08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

27. mál, fjárlög 1944

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hæstv. forseta eða aðra hv. þm. með langri ræðu, en vil þó ekki láta undir höfuð leggjast að skýra með örfáum orðum þær brtt., sem ég flyt.

Ég flyt fyrst á þskj. 517 brtt. við 15. gr. fjárl., sem er XXIX. brtt. á því þskj., um 1200 kr. styrk til sjómannalesstofu í Höfn í Hornafirði. Eins og kunnugt er, er Höfn í Hornafirði allmikil útgerðarstöð, og stunda þar fiskirí ekki aðeins Austur-Skaftfellingar, heldur einnig utanhéraðsbúar. En eins og gefur að skilja, er í litlu þorpi eins og Höfn í Hornafirði fátt til skemmtunar, þegar tíð fellur svo, að sjór verður ekki sóttur. Hins vegar er mjög vel til fallið og áríðandi, að sjómenn, sem þar dvelja langtímum saman, geti átt aðgang að bókasafni til þess að veita sér dægradvöl og þekkingu á þann hátt. Þessi till. er í samræmi við það, sem tíðkazt hefur að taka í fjárl. fyrir ýmsa aðra staði.

Þá er á sama þskj. till. frá mér, XXXIV. liður, um að verja til fyrirhleðslu Virkisár í Öræfum, gegn 1/3 annars staðar að, 4000 kr. Þessu máli er þann veg farið, að í undanfarin tvö ár hefur verið veitt lítils háttar upphæð til þessa mannvirkis, sem er framkvæmt til varnar Svínafellsengjum, sem voru í bráðri hættu, þannig að það stefndi að því, að jörðin legðist í eyði, sem er gott býli og fornfrægt, eins og kunnugt er. Nú varð því ekki við komið vegna annríkis að vinna fyrir framlag það í fjárl., sem til þessa mannvirkis var veitt síðast, fyrr en í haust, og þess vegna gat ég ekki lagt fram fyrir hv. fjvn. skilríki um það, hvernig verkið stæði. En rétt eftir að hv. fjvn. hafði gengið frá till. sínum og raunverulega lokið störfum, barst mér skilagrein um það, hvernig þetta verk stendur, og einnig tilmæli um það að reyna að fá lítils háttar fjárveitingu í viðbót, sem þú væntanlega yrði lokafjárveiting, svo hægt yrði að ljúka verkinu á næsta ári, ef brtt. um þetta yrði samþ. við fjárl. Vænti ég þess því, að hv. þm. líti með velvilja á þetta mál.

Þá hef ég í þriðja lagi flutt brtt. um eina brú til viðbótar því, sem komið er inn í fjárlagafrv. við 2. umr.till. er á þskj. 605, og fer ég þar fram á, að veittar verði 40 þús. kr. til brúar á Holtakíl á Mýrum. Þessi brú er á þjóðvegi, sem er aðalflutningaleið Mýrahrepps, og hafa mér borizt tilmæli þaðan heiman að um að beita mér sérstaklega fyrir því, að brú geti komizt á þetta vatn á næsta ári.

Ég flyt svo ásamt öðrum hv. þm. brtt., sem ég sé ekki ástæðu til að mæla sérstaklega fyrir, þar sem það verður gert af 1. flm. brtt. á sínum tíma, og læt ég því máli mínu lokið.