinstri eða hægri höndina, hvort ríkið veitir fé til byggingar háskólans eða vísindastarfsemi við hann, því að ríkið á háskólann og verður að standa straum af rekstri hans. Annars var það eins og fyrir hvert annað slys, að réttindi bæjarins til þess að veita þetta leyfi voru ekki tekin af honum í Nd. nú á dögunum. Hv. þm. ættu að geta fallizt á, að það sé óþarfi að veita þetta fé, eftir að búið er að byggja það, sem átti að byggja, og það er fullkominn misskilningur, að happdrættið yrði nokkuð óvinsælla í höndum ríkisins en háskólans.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið háskólaráð, sem beitti sér fyrir byggingu stúdentagarðsins, en það var Lúðvík Guðmundsson skólastjóri, sem beitti sér fyrir byggingu gamla Garðs, en hinn kom aðeins af því, að sá fyrri var hernuminn. (MJ: Ekki sjálfur) . Nei, að vísu ekki, en ég þekki t. d. fjölskyldu, sem gaf herbergi í Garðinn, og hún gerði það fyrir málefnið, en ekki fyrir hv. form. guðfræðideildarinnar, sem ég ber þó mikla virðingu fyrir.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um sannsögli fyrrv. rektors, þá vil ég segja það, að ég held, að hún sé eins og gerist og gengur, en það er misskilningur að halda, að ég leggi nokkuð sérstaklega mikið upp úr henni, ég hef ekki lagt meira upp úr henni en Snorri Sturluson lagði upp úr sannsögli manna almennt.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta, en vil leyfa mér að bera hér fram dagskrártill. í þessu máli, og vil ég nú lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem háskólabyggingunni er nú lokið, en mikil þörf að nota gróðann af ríkishappdrætti til þess að koma upp nauðsynlegum byggingum handa stjórnarráðinu, Alþingi, hæstarétti og menntaskólanum, samkvæmt 1. nr. 44 árið 1933, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.