22.11.1943
Neðri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. og vildi láta í ljós óánægju mína yfir því, að hv. n. skuli leggja til, að þetta frv. verði fellt. Það er að vísu svo, að eftir að þetta frv. kom fram, var lagt fram frv. frá hæstv. ríkisstj., sem er allvíðtækt og fer fram á það, eins og þm. er kunnugt, að ákveðnar fjárupphæðir, sem lagðar séu fram í líknarskyni, án þess að tillit sé tekið til þess, hvaða stofnanir eiga í hlut eða til líknar á hverju, skuli taldar skattfrjálsar eða þær megi draga frá við skattaframtal, og miðaði hæstv. stj., ef ég man rétt, þessar upphæðir við kr. 10000.

Mér virðist nú, að hv. n. geri of mikið úr því, að þetta frv. er komið fram. Ég býst ekki við, að þetta frv. sé komið lengra en ef það er komið til n., og í öðru lagi er óvíst, hvern framgang það hefur, því að ekki er víst, hvernig þingið lítur á þetta, þó þar sé farið fram á það. sem stj. segir í forsendum málsins eða grg., að sé algengt í ýmsum löndum, að slíkar upphæðir séu dregnar frá skattaframtali.

Í þriðja lagi er hér talað um upphæðir, sem lagðar eru fram í líknarskyni, en eins og ég tók fram við 1. umr. þessa máls, er þessu sérstaklega háttað að því er snertir það frv., sem hér liggur fyrir, um skattfrelsi gjafa til vinnuhælis berklasjúklinga, því að forgöngumenn vinnuhælissjóðs berklasjúklinga eru með því að hjálpa sér sjálfir og um leið að vinna að mikilsverðu fjárhagsatriði fyrir þjóðfélagið, og er þetta mál að því leyti alveg sérstætt. Sú tilhliðrunarsemi, sem farið er fram á í frv., er á þá leið, að þeir sem vilja gefa gjafir til vinnuhælis berklasjúklinga, megi draga þær frá skattskyldum tekjum sínum, og er þetta þá í sjálfu sér til þess að létta undir með ríkissjóðnum á komandi árum og til að draga úr þeim óskapa fjárframlögum, sem á honum hvíla, til viðbótar því, sem einstaklingarnir verða að þola af vinnutapi og af tjóni á heilsu sinni. Mér virðist því, að hv. n. hafi ekki tekið þetta mál réttum tökum, þegar hún víkur málinu til hliðar eingöngu á þeim grundvelli, að komið hefur fram í annarri d. þingsins mál, sem aðeins er um framlög til líknarstofnana. Hér er um annars konar mál að ræða, og vildi ég, að hv. þdm. gerðu sér það ljóst. Hér er í rauninni um praktiskt atriði að ræða og fjárhagsatriði. Hér ræðir um að koma upp stofnun í ríkinu, sem geti hjálpað þeim sjúklingum, sem komnir eru svo langt á vegi batans, að þeir geta unnið létta vinnu. Vinnuhælið á að verða síðasta þrepið á leiðinni til batans, millistig, sem þarf að vera til milli berklahælisins og hinna venjulegu, daglegu starfa, sem fæstir sjúklinganna eru færir um að hverfa til, strax og þeir koma af heilsuhælinu. Það er kunnugt, að slíkir menn þola ekki sjóróðra eða erfiða útivinnu né heldur alla verksmiðjuvinnu, sem oft er sérstaklega hættuleg brjóstveiku fólki. Vinnuhælið á að miða verkefni sín og aðbúnað við hið sérstaka ástand þess fólks, sem svona er ástatt um. Þetta atriði hef ég viljað benda á, og ég treysti enn svo mikið á réttdæmi hv. alþm. í þessu efni, að ég er alls ekki vonlaus um, að þetta mál geti haft framgang, þótt hv. fjhn. hafi ekki tekið það réttum tökum. Ég segi þetta ekki til þess að álasa hv. n. fyrir það, að hún hefur litið á málið frá þessu sjónarmiði, en ég held því fram, að annað sjónarmið eigi að taka, sem sé réttara, og það eigi að ráða meira en allt líknarstarfsemistal og megi ekki verða þröskuldur í vegi fyrir þeim framtakssömu mönnum, sem margir eru illa staddir heilsufarslega, en hafa þó ráðizt í það stórvirki að reyna að koma upp vinnuhæli fyrir berklasjúklinga. Ég held, að það megi alls ekki stöðva þetta frv., þótt hæstv. ríkisstj. hafi lagt fram frv., sem almennt talað fer fram á, að fjárhæðir lagðar fram til líknarstarfsemi, hvers konar sem er, skuli vera skattfrjálsar með þeim miklu takmörkunum þó, sem segir í frv. hæstv. ríkisstj. Hér er um svo stórt mál að ræða, að menn mega ekki láta glepjast af því, þótt slíkt frv. komi fram, án þess að ég vilji á nokkurn hátt gera lítið úr frv. hv. stj. Ég held því ekki heldur fram, að það sé borið fram til þess að stöðva framgang þessa máls, því að hæstv. stj. segir um sitt frv., að hér sé um algilda reglu að ræða hjá öllum siðuðum þjóðum, að framlög í líknarskyni skuli koma til frádráttar. Hér á okkar landi hafa verið stigin svo stór spor til þess að vinna bug á þessari ægilegu veiki, berklaveikinni, svo gifturík spor, með stofnun heilsuhælanna og með fjárframlögum ríkisins til þess að vinna bug á berklaveikinni, að við megum ekki með nokkru móti leggja stein í götu vinnuhælis berklasjúklinga. Læknarnir, sem mest vita um og bezt fylgjast með daglegri líðan sjúklinganna, sem hafa þjálfun í því að ákveða, hvað þeir þola, og þekkja þessa menn vel, sem verða að þola heilsuleysi árum saman, þeir hafa lagt mikla áherzlu á það, eins og segir í fylgiskjölum þessa frv., að þessi liður í berklavörnunum komist á fót, þeta millistig fyrir sjúklingana, frá því að þeir eru ófærir til vinnu, en útskrifaðir af heilsuhælinu og til þess að þeir geta tekið við störfum sínum í þjóðfélaginu. Vinnuhælið er sú hjálparstöð, sem á að setja upp, til þess að þetta geti orðið. Eins og nú hagar til, eru tiltölulega margir af sjúklingunum, sem falla fyrir ofurborð, þegar þeir koma út af hælunum, vegna þess að þeir verða að gefa sig að störfum, sem eru þeim um megn. Gagnvart þessari staðreynd og gagnvart þeirri staðreynd, sem öllum er kunn, milljónaútgjöldunum, sem þessi veiki bakar þjóðinni, og gagnvart hinni þriðju staðreynd, sem ekki er síður kunn, þjáningum sjúklinganna og þeirra nánustu, og gagnvart hinni fjórðu staðreynd, að hér er oft um að ræða kjarnann úr þjóðinni, fólk á bezta aldri, vona ég, að þm. sýni þann skilning viðkomandi vinnuhælinu að veita því þessa litlu skattaívilnun, ekki sízt þar sem hér er um algera undantekningu að ræða, þar sem er baráttan við berklaveikina. Það má minna á margar líknarstofnanir og benda á nauðsyn þeirra, en enga þeirra er hægt að setja við hlið berklavarnanna og þess, sem þjóðin um margra ára skeið hefur lagt á sig til þess að vinna bug á þessum sjúkdómi. Þess vegna er það von mín, að þessi undantekning frá skattalöggjöfinni verði gerð.

Ég er fús til að fallast á það, að þessi ívilnun verði ekki látin gilda nema takmarkaðan tíma, til þess að reynsla fáist, sem sýni það, hvort þær miklu vonir, sem forgöngumenn vinnuhælis berklasjúklinga gera sér um þetta, ef það fæst, muni rætast. Ég er fús til að fallast á, að þessi lagastafur verði takmarkaður við tiltölulega stuttan tíma, til að byrja með t. d. eitt eða tvö ár. Það er nú orðið svo áliðið þings, að ég tel ekki tryggt að fara fram á það við n., að hún taki málið aftur til athugunar frá þessu sjónarmiði, að frv. sé gert tímabundið, því að það mundi verða til þess, að frv. yrði ekki afgreitt á þessu þingi, en ég vildi, eftir að ég hef heyrt á mál manna, fallast á slíka till. og jafnvel flytja hana sjálfur, og þætti mér vænt um að heyra frá n., hvort hún mundi halda fast við að fella frv., ef þessi breyt. yrði gerð. Vona ég, að svo verði ekki.