08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

27. mál, fjárlög 1944

Forseti (GSv):

Þessi umr. fjárl., 3. umr., heldur nú áfram í dag, og þó getur það orðið slitrótt um of, ef hv. þm. standa ekki að fundum og einkanlega athuga ekki að kveðja sér hljóðs í tæka tíð. Það fer nú að verða svo, að þó að margir ætli sér að taka til máls, þá hafa þeir ekki hirt um það af ýmsum ástæðum að kveðja sér hljóðs, og ekki hefur heldur verið hert á eftir þeim með það. En þeir, sem vilja taka til máls nú í dag og einnig í kvöld, eru hvattir til að láta skrá sig á mælendaskrá, og er talið, að ekki muni veita af tímanum kannske til miðnættis til þess að ljúka umr. En hv. þm. geta átt á hættu að verða út undan með að tala fyrir sínum málum, ef þeir láta ekki skrá sig í tæka tíð. Þeir geta þá átt á hættu, að umr. verði lokið, og er þá það mál úti.

Þó að nægur tími hafi að vísu verið til að koma fram með brtt. við fjárl., þá eru þær nú að berast, og er það ekki góð hentisemi, því að ég fullyrði, að hv. þm. hafa haft nógan tíma til þess að koma með brtt. Nú hefur verið tekið við brtt. frá hv. þm., og er nokkur syrpa óprentuð af þeim, og þó að erfitt sé að prenta þær að degi til, þá er það þó erfiðara að nóttu. Það verður leitast við að prenta það af brtt., sem eftir er nú í skrifstofunni, en ekki heldur meira. Þær brtt. sem koma hér eftir, verða að vera sem skrifl. brtt.

Og sem sagt, þeir, sem ætla að taka til máls við þessa umr., er óskað að láti skrá sig. Ef þess verður ekki gætt, þá getur svo farið, að þessi umr. endi fyrr en varir, - og harma ég það ekki.