08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég skal vera fáorður. Ég átti við 2. umr. aðeins tvær brtt. við fjárl., sem báðar voru felldar. En nú sé ég, að hv. fjvn. hefur tekið upp aðra till. í dálítið öðru formi, farið þó rífar í sakir en ég fór fram á, þar sem hún leggur til, að tillag til póst- og símahúss Akureyrar verði hækkað úr 200 þús. kr. upp í 350 þús. kr. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir að hafa litið þannig á þetta mál. Því að hv. fjvn. hefur sannfærzt um, að það ætti að hækka þessa upphæð.

Ég vildi leyfa mér að benda á tvær brtt., sem ég ber hér fram. Önnur er á þskj. 517, og stend ég einn að þeirri brtt. Það er XXI. brtt. á því þskj., við 14. gr., til Akureyrarkirkju 5 þús. kr. Þetta er í raun og veru ekki nýtt mál, því að ég hef borið fram slíkar brtt. hér á undanförnum þingum. En ég hef orðið var við það, að það gætir dálítils misskilnings hjá hv. þm. um það, að hér sé verið að sníkja styrk til Akureyrarkirkju. En það er misskilningur. Þetta er ekki annað en réttlát krafa um endurgreiðslu á fé til kirkjunnar, fé sem ríkissjóður hefur fengið frá kirkjunni í upphafi. Akureyrarkirkja eða Hrafnagilskirkja var lénskirkja með töluverðum eignum, sem ríkið tók til sín. En þegar kirkjan var afhent söfnuðinum, var eignum hennar ekki skilað. Söfnuður Akureyrar fór þá fram á, að þessar eignir yrðu metnar til verðs og gerði kröfu um 50 þús. kr. úr ríkissjóði um leið og kirkjan væri afhent. Þáverandi kirkju- og kennslumálarh., Hermann Jónasson, lét lögfræðinga rannsaka þetta mál, og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki hægt að ganga fram hjá því, að Akureyrarkirkju bæri að fá endurgreitt eitthvert fé fyrir þessar jarðeignir. Og það varð svo niðurstaðan í kirkju- og kennslumálaráðuneytinu að leggja til, að greiddar yrðu 30 þús. kr. fyrir þessar eignir til kirkjunnar. Þetta gerði söfnuðurinn sig ekki ánægðan með. Ég sem þingmaður kjördæmisins tók við þessum 30 þús. kr., að vísu með ummælum um, að ég mundi gera kröfu um, að afgangurinn yrði einnig greiddur, þessar 20 þús. kr., svo að alls yrðu greiddar 50 þús. kr. Og í kreppunni á árunum 1938 og 1939 þá voru greiddar 10 þús. kr. alls í viðbót við þær 30 þús. kr., sem áður höfðu verið greiddar. Nú fer ég fram á, að greiddar verði til Akureyrarkirkju 5 þús. kr. í viðbót. Ef sanngjarnt hefur verið að greiða 50 þús. kr. fyrir stríð fyrir þessar eignir, þá er ekki óeðlilegt, að söfnuðurinn fái þessa upphæð nú, þar sem ekki er farið fram á neina hækkun úr 50 þús. kr. fullnaðargreiðslu þrátt fyrir verðhækkun, sem hefur átt sér stað. Ég er ekki að fara fram á neina slíka hækkun.

Þá á ég hér aðra brtt. ásamt ýmsum hv. þm. á þskj. 599, nr. XI. Það er brtt. við 17. gr. XXI, um það, að styrkur til Dýraverndunarfélags Íslands, sem hefur um langt skeið staðið á fjárl. og verið 1000 kr., verði hækkaður í 5 þús. kr. Við sjáum, að í þessum fjárl. er verið að hækka ýmsa styrki til einstakra manna og félaga. En það hefur alveg verið hlaupið yfir þetta félag, Dýraverndunarfélag Íslands, sem á ekki síður skilið en önnur félagsstarfsemi, að litið sé á það með velþóknun. Þetta félag er gömul og æruverð stofnun, sem ég álít, að beri að virða og styðja. Þetta er mannúðarstofnun, sem er ekki að vinna fyrir peninga. En það kostar nokkurt fé að halda starfsemi þessarar stofnunar áfram með alvöru. Blaðaútgáfa Dýraverndarans hefur verið tiltöluleg ódýr í resktri; þó hefur hún ekki alveg staðið undir sér sjálf. En nú síðasta árið hefur orðið veruleg hækkun á pappír og prentunarkostnaði, og hefur tekjuhalli á útgáfunni orðið 4700 kr. Ég geri ráð fyrir, að allir, sem dýraverndun unna hér í þessu landi, — og þeir eru margir hér á landi, sem hlynntir eru þessari starfsemi, — muni sakna þess sérstaklega, ef blaðaútgáfa þessa félagsskapar fellur niður. En það er ekki annað sýnna en úr þeirri blaðaútgáfu verði að draga, í stað þess að átt hefði fremur að auka hana og efla, svo sem með því að gefa út aukablað fyrir börn um það efni, sem Dýraverndarinn ræðir um. Þess vegna ætti að hækka þennan styrk. — Það var einn hv. þm., sem ég benti á þessa till., sem vísaði mér á bug með þeim rökum, að hefði félagið haldið Tungu, þá væri öðru máli að gegna. Hvort sem þetta er bara afsökun eða ekki, þá er það á misskilningi byggt, ef slíkt ætti að nota sem rök á móti þessari brtt. Því að hafi það verið réttmætt af félaginu að eiga Tungueignina, þá er bærinn búinn að kaupa þá eign og er búinn að leigja hesthúsið, og kemur það því í sama stað niður. En Dýraverndunarfélagið hafði ekki keypt þessa eign til þess að hafa hesthúsið til afnota fyrir eigendur lúksushesta bæjarins til þess að hafa hestana þar. Upphaflega var þetta gert til þess að hýsa utanbæjarhesta, sem oft sáust áður hálfa til heila daga hér í höfuðstaðnum í kafaldi og kulda undir beru lofti. En nú eru bílarnir komnir og fáir utanhéraðsmenn koma nú ríðandi hingað til bæjarins. Á Akureyri lét amerískur milljónaeigandi reisa byggingu með það fyrir augum að hafa þar gistihús og einnig griðastað fyrir hesta ferðamanna. Eftir því sem tímar liðu og samgöngur breyttust og menn fóru að ferðast í kaupstað á bílum og flytja vörur heim á bílum, hættu þeir að nota þetta hesthús. Hesthúsið stóð tómt, nema aðeins í aftökum, þegar bílferðir stöðvuðust og menn hafa orðið að fara með sleða, og þurfa menn þá að fá afdrep fyrir hesta sína. Þannig er þetta einnig hér í Reykjavík. Það er ekki lengur þörf á að reka Tungu eins og hún hefur verið rekin vegna ferðamannahesta. En þó kemur hún til nota fyrir hesta bæjarins. En tilgangur Dýraverndunarfélagsins var ekki að líkna þeim hestum, þar sem þeim var í öllu falli séð fyrir húsaskjóli.

Ég vil sérstaklega mæla með þessari brtt. Auk mín eru 8 þm. aðrir, sem að henni standa, og vona ég, að hún fái góðan hljómgrunn á hæstv. Alþ.