01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

84. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Sigurður Guðnason:

Þetta frv. er að vísu vel undirbúið af búnaðarfélaginu og n. En ég get ekki látið hjá líða að gera nokkrar athugasemdir við það, af því að ég er á móti þeirri stefnu, sem í því felst, um ættaróðul og sölu þjóðjarða. Ef koma á í veg fyrir jarðabraskið, sem öllum er til tjóns, þá má benda á, að uppi hafa verið fjölmargar raddir um, að ríkið sjálft eignaðist sem mest af jörðunum, og er ég fylgjandi þeirri stefnu. En þá hafa aðrir, sem gátu ekki fellt sig við, að ríkið eignaðist jarðirnar, fundið upp á því að gera þær að ættaróðulum. En mér finnst, ef þetta á að verða til þess að halda ættinni við jörðina, að hér sé um misheppnaða tilraun að ræða, því að raunverulega er verið að taka erfðaréttinn af sumum afkvæmunum, áður en þau fæðast. Það er oft svo með foreldra, sem eiga mörg börn, að börnin létta undir með þeim, þegar þau vaxa upp. En ég er mjög í efa um, að þau mundu eins vinna heimilinu, ef eitt systkinanna aðeins ætti að taka við því. Ég er næstum sannfærður um, að þetta yrði þvert á móti til að losa börnin frá heimilinu og fækka fólkinu í sveitunum. Ég er því á móti þessu.

Þá er óðalsbóndi ekki skilyrðislaust skuldbundinn til að sjá fyrir fyrrverandi óðalsbónda og konu hans, þótt þau þurfi þess með. Hefur hann leyfi til að biðja sveitina aðstoðar eða koma foreldrum sínum eða fyrirrennurum á framfæri hinna barnanna, sem ekkert hafa erft. Ekki þarf hann að hafa fyrirgert óðalsrétti sínum af þessum sökum, en það hefur hann gert, ef hann eyðir fylgifé jarðarinnar. Þetta kalla ég ranglátt.

Miðköflum frv. er ég svo sammála, unz kemur að kaflanum um ættarjarðir. Þær er skyldugt að bjóða ættingjunum fyrir fasteignamatsverð, ef á að selja þær. En samkvæmt 2. brtt. landbn. hefur það nú verið dregið út úr frv., að skyldugt skuli að gera þessar jarðir að ættaróðulum kaupendanna. Þannig skapast sá möguleiki, að maður geti selt hæstbjóðanda þá jörð, sem hann hefur sjálfur fengið með fasteignamatsverði.

Þá er síðasti kafli frv. Ég er algerlega á móti því, að jarðirnar séu seldar með þeim hætti, að maður, sem er búinn að búa í 5 ár á þjóð- eða kirkjujörð, geti fengið ábýlisjörð sína keypta með því að gera hana að ættaróðali. En ef hann ætlar að gera sína eigin jörð að ættaróðali, sem hann er búinn að eiga lengi, þá þarf jörðin að hafa verið í 100 ár í eigu eða ábúð hans og ættingja hans.

Ég er algerlega á móti sölu þjóðjarða.

Svo er eitt, sem kemur þarna fram og sýnir mismun nokkurn á högum manna, eftir því, á hvaða tímum er. Í l. er nú, að viðtakanda beri að greiða til samarfa sinna í allt að 25 ár 3% af fasteignamatsverði jarðarinnar, en hér er í 5. gr. frv. lagt til, að óðalserfingi greiði fráfaranda eða búi hans helming af þáverandi fasteignamatsverði jarðarinnar. Að þetta á allt að greiða strax, sýnir, að það er skoðun manna, að afkoma bænda sé betri nú en hún hefur áður verið.

Eins og ég hef tekið fram, er ég á móti því að selja þjóðjarðir og þá sérstaklega á móti því að láta þá, sem kaupa þjóðjarðirnar, fá betri kjör en þegar keypt er af einstaklingum. Stefnan hefur fremur verið sú, að ríkið keypti jarðirnar af einstaklingum, og get ég ekki betur séð en það hljóti að vera brot á þeim trúnaði, sem hv. þm. er sýndur, ef þeir breyta svo um stefnu, að þeir geri mönnum auðveldara að kaupa jarðir af ríkinu en einstaklingum, og ef þeir ætla að verja þannig ríkiseignum á annan veg en stjórnarskráin viðurkennir.

Að endingu vil ég segja það, að ég hef ekki gert brtt. við þetta frv., en ég mun greiða atkv. móti síðari kafla þess, um erfðaréttinn.