09.12.1943
Efri deild: 62. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

105. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason) :

Ég biðst afsökunar. Ég gleymdi að geta þess, að ég flyt brtt. á þskj. 600, en hún er í raun og veru ekki efnisbreyt., heldur aðeins leiðrétting. Þessi breyt. er á þá leið, að aftan við 1. gr. frv. bætist „eða sveitar“. Það stendur í frv., að draga megi gjafir til vinnuhælisins frá skatti til ríkis og bæjar, en láðist að bæta við „til sveitar“. Hefði verið nægilegt að segja „til bæjar- og sveitarfélaga“.

Hér er áreiðanlega ekki um efnisbreyt. að ræða, því að frv. er þannig hugsað, að þessar gjafir megi draga frá skattskyldum tekjum til ríkis og sveitarfélaga yfirleitt. Það hefði ef til vill mátt leiðrétta þetta, án þess að frv. þyrfti að fara til Nd. aftur, því að ég lít svo á, að þetta sé aðeins leiðrétting. Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti treystir sér til þess, en ef svo væri. þá er ekki þörf að láta brtt. mína koma til atkv. Ég hef borið brtt. fram til vara, ef hæstv. forseti skyldi líta svo á, að þörf sé á að greiða atkv. um þetta atriði.