08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

27. mál, fjárlög 1944

Ásgeir Ásgeirsson:

Mér þykir gott að sjá, að tveir úr hv. fjvn. eru hér viðstaddir, því að við þá vildi ég tala, og vænti ég þess, að þeir skili því, sem ég hef fram að flytja, til annarra nm.

Ég flyt á þskj. 599 brtt. um styrk til menningarsjóðs Flateyrar, 5000 kr. og til vara 3500 kr. Þessi sjóður er stofnaður til að styrkja sjúklinga og til almennrar heilbrigðisstarfsemi í Flateyrarþorpi. Þessi sjóður er styrkhæfur á sama hátt og sams konar sjóðir, sem nú eru í fjárl. Hann hefur tvisvar áður notið nokkurs styrks, samtals 1600 kr., og er hann nú þó nokkuð hár, eða um 22 þús. kr.,en hefur nú vitanlega lækkað að verðgildi. Ég vænti því, að Alþingi sýni honum þá velvild að veita honum þá upphæð, sem ég fer fram á.

Þá flyt ég brtt. á þskj. 605 um að veita stj. heimild til að greiða Þingeyrarhrepppi allt að 150000 kr. aukastyrk til að efla útgerð í hreppnum, og hafi hreppsnefnd ráðstöfunarrétt fjárins í samráði við ríkisstj. Hér er átt við, að greiddur sé aukastyrkur, þ. e. a. s. að útgerðin þar á staðnum missi þar fyrir ekki aðra tekjumöguleika samkv. sérstökum l. Það stendur sérstaklega á um þennan hrepp, og getur enginn hreppur jafnazt á við hann, sem betur fer, vegna þess hve mikil óhöpp hafa komið þar fyrir. Í upphafi stríðsins voru þar fjögur allsæmileg skip, þrír línuveiðarar og einn stór vélbátur. Snemma á stríðstímanum var einn línuveiðarinn seldur og sökk nokkru síðar. Annar línuveiðarinn fluttist að vísu burt úr hreppnum og varð fyrir árás sem kunnugt er, og féllu þar nokkrir af beztu sjómönnum Dýrafjarðar, og nokkru síðar sökk skipið, og mun því hvorugt koma framar til síns gamla staðar. Nokkru síðar fékk þorpið nýjan bát, sem nokkrir menn í hreppnum höfðu tekið sig saman um að útvega með ærnu verði. Fór hann nokkrum sinnum á sjó, og úr síðasta róðrinum kom hann aldrei. Fannst aðeins nokkurt brak úr bátnum. Hafði hann sennilega orðið fyrir skothríð. Allir menn fórust. Þegar þannig fór, að skip það fórst, sem hafði kveikt vonir í brjóstum manna á þessum stað, og það var eign einu mannanna, sem gátu lagt fram fé í þessu skyni, þá er nú svo komið, að í þessu gamla fiskiþorpi, sem verður að sækja alla sína björg í sjó, er enginn maður, sem getur lagt fram fé til að kaupa ný skip, og aðeins tvö skip eru þar eftir. Sem betur fer hefur enginn annar hreppur á landinu slíka sögu að segja um skipatjón og mannfall. Nú er vitað, að hreppsbúar þurfa á einhvern hátt að bæta þetta skarð. Mér er ekki kunnugt um, að neinn stríðsgróði sé þar eftir. Hitt veit ég, að hreppsbúar munu reyna það ýtrasta, ekki sízt ef ríkið vill nú gera hvort tveggja í senn, sýna samúð sína og rétta hjálpandi hönd. Hreppsfélagið hefur áður af veikum mætti reynt að styðja að því, að bátar kæmust upp, en er nú þess ekki megnugt að neinu verulegu leyti, nema hjálp komi til, en hennar er ekki að vænta nema frá ríkissjóði.

Mönnum finnst kannske fram á mikið farið í þessari till., en ég vil benda á, að hún fer þó ekki fram á meira en andvirði eins vélbáts, og er þó ekki ætlazt til, að þessu fé verði varið til að kaupa eitt skip, heldur styðji að því að koma upp fleiri og stærri skipum.

Einhverjir segja kannske sem svo, að þetta sé nokkuð einstök till., en hún er það ekki, því að á síðasta þingi var samþ. 150000 kr. styrkur til þeirra manna, sem höfðu misst báta sína. Þessi upphæð skiptist vitanlega á marga báta, þar á meðal vitanlega nokkur upphæð, ekki stór, á einn bát, sem ég hef nú nefnt, Hólmstein frá Þingeyri. Þetta er ekki heldur óskylt því, þegar í fyrra var veitt fé til styrktar bændum norður á Snæfjallaströnd, sem höfðu misst fé sitt, eða þegar styrkur var veittur fólki á Dalvík vegna jarðskjálfta, eða þegar þeir voru styrktir, sem höfðu orðið fyrir barðinu á Kötlugosinu á sinni tíð. Þessi óhöpp á Þingeyri eru á allan hátt sambærileg við þau slys, þar sem ríkið hefur talið, að sér bæri að veita fjárhagslega aðstoð. Ég ber því hiklaust fram þessa till. viðvíkjandi þessum hreppi, sem er einstakur nú, sem betur fer, að þessu leyti, og einnig þar sem hliðstæður styrkur hefur áður verið veittur í fjárl.