08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki komið með brtt. til hækkunar við þetta frv., svo að neinu nemi, en ég á einar þrjár till. um formsbreyt. á frv., og skal ég koma að þeim bráðlega.

Ég vil byrja á að minnast á brtt. fjvn. Það er 8. till. á þskj. 474, viðvíkjandi launum biskups. Í fjárlfrv. eru biskupi nú eins og áður ætlaðar til risnu 2000 kr. Ég held, að það sé flestra álit, að það sé eðlilegt, að hann fái nokkra fjárhæð til risnu, þar sem hann er yfirmaður kirkjumála í landinu, því að það er alkunnugt, að hann hefur raunverulega geysimikla risnu og miklu meiri en þessari fjárhæð nemur. Hv. fjvn. kom með till. um það við 2. umr. að fella risnuféð niður. Var það ekki, svo að ég tæki eftir, rökstutt neitt, og féllst n. á að taka þessa till. aftur til 3. umr., en hefur hins vegar ekki viljað láta hana niður falla. Kemur hún því nú með þá till., að þetta skuli heita launaviðbót, en ekki risna. Það má í fljótu bragði líta svo á, að það komi í einum stað niður, hvort það heitir launaviðbót eða risnufé, en svo er þó ekki í raun og veru, því að ef laun manna komast þótt ekki sé nema lítið eitt upp, þá fer viðbótin að verulegu leyti í skatt, einkum ef ekki er persónufrádráttur, og þannig mun það vera um biskup nú, að hann hefur ekki persónufrádrátt nema fyrir sig og, sína konu, því að þótt börn hans séu raunverulega á framfæri foreldra sinna, þá er ekki persónufrádráttur fyrir þau. Ég vil því mælast til þess við hv. þm., að þeir létu þetta litla risnufé biskups í friði, eins og til var ætlazt af hæstv. ríkisstj.

Þá hef ég ásamt hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm.. Siglf. flutt tvær brtt. á þskj. 546, en það er aðeins formsbreyt. á frv. Í frv. stj. stendur í 2. gr. 16: Útflutningsgjald 1500000 kr. Þetta eru ekki lengur tekjur ríkissjóðs, heldur rennur það samkvæmt sérstökum l. til Fiskveiðasjóðs Íslands. En að það stendur þarna, geri ég ráð fyrir, að sé vegna þess, að áður voru þetta tekjur ríkissjóðs og þess vegna tekið upp eftir fyrri fjárl. Þetta viljum við láta taka burt og einnig 8. lið á sama þskj., sem er sama upphæð til fiskveiðasjóðs. Þessar till. eiga saman, — ef önnur er tekin burt, á hin að fara líka. Þetta er aðeins formsbreyt., og er rétt að taka báða liðina burt. Að sönnu annast ríkissjóður innheimtu þessa gjalds, en það stendur eins á með fleiri gjöld, t. d. til fiskimálasjóðs, sem eru innheimt af embættismönnum ríkisins, þó að þau fari til sérstakra sjóða, en koma þó ekki í fjárl.

Ég skal þá nefna eina till., sem ég hef nú flutt, sem horfir til útgjalda. Ég flyt hana ásamt hv. 9. landsk., hv. 2. þm. Reykv., hv. 4. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Skagf. Hún er um það að veita Árna Thorsteinsson tónskáldi 3000 kr. viðurkenningu í 18. gr. fjárl. Þessi maður er fyrir löngu þjóðkunnur og er einn af þremur tónskáldum landsins, sem hér héldu uppi tónlistarmennt, hinir voru þeir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson. Nú er hann kominn nálægt áttræðu, og menntamálaráð hefur ekki getað tekið hann með í fjárveitingar hjá sér, svo að þessi aldraði listamaður hefur ekki fengið neina viðurkenningu frá ríkinu. Okkur þótti rétt að minna Alþingi á verðleika þessa manns og væntum þess, að allir þm. séu okkur sammála um, að hann sé verður þessarar viðurkenningar.

Loks skal ég koma að brtt., sem ég á við 22. gr., sem er brtt. í aðra átt en flestar aðrar till. við frv. Hún er um það að heimila stj. að lækka útgjöld ríkissjóðs, sem eru ekki bundin í öðrum l. en fjárl., um allt að 30%, ef stj. telur, að verulega skorti á, að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum. Þessi varnagli var sleginn 1941, og þótti þetta þá nauðsynleg varúðarregla. Nú, þegar vænta má, að fari að halla undan fæti og hinar miklu tekjur ríkissjóðs fari að rýrna af þeim ástæðum, að verðlag í heiminum kunni að fara að komast eitthvað nær því eðlilega, þá er alveg nauðsynlegt að hafa þessa heimild fyrir ríkisstjórnina. Og einkum hefur mér sýnzt réttmætt að koma með þessa till. vegna þess, að mér virðast margir hv. þm. telja, að fjárl. séu mjög ógætilega úr garði gerð frá hv. fjvn. Þegar fjárlagafrv. kom frá hæstv. ríkisstjórn, voru gjöldin áætluð, að mig minnir, 68 millj. kr., en nú eru þau við 2. umr. komin, að ég held, úr 68 millj. og í 88 millj. kr., m. ö. o. hafa hækkað um 20 millj. kr. Og eftir þeim till., sem fjvn. er nú búin að gera, þá mundu þau við það eitt hækka í a. m. k. 100 millj. kr. eða heldur yfir það. Og þá eru eftir ótaldar allar hækkunartill. einstakra hv. þm., sem vænta má, að sumar verði samþ. Og enn telja menn, að ýmsar samþykktir þingsins, sem eru ekki í fjárl., muni krefjast kannske allt að 20 millj. kr. útgjalda. Og þá skilst mér, að hæstv. Alþ. sé búið næstum að tvöfalda útgjöldin frá því, sem hæstv. ríkisstjórn gerði ráð fyrir í sínu frv. Ég sé ekki, að þetta megi fara alveg aðgerðalaust. Meðan ekki er séð, að séð verði fyrir tekjum með öðru móti en að breyta tölum á fjárlagafrv., en ekki með tekjuaukal., þá sýnist mér með þessu stefnt út í fullkomið óefni, sem ég tel, að verði, ef ríkisstjórnin verður annaðhvort að hætta greiðslum eða setja ríkið í tugmilljóna skuldir. Og ég geri þessa till. með enn meira öryggi um, að hún sé rétt, þar sem ég hef heyrt því hreyft af nokkrum hv. þm., að hv. fjvn. hafi leiðzt út í ógætilega miklar hækkanir á fjárlagafrv.