09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

157. mál, happdrætti

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, þá hef ég ekki tekið þátt í afgreiðslu þessa máls, heldur hef ég óbundnar hendur hjá n.

Ég verð að segja það, að mér finnst það óþarfa bráðlæti af stjórn háskólans að fara nú af stað með þetta mál, þegar enn eru eftir tvö ár af leyfistímanum. Það er vitað, að Alþ. kemur aftur saman nú eftir áramótin, og ætti því að vera nægur tími til stefnu. Mér hefur líka skilizt á hv. frsm., að þetta væri nokkuð af því, að happdrættið væri 10 ára nú á næstunni og þætti þá vel við eigandi að halda afmælið hátíðlegt með því að samþ. þetta frv. Það má vera, að þetta sé sérstaklega heppilegur tími og fyrir þá sök vilji menn hraða málinu svo mjög sem raun ber vitni um, en ég held, að hann sé óheppilegur. Á ég þar sérstaklega við ástandið í háskólanum sjálfum, sem er þannig, að það er ekki líklegt til þess að vekja samúð almennings. Er það annars vegar framkoma stjórnar Tjarnarbíós gagnvart próf. Árna Pálssyni, og hins vegar samkomulagið í guðfræðideildinni, þar sem tveir kennaranna elta hinn þriðja á mjög óviðkunnanlegan hátt. Þetta er því að minni hyggju ekki heppilegur, heldur mjög óheppilegur tími, þegar þess er líka gætt, að enn eru eftir tvö ár af einkaleyfistímanum.

Ég vil taka það fram, að ég vil ekki láta háskólann sem stofnun gjalda á nokkurn hátt þeirra mistaka, sem ég hef hér minnzt á, og mun ég því ekki greiða atkv. með dagskrártill. hv. þm. S.-Þ., þar sem því er slegið föstu, að byggingu háskólans sé lokið. Ég mun því greiða frv. atkv. til 3. umr., hvort sem ég ber þá fram brtt. við það eða ekki.

Ég skal ekki blanda mér inn í þá skemmtilegu deilu, sem hefur farið fram á milli hv. frsm. og hv. þm. S.-Þ. Þeir mega bítast um það sín á milli, hvor sé hollari ríkinu og háskólanum, en ég vil benda hv. frsm. á, að það var alls elski hann, sem fann upp happdrættið eða kom fyrst fram með hugmyndina hér. Ég man ekki betur en það væri Alþfl., sem gerði fyrstur ráð fyrir happdrætti hér í sambandi við kreppufrv. svonefnda, sem hann bar fram 1931. Hitt er rétt hjá honum, að rekstur happdrættisins í höndum háskólans er í mjög sæmilegu lagi. Það er ekkert of sagt. Annað mál er það, hvort aðrar þarfir eru brýnni og meira aðkallandi þær, sem tekjunum á að verja til, ef happdrættið verður tekið frá háskólanum.

Ég tel rétt, ef það, sem eftir er að gera við háskólann, verður ekki gert á þeim tveimur árum, sem eru eftir af leyfistímanum, að framlengja hann upp í 15 ár.

Ég tók eftir því, að hv. 6. þm. Reykv. orðaði það svo, að atvinnudeildinni hefði verið þröngvað upp á háskólann á sínum tíma. Þetta er ámæli, sem háskólinn á alls ekki skilið, en væri þetta rétt, þá væri mjög mikil ástæða til þess að athuga, hvort ástæða væri til að láta stjórn háskólans ráðstafa öllum tekjunum af happdrættinu, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Sem sagt, ég mun greiða þessu frv. atkv. til 3. umr. til þess að sjá, hverju fram vindur, en vil annars hafa um það óbundnar hendur.