09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

157. mál, happdrætti

Bjarni Benediktsson:

Ég get sparað mér nokkuð af því, sem ég ætlaði að segja við hv. 3. landsk., þar eð hv. 1. þm. Reykv. sagði margt af því.

Hv. 3. landsk. þarf ekki að láta eins og hann viti ekki, að hann hafði um hönd freklega valdsbeitingu í sambandi við byggingu atvinnudeildar háskólans. Það var óeðlilegt að þvinga þannig upp þessa byggingu, á meðan háskólinn sjálfur var ekki kominn undir þak. Enda var rætt um það hér í þinginu að gera sérstakar ráðstafanir í sambandi við þetta, þar eð þessi bygging fékk bæði ónógan undirbúning og var byggð fyrir tímann. Annað var það og, að stjórn atvinnudeildarinnar var komið fyrir á annan veg en títt er um slíkar stofnanir, þannig að hún var rifin út úr tengslum við háskólann sjálfan af eintómu ofstæki. Mér dettur ekki í hug, að hv. þm. fari að játa þetta, því að hann var sá, er af sér braut. En honum mun ekki líðast að segja ósatt hér um þetta. En þetta eru nú gamlar deilur.

Náttúrlega má finna hneyksli í sögu háskólans, eins og svo víða, og nægir í því sambandi að minna á embættisveitingu Sigurðar Einarssonar, samkeppnispróf í lögfræði, byggingu atvinnudeildarinnar o. s. frv. En að snúast gegn prófessorunum í heild af því hneykslanlegir menn hafa komizt í þau embætti, það nær ekki neinni átt. Það má einnig nefna, að framkoma norrænudeildar háskólans hefur verið hneykslanleg í sjálfstæðismálinu ár eftir ár, og nú hefur meiri hluti hennar látið hafa sig til að undirskrifa yfirlýsingu um undanhald í þessu máli. Það er rétt, að próf. Sigurður Nordal hefur varpað ljóma á háskólann sem vísindamaður. Þó hefur þessi maður nú skrifað undir dólgslegt hótanabréf til Alþ. með brigzlyrðum um ódrengskap o. s. frv. En það væri ekki rétt að láta háskólann í heild sem stofnun gjalda fyrir þetta og þess háttar. Miklu réttara væri að klappa á kollinn á þessum körlum og gera þá góða. Próf. Sigurður Nordal er góður fræðimaður, það er satt. En þessi framkoma hans í sjálfstæðismálinu mun samt verða honum til skammar og leiðinda í framtíðinni.

Að lokum vil ég svo aðeins segja það, að þótt hv. 3. landsk. hafi oft verið háskólanum óþjáll, þá ætla ég nú ekki, að hann fari að ganga móti þeirri stofnun í þessu máli.