09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

157. mál, happdrætti

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins segja við hv. 3. landsk. út af dagskrá hv. þm. S.-Þ., að hún fer ekki með rétt mál og er að því leyti óaðgengileg. Út af ástæðu þeirri, er hv. þm. tilnefndi í n., þá vil ég segja, að það er nauðsynlegt að segja til þess í tæka tíð, hvort leyfa á framlengingu happdrættisins eða ekki, því að langan og rólegan undirbúning þarf í málinu. Þeim þremur árum, sem eftir eru af sérleyfistímanum, þyrfti háskólinn að verja til þess að ganga frá því, sem eftir er, ef synjað væri um framlengingu.

Við skulum ekki metast um það, hver eigi happdrættishugmyndina. Við Sigurjón Jónsson, þáv. þm. N.-Ísf., fluttum frv. okkar um happdrætti 1925, en það komst ekki í gegn. Þá var Jón heitinn Þorláksson ráðh., og við fengum framkvæmda rannsókn í Danmörku í upplýsingarskyni. Síðan var frv. okkar Sigurjóns tekið upp því nær óbreytt.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. og hv. þm. S.-Þ. sögðu um atvinnudeild háskólans, þá verð ég að segja, að þar fer eitthvað milli mála. Það var hart aðgöngu, þó allt færi fram með kurteisi, er háskólinn ætlaði að fara að byggja og búið var að taka frá fé í því skyni, en varð þá að fresta sjálfri háskólabyggingunni, af því gert var að skilyrði fyrir fjárveitingunni, að atvinnudeildin yrði fyrst byggð. Þetta var óneitanlega nokkuð frekjuleg aðferð. Síðan var þetta 20% gjald látið ganga til þessarar byggingar, og er því senn lokið.

Ég álít ekki rétt af hv. 3. landsk. að draga viðtæk og viðkvæm deilumál inn í þessar umræður, eins og Tjarnarbíó málið frá 1. desember. Það hefur verið flutt till. um það mál hér í þinginu í Nd., og þm. fá þá tækifæri til að ræða það mál. Eins blandar hann máli Sigurðar Einarssonar dósents inn í þetta mál. Ég fyrir mitt leyti tel óviðeigandi að ræða um það mál, meðan það er í rannsókn, og e. t. v. er það ekki heldur til neinna bóta fyrir þennan hv. þm., því að sá maður, er fyrir sökum er hafður, er kominn í þetta embætti fyrir tilstilli þessa hv. þm., sem veitti honum það þvert ofan í niðurstöður samkeppnisprófs og móti áliti prófdómenda. En við skulum ekki ræða þetta að svo stöddu máli. En að blanda þessu inn í framlengingu happdrættissérleyfis fyrir háskólann nær ekki neinni átt. Ég held, að það ætti fremur að losa háskólann við þá menn, sem koma óorði á hann. Háskólinn heldur ekki áliti sínu, ef hann liggur undir þeim orðrómi, að kennarar hans ræki ekki störf sín vel. Við samkennarar Sigurðar Einarssonar erum reiðubúnir til að láta af störfum okkar, ef það sannast, að við höfum borið hann röngum sökum. En meðan rannsókn stendur yfir í málinu, þá er ótímabært að ræða þetta mál og ótilhlýðilegt að blanda því inn í jafnópersónulegt mál og hér er til umræðu.