09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Fjhn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd. Þó hefur hv. 3. landsk. áskilið sér rétt til brtt. Ég geri ráð fyrir, að brtt. hans, sem enn er ekki fram komin, verði þá á þá leið að leggja til, að ríkið legði fram nauðsynlegt fé til þess að koma hælinu .upp. N. er öll sammála um, að svo brýna nauðsyn beri til þessa máls, að ekki megi dragast hóti lengur að reisa hælið. Hins vegar get ég sagt fyrir mig og fleiri nm., að við erum ekki hrifnir af þessari aðferð til tekjuöflunar, að gjafir séu undanþegnar skatti með l. Ég hefði fremur kosið, eins og hv. 3. landsk., að hægt væri að fá ríkið til að leggja fram nægilegt fé til framgangs þessa máls. En nú hefur þesi leið verið reynd í Nd., og það sýndi sig, að hún hafði ekki meiri hluta þm. að baki sér. Ég get því aðeins fylgt þessu máli á þeim forsendum, að hér er um baráttu móti bráðri hættu að ræða, sem ekki má láta undir höfuð leggjast.

Ég er í engum vafa um, að ein meginorsök þess, hvað margir veikir sjúklingar koma veikir aftur inn á hælin, er sú aðbúð, sem þeir hafa, eftir að þeir útskrifast af hælunum. Það er aðeins út frá þessari forsendu, sem ég aðeins í þessu einstaka tilfelli get veitt atkv. mitt tekjuöflun eins og þessari, og ég vil leggja áherzlu á, að ekki sé litið á þetta sem fordæml. Ég geri ráð fyrir, að mér sé óhætt að segja það fyrir hönd n., a. m. k. fyrir hönd margra nm., að þess er óskað, að ekki verði litið á þetta sem fordæmi. En ef einhverjir nm. líta öðru vísi á, þá leiðrétta þeir það. Enn fremur felst í þessu talsverð takmörkun, þar sem þetta skattfrelsi, sem hér er um að ræða, gildir aðeins fyrir eitt ár, eins og frv. kom úr Nd., og þegar sú breyt. hefur verið gerð á frv., horfir málið talsvert öðruvísi við.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að frv. verði vísað til 3. umr.