02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

149. mál, hlutatryggingarfélög

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Frv. sama efnis hefur legið fyrir undanförnum þingum og ýmist dagað uppi eða verið vísað frá með rökstuddri dagskrá, svo sem varð á s. l. þingi. Í þeirri dagskrá var þess óskað, að ríkisstj. léti mþn., sem búið var að ákveða að skipa í sjávarútvegsmálum, undirbúa málið betur og leggja frv. um það fyrir Alþingi, og er þetta frv. ávöxtur þess. Með því er ráðgert, að stofnuð verði félög, sem bindist samtökum um það að leggja vissan hluta af brúttóverði afla þeirra skipa og báta, sem stunda fiskveiðar með hlutaráðningu, en ríkissjóður leggi samtökunum fé á móti, og verði öllu fénu varið til hlutatrygginga. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir að hafa þetta skyldutrygging, og hefur deilan staðið um, hvort það væri rétt eða tryggingarnar ættu að vera frjálsar. Þessi þd. hefur hallazt að hinu síðara, og þeirri skoðun hefur mþn. fylgt. Hún byggir tillögur sínar á svörum, sem hún hefur aflað sér frá útgerðarmönnum og sjómönnum á mörgum stöðum, og hafa þeir yfirleitt ekki fallizt á skyldutrygging, þótt þeir væru að öðru leyti málinu hlynntir. Sjútvn. leggur eindregið til að samþ. frv. í því formi, sem það hefur fengið.