22.11.1943
Neðri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar og orðið sammála um að leggja til, að frv. verði fellt, með tilliti til þess, að komið hefur fram í hv. Ed. frv. frá hæstv. ríkisstj., þar sem á víðtækari hátt er gengið inn á þetta mál, þannig að ákveðið er í eitt skipti fyrir öll, að skattgreiðendur megi draga frá, áður en skattar eru lagðir á þá, það, sem þeir gefa til líknarstofnana Og annarra stofnana, sem eru til alþjóðlegra heilla. N. áleit, að það færi miklu betur á því, að þetta væri tekið í einu lagi, enda þótt hún sé fyllilega á þeirri skoðun, að það fyrirtæki, sem þetta mál ræðir um, eigi að heyra undir þetta. En það kom strax í ljós, að menn vildu gjarna hnýta fleiri líknarstofnanir við þetta, og gæti þá farið svo, að í meðferð þingsins gæti orðið ágreiningur um, hvaða líknarstofnanir ætti að taka með undir þetta. Það fer líka betur á, að það væri ákveðin upphæð, sem skattgreiðendum er heimilt að draga frá tekjum sínum, ef þeir vilja gefa í því skyni, sem hér um ræðir.

Ég tel mig ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta og vona, að flm. láti sér lynda, að málið er afgreitt á þennan hátt, því að það var ekki gert í þeim tilgangi að skaða málið, heldur ætlazt til, að það fyrirtæki, sem hér er um að ræða, geti komið til greina.