08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég á hér aðeins fáar brtt. og skal því ekki verða langorður.

till., er ég mæli fyrst fyrir, er á þskj. 599, og er ég flm. að henni ásamt öðrum þm. Vestfirðinga og hv. 7. þm. Reykv. Till. gengur út á það, að sú breyt. verði gerði á 13. gr., þar sem ræðir um fjárframlag til Þorskafjarðarheiðarvegar, að framlagið til vegarins skuli einnig ná til bryggjugerðar á Langadalsströnd, að lokinni fullnaðarrannsókn á bryggjustæði.

Nú ber til þess brýna nauðsyn, að lendingarbætur verði gerðar þarna við endastöð vegarins. Nú þegar eru orðnar töluverðar samgöngur um Þorskafjarðarheiði að Djúpi, og er farið með flóabátnum til Ísafjarðar eða annarra staða við Djúp. Það er m/s Fagranes, sem annast þessar ferðir, sem er 70 tonna bátur. Það er því alveg nauðsynlegt að gera lendingarbætur á endastöð bátsins. Þegar vegurinn yfir heiðina verður svo fullgerður, þá verður enn meiri þörf þessara lendingarbóta, og segja má þá með sanni, að bryggja verði þarna ekki síður í þágu umferðarinnar en hreppsins, því að yfir þessa heiði ferðast fólk milli fjarlægra landshluta, enda hefðu 20–30 búendur í hreppnum ekki bolmagn til að standa undir slíkri bryggjugerð.

Það er álit mitt, að ríkið eigi yfirleitt að kosta lendingarbætur við enda þjóðvega, ef þeirra þarf með. Um þessa bryggjugerð, sem hér um ræðir, hef ég átt tal við vegamálastjóra, og hv. fjvn. hefur átt þess kost að tala við hann. Hann lét í ljós við mig, að sér fyndist ekki óhyggileg regla, að ríkið kostaði slíkar lendingarbætur eingöngu, þar sem allt öðru máli væri að gegna í fámennum byggðarlögum en kaupstöðum, sem hefðu sérstök hafnarlög. Mér er því óhætt að segja, að hann er því fylgjandi, að ríkið byggi bryggju á Langadalsströnd sem hluta af þjóðveginum, svo að vegurinn komi að fullu gagni. Þess vegna flytjum við þessa till.

Það er að vísu svo, að enn hefur ekki verið framkvæmd endanleg rannsókn á því, hvar þessi bryggja skuli vera. Vitamálastjóri hefur látið fara fram nokkra rannsókn á bryggjustæði á Arngerðareyri. En frekari rannsókn þarf þó að fara fram.

Ég tek það aftur fram, að till. þessi er flutt með samþykki og fullri vitund vegamálastjóra og vitamálastjóra, og ég vænti þess, að hið háa Alþ. sjái þá brýnu nauðsyn, er hér ber til. Því fremur vænti ég samþykkis á þessari till., sem hún fer ekki fram á aukna fjárveitingu. Fjárveitingin til Þorskafjarðarvegar er eftir sem áður 310 þús., einungis er bryggjugerðinni bætt við í þá fjárveitingu að lokinni fullnaðarrannsókn á bryggjustæði. Ég vænti þess því fastlega, að þessari brtt. verð vel tekið.

Þá vildi ég mæla örfá orð með brtt., sem ég á á þskj. 517. Það er fyrst styrkur til starfrækslu talstöðva á afskekktum stöðum. Ég hef flutt þetta mál áður, og náði það þá samþykki, en hæstv. fjmrh. hafði ekki tekið þennan lið upp í fjárlfrv. sitt, og einnig hafði hann fallið niður af vangá hjá hv. fjvn. Ég hef því leyft mér að flytja þessa brtt. ásamt hv. 8. landsk. og hv. 11. landsk., og þar sem ég hef fyrir satt, að samkomulag sé um þetta í fjvn., þá væntum við góðra undirtekta í þessu máli. Það eru nú starfræktar 13 slíkar talstöðvar, víða með verulegri fyrirhöfn og kostnaði, en litlu endurgjaldi. Þetta er því aðeins lítilfjörlegur styrkur til staða, sem enn hafa ekki komizt í símasamband.

Þá flyt ég brtt. um styrk til Bolvíkinga til að hafa lærða hjúkrunarkonu. Ég hafði tekið þessa brtt. mína aftur, en er fjvn. sá sér ekki fært að taka hana upp, þá leyfi ég mér að flytja hana aftur. Ég sé ekkert hættulegt við að taka þetta upp í fjárlög. Ég benti á það við 2. umr., hve oft er nauðsynlegt að hafa hjúkrunarkonu í sjávarþorpum, þar sem annríki er oft svo mikið, að erfitt er um að annast sjúkt og gamalt fólk. Allir, sem unnið geta, eru þá annaðhvort á sjó eða við vinnu í landi svo tímunum skiptir. Ég tel því ekki farið inn á hættulega braut með því að samþ. þessa litlu brtt.

Þá hef ég talað fyrir mínum brtt., og þykist ég hafa farið hófsamlega í sakirnar. En því fremur vænti ég líka árangurs af þeim fjárbeiðnum, sem koma frá mínu héraði.

En ég vildi aðeins minnast lítillega á það atriði úr ræðu hv. þm. Barð. í gær, er hann minntist á hina smávægilegu fjárveitingu til brimbrjótsins í Bolungavík. Í því sambandi talaði hann um, að verið væri að ausa út fé, að athuga þyrfti þetta mál allt frá rótum á ný o. s. frv. Ég verð að segja, að þessi ummæli hljóta að vera sprottin af misskilningi, af því að ég væni hv. þm. ekki um, að þau séu sprottin af verri hvötum.

Þannig er mál með vexti, að nú er farið fram á fjárveitingu til brimbrjótsins, af því að skemmdir hafa orðið á honum, brimið hefur rofið skarð í hann, og slitlagið ofan á honum hefur skemmzt á kafla. Til þess að gera við þetta og framkvæma nauðsynlega dýpkun innan við brimbrjótinn, þá var farið fram á þessa fjárveitingu, sem fjvn. hefur tekið upp. Það er því fjarri því, að þarna sé verið að ausa út fé án markmiðs. Þetta mannvirki er grundvöllurinn undir sjósókn þessa þorps, og á sjósókninni byggist öll atvinna þorpsbúa. Það er ekki nein tilviljun, að þetta er elzta hafnarmannvirki landsins, því að frá Bolungavík hefur löngum verið róið á ein beztu fiskimið landsins.

Ég flutti hér þáltill. í sumar, er var samþ., um að láta fara fram fullnaðarrannsókn til hafnargerðar þarna. Þessa rannsókn er nú verið að framkvæma, og að henni lokinni er ætlunin að leggja fram frv. til hafnarlaga fyrir þennan stað. Eru Bolvíkingar nú að hefjast handa um víðtækar ráðstafanir og undirbúning þar að lútandi.

Oft hefur verið til þess vitnað, hve mikið fé hafi verið varið til þessa mannvirkis. En sannleikurinn er sá, að staðurinn hefur lagt fram helminginn af öllu því fé, sem til þessa verks hefur gengið, en það er nú orðið aðeins rúmlega ½ milljón. Ríkið hefur því lagt til ¼ milljón, og er það þá sú upphæð, sem fjargviðrazt er út af. En ég verð að telja það mjög ómaklegt, þegar svigurmælum er beint til smástaða, sem hafa staðið eins vel í stykkinu og Bolungavík hefur gert í þessu efni. Og þegar hv. frsm. fjvn. gerir þá aths., að enn sé veitt fé til brimbrjótsins í Bolungavík, þá tel ég engan réttlætisgrundvöll fyrir slíkum athugasemdum.

Ég vildi aðeins rekja það, sem ég hef nú sagt, svo að þeir hv. þm., sem kynnu að hafa rangar eða litlar hugmyndir um þetta mál, mættu vita það sanna, er fram kemur frv. til hafnarlaga fyrir Bolungavík.

Ég lýk svo máli mínu með því að láta í ljós þá von, að mínum fáu og hófsamlegu brtt. verði vel tekið.