10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

157. mál, happdrætti

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir einkennilegt, að hæstv. forseti skuli taka þetta mál nú á dagskrá, sem var hér til 2. umr. í gær, og var því ekki hægt að taka það fyrir nú öðruvísi en með afbrigðum, en 5. dagskrármálið er mál, sem flokkur hæstv. forseta stendur með, og í vor , sem leið lá þessu máli svo á, að þessi flokkur vildi þá láta framlengja þingið um 8 vikur til þess að afgreiða þetta eina mál. Nú hefur þetta mál legið fyrir síðan í vor, og hæstv. forseti hefur ekki séð neina ástæðu til þess að knýja það áfram nú. Þetta þykir mér undarlegt, og mun ég gera það að sérstöku umtalsefni, eins og fleira um dugnað hæstv. forseta, þegar það mál kemur fyrir til umr.

Ég vil þá leyfa mér að lýsa brtt., sem ég ber hér fram skriflega, og skal ég nú lesa hana upp, en hún er þannig:

„Við 1. gr.

a. Í stað orðanna „til 1. jan. 1960“ kemur: til 1. jan 1948.

b. Aftan við greinina bætist nýr málsliður, svo hljóðandi: Að leyfistímanum loknum skal byggingarsjóður Íslands taka til starfa samkv. ákvæðum 2. mgr. 2. gr. l. nr. 44 1943.“

Þessi brtt. sker úr um það til fulls, hvort það er ætlun þessarar d. að halda sér við tilgang laganna eins og hann var eða ekki og hvort það þykir meiri nauðsyn að halda áfram einhverjum smálagfæringum á lóð í úthverfi bæjarins heldur en að fara nú að greiða fyrir öðrum nauðsynlegum stórbyggingum fyrir íslenzka ríkið.

Annars ætla ég að gera nokkrar aths. við ræður, sem voru haldnar hér í gær og mér vannst þá ekki tími til að svara. Það eru því fyrst nokkur atriði hjá hv. 6. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að ég hefði að vísu áhuga á að koma upp stórbyggingum, en ég hefði engan áhuga á því, að lokið væri við þær. Nú skal ég taka þetta nokkuð til athugunar.

Hér í bænum eru nokkrar byggingar, sem ég hef verið riðinn við, og svo í öðru lagi byggingar, sem bærinn er riðinn við og þá þessi hv. þm. sem borgarstjóri. Hann ætti þá ekki að vera að gera aths. við mig út af þessu, því að ef hér eru einhverjar ófullgerðar byggingar, sem ég hef verið riðinn við, þá mun vera líkt ástatt hjá bænum.

Hér er nú verið að ljúka við hitaveitu, og það verk hefur staðið yfir í mörg ár og allar götur bæjarins hafa verið rifnar upp og verið þannig um lengri tíma í megnustu óreiðu og eru það margar enn. Ég veit, að borgarstjórinn vill ekki láta þetta vera svona, en öll verk, bæði stærri og minni, eru háð ýmsum annmörkum. Fyrst hv. þm. minntist á þetta, þá vil ég spyrja hann, hvort ekki geti verið eins ástatt um fleiri verk en hitaveituna, að þau verði ekki alltaf framkvæmd með þeim hraða, sem æskilegt væri. Viðvíkjandi þessum orðum, sem hv. þm. beindi að mér, skal ég taka til athugunar þær stórbyggingar hér í Reykjavík, sem ég hef verið riðinn við, og gera nokkra grein fyrir frágangi þeirra, en þær eru: Landsspítalinn, Sundhöllin, Arnarhvoll og þjóðleikhúsið. Landsspítalanum var lokið, meðan ég átti sæti í stjórn, að öðru leyti en því, að girðing var ekki sett utan um lóðina. Þá er það sundhöllin. Ég átti þátt í því, að því verki var hrundið í framkvæmd, en það voru aðrir hér í bænum, sem töfðu það mál, þegar ég fór úr stjórn, en þegar Framsfl. komst aftur til valda, þá var verkinu haldið áfram og húsið gert nothæft.

Þá er Arnarhvoll, en því húsi var fulllokið, og ég er þess fullviss, að skrifstofur stjórnarráðsins mundu nú vera í 10 stöðum, ef það hús hefði ekki verið reist. Um þjóðleikhúsið er það að segja, að fáum dögum eftir að ég fór úr ríkisstj. þá breytti Alþ. l. móti till. minni og svipti þjóðleikhúsið tekjustofni með þeirri breyt., og varð því smíði þess ekki lokið. Það var því á móti mínum till., að smíði þess varð ekki lokið og að það hefur nú staðið svo lengi hálflekið, en ekki hefur verið hægt að nota það, þegar mest lá á.

Hv. 6. þm. Reykv. man ef til vill eftir fleiri byggingum, sem ég hef verið við riðinn og hann telur, að ekki hafi verið fullgerðar, en hann skal þá bara koma með það, og ég mun þá færa fram einhverjar varnir fyrir mig.

Ég kem þá að þeirri ákvörðun, sem hv. d. virðist hafa tekið, að smáaðgerðir og dútl við háskólalóðina skuli sitja í fyrirrúmi fyrir því, að byggt verði yfir stjórnarráðið. Það virðist hér yfir mönnum þessi merkilega deyfð við að stofna eitthvað nýtt. Þegar ég hreyfði því fyrst hér að koma upp háskólabyggingunni, þá var yfir mönnum þessi sama deyfð, sem sýndi sig hér í gær við atkvgr., þegar greidd voru atkv. um það, hvort nauðsynlegra væri að byggja yfir stjórnarráðið eða laga háskólalóðina. Menn vilja gjarnan vera ráðherrar og hanga sem lengst í þeirri stöðu. Þeir hafa yfirleitt ekki nóg skapandi afl, en það er meira virði en að hanga í ráðherrastóli að sjá um það, að stjórnarráðið hafi nægilegt húsaskjól til frambúðar.

Mér finnst ekki óeðlilegt að minna á það, að hjá þessum góðu mönnum, sem stóðu að háskólanum, var það látið hjá líða, allt frá 1911–1930, að gera nokkuð til þess að koma upp húsi yfir hann. Hann var hér á neðri hæð þessa húss og gerði með því bæði sér og öðrum lífið leitt, en þeim datt ekki í hug að hreyfa því, að byggt yrði hús yfir hann.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um happdrættið, sem hann vildi þakka sér. En hann lét ekki einungis fella það fyrir sér, meðan hann var í meirihlutaaðstöðu hér á Alþ., heldur lagði hann það einnig á hilluna um margra ára skeið. Það má ef til vill segja, að það sé til hróss fyrir hann, að honum hafi dottið þetta í hug, en þegar flokkur hans var í meirihluta í stjórnartíð Jóns Magnússonar og Jóns Þorlákssonar, þá var ekki nokkur breyting á málinu, — hann lét bara drepa það fyrir sér. Ég tel þetta hliðstætt við annað hjá þessum flokki, því að honum gat aldrei dottið neitt nýtt í hug. Þegar svo kom aftur breyting á málið fyrir tilkomu annarra, þá játaði þessi hv. þm., að hann hefði verið hræddur við að taka upp málið að nýju, vegna þess að óvíst hefði verið um undirtektir. Mér virðist, að þetta hugkvæmdaleysi, þessi hugsunarháttur að vilja karast hér niður, sé nú að koma upp aftur. Nú er búið að byggja háskólann og þá er svefninn kominn aftur, sama hugkvæmdaleysið, sami þunginn.

Nú er þessi hv. þm. nýsloppinn út úr stjórnarráðinu, þessu húsi, sem ekki er verandi í, og hann hefur vafalaust liðið þar óþægindi, eins og aðrir, af því að húsið er svo ófullkomið. Þá hlýtur hann að hafa séð, hversu óviðunandi það er bæði að innan og utan. Það hefur nú að vísu verið bætt úr húsnæðisskorti stjórnarráðsins með því að flytja sum ráðuneytin upp í Arnarhvol. En engu að síður verður að halda ráðherrafundi í gamla tugthúsinu. (MJ: Það er miklu skemmtilegra hús). Þar sem góðir menn hafa gengið, eru góðir staðir, sagði Goethe. Mér dettur þessi setning í hug í þessu sambandi.

Þessi er þá saga málsins. Nú er algerlega skipt um. Áður virtust allir sammála um að láta háskólann grotna hér niður í húsinu, ekki síður kennarar og lærisveinar hans en aðrir, en nú á að halda áfram að afla fjár til hans eins og eftir einhverju aldeyðulögmáli allt í það óendanlega.

Það er táknandi, að allir hugsa nú um að stofna lýðveldi og við ætlum að byrja nýtt líf eftir 7 alda kúgun. En það örlar varla á því, að sýna beri styrk ríkisins með sæmilegum opinberum byggingum.

Á því hefur ekki bólað síðan 1881, er byggt var af litlum efnum yfir okkar litla þing. Við ætlum að stofna lýðveldi og senda sendiherra til annarra landa, jafnvel til bolsevika, þótt við höfum engin viðskipti við þá. En svo er rausnin lítil heima fyrir og kotungshyggjan mikil, að tugthúsið á áfram að vera aðsetur æðstu stjórnar landsins. Það er því ómögulegt að verja það, sem kom hér fram í gær, að framlengja einkaleyfi Háskóla Íslands til að reka happdrætti um 15 ár, af því að enn sé ýmislegt eftir ógert í kringum skólann og girða þurfi lóðina. Í því sambandi má minna á Landsspítalann, sem annaðist slík verkefni af eigin rammleik. Ég verð því að segja, að það versta við þessa hv. d. er það, hve kærulaus hún er og laus við framsýni fyrir landsins hönd.

Af því að hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, að óforsvaranlegt væri að taka af hagnaði Tjarnarbíós til að standa straum af þeim framkvæmdum. sem enn eru eftir á lóð háskólans, þar sem sá hagnaður ætti að ganga til að styrkja vísindastarfsemi þeirrar stofnunar, þá langar mig til að spyrja þennan hv. þm., sem reyndist góður vísindamaður, meðan hann starfaði við háskólann, hvernig vísindi það eru, sem ekki mega missa af neinu af bíópeningunum til þess að girða háskólalóðina. Á kannske að gefa út lögfræði Ísleifs frá Geitaskarði eða guðfræði Sigurðar Einarssonar fyrir þetta fé? En er von til þess, að Tjarnarbíó vilji gefa út rit Sigurðar Einarssonar með frumheimildum eftir lærða doktora eins og t. d. Guðbrand Jónsson? Það væri fróðlegt að vita, hvort bæjarstjórnin hefur heimilað Tjarnarbíógróðann í þessi vísindi eða einhver önnur.

Það hefur alltaf verið talið, að vísindastarfsemi væri í því fólgin að finna ný sannindi. Því er háskólinn engin vísindastofnun og háskólakennararnir ekki vísindamenn fremur en steinsmiðir eða trésmiðir, því að engar nýjungar hafa frá þeim komið.

Það er talið, að Sveinn Pálsson hafi gert heimsuppgötvun, því að hann skildi fyrstur manna eðli skriðjökla. Nú spyr ég hv. 6. þm. Reykv., hvað uppgötvað hafi verið í þessari stofnun, sem gæfi tilefni til að stofna bíó til að styrkja þá vísindastarfsemi? Það væri rétt, að borgarstjórinn gerði grein fyrir þeirri byrjunarstarfsemi.

Nú ætla ég ekki að fara að meta vísindin þarna suður frá. En ég ætla að minnast á það, sem ég hef spurt þennan hv. þm. um m. a. Ég hef spurt hann um, hvað stjórnaði þeirri afturför, sem orðið hefur síðan Páll Briem var uppi. Hann var önnum kafinn embættismaður, en gaf þó út, ásamt Klemensi Jónssyni, það eina lögfræði- og hagfræðitímarit, sem hér hefur verið gefið út og ágætt getur talizt, og voru þó skilyrði hin erfiðustu. Svo deyr þessi maður á bezta aldri. Síðan kemur hér hæstiréttur, lagadeild, og háskólinn stækkar á alla lund. Fjöldi starfandi lögfræðinga verður hér, en ekki bólar á riti, sem nálgast „standard“ þessa rits Páls Briems. Eins er þessu varið með hinar deildir háskólans. Þetta er mjög undarlegt, og úr því borgarstjórinn hefur skýrt frá þessari hugmynd til hjálpar vísindunum í háskólanum, þá er ástæða til að spyrja, hvaða spírur séu fyrir hendi í þessum efnum. Skilyrðin ættu þó að vera ólíkt betri til þessara iðkana en Páll Briem hafði. En vísindalegan áhuga virðist vanta. Hann er miklu minni en við mætti búast eftir bættum skilyrðum, og væri gott, ef hv. 6. þm. Reykv. gæti sannað, að háskólinn sýndi viðleitni í þessa átt. Ég minnist þess, að á afmæli háskólans var gefin út skrá yfir ritverk þau, sem komið höfðu út á vegum hans. En í þessari skrá var vitnað í eða talin grein í Morgunblaðinu. Það hefði þótt skrýtið annars staðar að telja blaðagrein sem afrek háskóla. Sannleikurinn mun sá, að ekkert fræðirit hafi háskólinn gefið út á borð við fræðirit þessa hv. þm. um Alþingi, sem er ágætt rit, en jafnframt það eina. Vísindaáhuginn í háskólanum hefur sofið sætum svefni, en undanskilja ber þó Árna Pálsson prófessor. Það er því alveg ljóst, að bæjarstjórnin ætti að segja við þessa stofnun, sem hún hefur gefið landið undir, að henni sé heimill gróðinn af Tjarnarbíó til að fegra og prýða lóðina, a. m. k. þar til andi vísindanna kemur yfir stofnunina. Þetta væri á engan hátt óeðlilegt, og ég treysti því, að valdamaður bæjarins geti komið þessu í kring.

Ég leyfi mér að leggja hér fram skriflega brtt. um framlengingu á einkaleyfinu aðeins til 2 ára, og síðar sé sjóðurinn látinn byrja eins og lög mæla fyrir.